02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2166 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

349. mál, afstaða til atburða í El Salvador

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það er fullyrt af öllum fróðustu mönnum, sem fylgst hafa með gangi mála í El Salvador, að þar eigi sér nú stað þjóðarmorð. Ég held að við eigum ekki eingöngu að beina gagnrýni okkar gegn þeirri ógnarstjórn, sem nú ríkir í El Salvador, heldur ekki síður gegn Bandaríkjastjórn. Sú ákvörðun Reagans Bandaríkjaforseta að veita stjórn El Salvador þann stuðning, sem nú hefur verið tekin ákvörðun um, er byggð á því að sögn Reagans Bandaríkjaforseta, að mannréttindi hafi verið virt stórum betur síðustu mánuði í El Salvador en áður hefur verið gert. Þetta er forsendan fyrir þeim stuðningi sem Bandaríkjaforseti ætlar að veita herforingjastjórninni í El Salvador.

En það er ekki aðeins í El Salvador sem slíkir atburðir gerast. Þeir gerast í mörgum löndum Suður-Ameríku. Ég verð að taka undir það, að það, sem nú er að gerast í El Salvador, minnir óhugnanlega mikið á upphaf Víetnam-stríðsins. Að senda þangað sérfræðinga, veita ríkisstjórninni fjárhagsaðstoð og senda vopn til landsins er nákvæmlega það sama og gerðist í Víetnam, og áður en nokkur vissi voru Bandaríkjamenn orðnir aðilar að einhverri ógnarlegustu styrjöld sem háð hefur verið í veraldarsögunni.

Ég vil eingöngu segja það, herra forseti, að þótt við viljum eiga góð og vinsamleg samskipti við Bandaríkin er það þjónkun við stórveldi að þegja þunnu hljóði yfir mistökum þess stórveldis og fávíslegum ákvörðunum. Við eigum ekki að hika við að gagnrýna ákvarðanir stórveldis á borð við Bandaríkin þegar þær stuðla að því, að ógnarstjórn fær að ríkja í litlu landi í Suður-Ameríku. Um það gildir nákvæmlega það sama og fordæmingu okkar á innrás Sovétmanna í Afganistan og afskiptum Sovétmanna af málefnum Póllands.