02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2171 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

143. mál, erlendar lántökur vegna viðskipta með fiskiskip innanlands

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Út af því, að hæstv. viðskrh. vitnaði í aðgerðir sem voru í minni tíð sem sjútvrh., þá var veitt leyfi fyrir þremur loðnuskipum. Það var byggt á þeim grundvelli, að auka mætti loðnuveiðarnar allt upp í 1.5 millj. lesta, og með því skilyrði, að skip yrðu seld úr landi í stað þessara skipa. Akranesskipið sem nefnt var, það var leyft að skipta á skipi, en annað skip fór fyrir þetta skip, sem hæstv. ráðh. nefndi. Hitt var skuttogari, því hefur hv. 3. þm. Vestf. svarað. Það var gefið leyfi til smíði á nýju skipi gegn því, að þetta skip væri selt úr landi. Það var selt úr landi, en ríkisstj. sú sem hæstv. viðskrh. átti sæti í leyfði að flytja þetta skip aftur til landsins.

Út af því, að ég sagði að hér væri um hneyksli að ræða, þá er hneyksli þegar skip, sem búið er að dæma ónýtt, búið að fá bætur úr Aldurslagasjóði og Úreldingarsjóði, er notað í brask til að fá önnur skip. Ekki einu sinni, heldur tvisvar eftir að búið er að flytja inn skip fyrir annað, sem á að gera ónýtt, er hið ónýta selt og kaupandinn hefur uppi stór orð um að það séu einhverjir vondir kerfiskarlar sem heimti að skipinu sé eytt, en í því séu mikil verðmæti.

Varðandi atvinnuástand á Patreksfirði og flutning á skipi frá Siglufirði til Patreksfjarðar, þá held ég að það veiki atvinnulíf á þeim stað sem skip er flutt frá. En ég vil minna á að það lá önnur umsókn fyrir frá þessum sama stað, frá einstaklingi á Patreksfirði, sem búinn er að gera út skip í fjöldamörg ár, til hæstv. viðskrh. um að fá að flytja inn skip frá Noregi og taka annað skip úr umferð því að það yrði sett í úreldingu. Hann fékk sama sem synjun vegna þess að heimild rn. gildir til 1. febr. og heimildin er bundin því, að lán, sem nemi 50% af heildarverði, verði samþykkt og afgreidd í Fiskveiðasjóði. Fiskveiðasjóður er ekkert farinn að afgreiða af þessum lánum. Þarna var mismunað tveimur aðilum: Í öðru tilfellinu manni sem búinn er að gera út í fjöldamörg ár og átti mikið til að leggja fram sjálfur í skip sem hann óskaði að kaupa. En hann heldur áfram að gera út sitt gamla og úr sér gengna skip. Það virðist vera stefna hæstv. ríkisstj. í þessum efnum.