27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

25. mál, afkoma iðnfyrirtækja í eigu ríkisins

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans. Þau voru að því marki, sem unnt er á þessu stigi, glögg og greinargóð þó að um áætlanir sé að ræða, eins og hann tók fram.

Það kemur fram í svari hæstv. ráðh. að það er taprekstur á öllum þessum sex ríkisfyrirtækjum, mismunandi stórum og í mismunandi starfsgreinum, og sá taprekstur er mjög verulegur á sumum fyrirtækjanna. Það var raunar vitað fyrir fram að svarið yrði nokkuð á þessa lund, því að eins og ég sagði áðan, þegar ég mælti fyrir þessari fsp., er hér um nokkurs konar spegilmynd að ræða af því ástandi sem er í atvinnumálum um þessar mundir.

Það er athyglisvert að fram kom í Ed. Alþingis í gær hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, sem nú gengur úr salnum, en ætlaði að vera kyrr aðeins, að efnahags- og atvinnustefna núv. ríkisstj. — hann sagði það þar — væri í miklu meira samræmi við stefnu Alþb. en var í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. Þetta er niðurstaðan, hv. þm., að það er taprekstur á öllum þessum sex atvinnufyrirtækjum í eigu ríkisins og hann er fjármagnaður ýmist með framlögum úr ríkissjóði eða með lántökum eða með því að ganga á eigið fé fyrirtækjanna. Þetta er nú atvinnumálastefna í lagi!

Ég endurtek þakklæti mitt til hæstv. iðnrh. Ég held að þingheimur og þjóðin hafi gagn af því að fá þessar upplýsingar, sem eru óvefengjanlegar og eru einungis spegilmynd af því sem er að gerast á öðrum sviðum í atvinnumálum þjóðarinnar.