02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

143. mál, erlendar lántökur vegna viðskipta með fiskiskip innanlands

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Eins og ég gat um í svari mínu áður er hér um að ræða undantekningar. Þær eiga að vera það til þess að leysa úr erfiðum málum sem varða atvinnuástand á einum stað og endurnýjun fiskiskipaflotans á öðrum.

Ég held að okkur sé nokkur vandi á höndum í sambandi við fiskiskipaflotann og ekki síst þann þátt hans sem varðar endurnýjun, og ég er þeirrar skoðunar, að það verði sennilega erfitt að komast hjá því á næstu árum að taka einhver lán erlendis til endurnýjunar sérstaklega bátaflotans.

Ef við lítum á margar sterkustu og öflugustu verstöðvarnar, eins og t. d. Vestmannaeyjar og Höfn í Hornafirði, svo að ég nefni dæmi, þá segja mér fróðir menn að meðalaldur bátaflotans í þessum verstöðvum báðum sé ekki langt frá 20 árum. Það þýðir auðvitað að sá tími nálgist óðum — og það er auðvitað alltaf að ske, að það verði að endurnýja þessi atvinnutæki. Ég dreg mjög í efa að við getum það án þess að það þurfi að taka einhver erlend lán til þess, eins og gert hefur verið um langa hríð.

Það mætti hafa langt mál um þessi skipakaup. Þetta eru mikil áhugamál viðkomandi sveitarfélaga og það stendur oft styr um þessi mál. Það væri hægt að halda býsna langa ræðu ef ætti að rekja ýmis dæmi sem eru til um alls konar afbrigði í þessum efnum. Ég skal nefna tvö í þetta sinn.

Annað er það, að í sept. 1977 var aðila á Akranesi heimilað að smíða skip erlendis og átti að selja togarann Bjarna Ólafsson upp í sem hlutagreiðslu. Niðurstaðan varð sú, að hann var seldur til Hafnarfjarðar og það var lánað með erlendu láni út á þá sölu.

Annað dæmi get ég nefnt, togarann Júlíus Geirmundsson. Hann átti að fara til útlanda, en var seldur Hraðfrystihúsi Keflavíkur og var heimiluð erlend lántaka sem nam 68.3% af kaupverði.

Það mætti auðvitað nefna mörg dæmi af ýmsu tagi í þessu sambandi. Ég get vel tekið undir það með hv. fyrirspyrjendum, að svona mál eiga að heyra til undantekninga, en atvik geta verið þannig að það sé skynsamlegt eða nauðsynlegt að leysa mál með þessum hætti. En ég get ekki tekið undir það með hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, að hér sé um að ræða stórkostlegt hneyksli. Hægt er að nefna svipuð dæmi sem hafa verið að gerast á undanförnum árum, m. a. meðan hann var sjálfur sjútvrh. Ég veit ekki hvern þátt hann hefur átt í þeim málum þá, en ég geri ráð fyrir að hann hafi komið eitthvað við sögu. Ég get því ekki fallist á að hér sé um að ræða stórfellt hneyksli. En ég get hins vegar fallist á það með báðum fyrirspyrjendum, að mál af þessu tagi eigi að heyra til undantekninga.