02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (1827)

346. mál, raforkuverð til fjarvarmaveitna

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það er litlu við að bæta.

Ég vil aðeins koma því sjónarmiði á framfæri, að ég tel að öðru jöfnu eðlilegt að menn stefni að vatnskerfum á þéttbýlisstöðum a. m. k. þar sem ekki er orðið þeim mun meira um beina rafhitun nú þegar. Þetta segi ég vegna þess að vatnshitunarkerfi halda opnum mörgum möguleikum sem kunna að opnast og reynast hagkvæmir, bæði jarðvarma, hugsanlegri rafhitun með rafskautskötlum, svonefndum fjarvarmaveitum, nýtingu á afgangsvarma frá iðnaði o. s. frv. Ég vil síður en svo draga úr því, að menn séu bjartsýnir hvað þá möguleika snertir.

Ég get tekið undir með síðasta hv. ræðumanni, hv. 5. þm. Suðurl., að það er víðast hvar í þéttbýli að minni hyggju skynsamlegt að stefna að vatnskerfum, en beinni rafhitun frekar í strjálbýli. Þess má geta t. d., að Svíar hafa tekið fyrir beina rafhitun á þéttbýlisstöðum, hafa markað um það stefnu og gert það að skyldu, að ég best veit, að byggja upp vatnskerfi í sambandi við húshitun í þéttbýli.