02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2164 í B-deild Alþingistíðinda. (1829)

349. mál, afstaða til atburða í El Salvador

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykn. hefur á þskj. 159 lagt fyrir mig fsp. um hver sé afstaða ríkisstj. til þeirra atburða og þeirrar stjórnmálalegu og hernaðarlegu þróunar sem átt hefur sér stað í El Salvador á undanförnum misserum. Þessi mál hafa ekki verið rædd innan ríkisstj., en ég og rn. mitt höfum fylgst með þróun mála í El Salvador eins og kostur hefur verið. Í því sambandi vil ég þó strax taka fram, að fréttir af atburðum í El Salvador hafa oft verið af fremur skornum skammti og oft litaðar sjónarmiðum þess deiluaðila sem komið hefur þeim á framfæri. Undirrót þess skelfingarástands, sem ríkt hefur í El Salvador, er án alls vafa hið gífurlega þjóðfélagslega óréttlæti, sem þar hefur viðgengist, og það hyldýpi, sem skilur hina fámennu yfirstétt frá öllum landslýð.

Þó að fréttir frá El Salvador verði að taka með fyrirvara er auðvitað ljóst að í landinu er háð borgarastyrjöld og herforingjastjórnin er hrein ógnarstjórn. Herforingjastjórnin hefur lýst því yfir, að hún muni beita sér fyrir endurbótum, m. a. með því að taka landssvæði úr höndum stærstu landeigendanna og skipta þeim á milli smábænda og jafnframt efna til lýðræðislegra kosninga í landinu í mars á næsta ári. Framkvæmd þessara fyrirheita er óhjákvæmilega í algerri óvissu meðan óöld ríkir í landinu, og því hlýtur fyrsta skrefið að verða að reyna að stilla til friðar milli stríðandi afla og koma á almennum mannréttindum.

Ástandið í El Salvador hefur verið til umræðu hjá Sameinuðu þjóðunum, bæði á Allsherjarþinginu 1980 og 1981. Á báðum þessum þingum hafa komið fram ályktunartillögur sem fyrst og fremst harma það ástand ofbeldis og mannfyrirlitningar sem ríkir í El Salvador, beina því til ríkisstjórnar landsins að bæta úr ástandinu og leita sætta, en jafnframt er í tillögunum skorað á ríkisstjórnir annarra ríkja að senda ekki vopn til El Salvador eða veita deiluaðilum þar aðra hernaðaraðstoð. Enn fremur er í þessum ályktunartillögum undirstrikað að það séu eingöngu íbúar El Salvador sjálfir sem ákveða eigi stöðu sína og framtíð án afskipta nokkurra utanaðkomandi aðila, en að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna beri að fylgjast náið með þeirri þróun sem þar verður á næstunni í framkvæmd mannréttinda og annarra grundvallaratriða mannfrelsis.

Ísland hefur lýst yfir fullum stuðningi við þessar ályktunartillögur og greitt þeim atkvæði og hafa þær báðar hlotið samþykki Allsherjarþingsins. Afstaða okkar er í fullu samræmi við þá grundvallarstefnu sem við höfum fylgt frá upphafi í slíkum málum og undirstrikað í viðræðum við önnur ríki. Þeirri stefnu lýsti ég einnig afdráttarlaust í ræðu minni við upphaf 36. Allsherjarþingsins á s. l. hausti, en þar sagði ég orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Í upphafsorðum sáttmála Hinna sameinuðu þjóða segir að við séum staðráðnir í því að staðfesta að nýju trú á grundvallarréttindi manna, virðingu þeirra og gildi. Til þess að ítreka enn frekar þennan ásetning höfum við gefið út hátíðlega yfirlýsingu um mannréttindi. Með þetta í huga er dapurlegt að horfa upp á þá staðreynd, að brot gegn þessari grundvallarreglu gerast æ tíðari í stórum hlutum heims. Ofbeldi og hervaldi er grímulaust beitt að geðþótta stjórnvalda, hvort sem er til að kúga einstaklinga, minnihlutahópa eða heilar þjóðir til hlýðni við stjórnmálaskoðanir valdhafa, trúarskoðanir þeirra eða hvað annað sem þeim þóknast að kúga til hlýðni við. Fangelsanir, pyntingar og aftökur eru orðið daglegt brauð í mörgum ríkjum innan vébanda samtaka okkar, þrátt fyrir þær ótvíræðu skyldur sem við höfum tekið á okkur með aðild að þessum samtökum. Ég vil undirstrika að ég tel það eitt af meginverkefnum Sameinuðu þjóðanna á næstunni að berjast gegn þessari öfugþróun og beita öllum samtakamætti sínum til að knýja fram úrbætur. Ríkisstjórn mín mun heils hugar styðja allar tilraunir í þessa átt.“

Í síðustu skýrslu minni til Alþingis vék ég einnig að málefnum El Salvador. Þar sagði ég m. a.:

„Ríki Suður-Ameríku og þá einkum El Salvador hafa á síðustu mánuðum dregist inn í deilur austurs og vesturs. Þótt þessi ríki liggi fjarri þungamiðju slökunarstefnunnar hafa atburðir þar engu að síður sín áhrif. Bandaríkjamenn telja hagsmunum sínum í Suður-Ameríku stefnt í voða með stuðningi sovétmanna og ýmissa fylgiríkja þeirra við kommúníska uppreisnarmenn í landinu og því sé þeim einn kostur nauðugur, sá að styrkja stjórnvöld í El Salvador og senda þeim hernaðarráðgjafa. Hafa Bandaríkjamenn lagt fram ýmis gögn, sem ætlað er að sanna vopnasendingar kommúnistaríkja til uppreisnarmanna í El Salvador, en Sovétmenn og bandamenn þeirra bera þær sakir af sér og segja fullyrðingar Bandaríkjanna settar fram til þess eins að réttlæta afskipti af innanríkismálum El Salvador. Ég vil ekki að svo komnu máli fella neinn dóm í þessum deilum, enda er það ekki aðalatriðið. Staðreyndirnar eru hins vegar þær, að í El Salvador, eins og í ýmsum öðrum Suður-Ameríkuríkjum, er ástandið vægast sagt hörmulegt. Auðæfi liggja á fárra manna höndum meðan allur almenningur býr við sárustu neyð. Núverandi ríkisstjórn hefur gefið loforð um ýmsar úrbætur, en hægt virðist miða að hrinda þeim í framkvæmd.“

Þetta sagði í síðustu skýrslu minni til Alþingis. Þegar litið er á það, sem nú hefur verið rakið, held ég að ljóst megi vera hver afstaða ríkisstj. er til atburða og stjórnmálaþróunar í El Salvador og hefur verið að undanförnu og hvert álit hennar er á þeirri herforingjastjórn sem nú ræður ríkjum. Hitt er svo rétt, að ríkisstj. hefur ekki gert um það sérstaka ályktun og Alþingi ekki heldur, eins og kunnugt er.