02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2178 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. hans ágætu svör. En það breytir engu um það, að níu vikur eru dágóður tími til þess að ganga frá svörum við fsp. af þessu tagi, enda krefst þessi fsp. ekki mjög langrar skýrslugerðar.

Ég vil svo aðeins segja það vegna þessarar umræðu hér, að það er auðvitað hárrétt sem hv. þm. Benedikt Gröndal benti á s. l. þriðjudag í fsp.-tíma, að það er kominn tími til að endurskoða fyrirspurnaformið hér á hinu háa Alþingi. Það hefur t. d. gerst, eins og s. l. þriðjudag, að hv. þm., sem hafa lagt fram fsp. og átt að flytja þær, hafa ekki verið viðstaddir þegar ráðherrar hafa verið tilbúnir að svara fsp. Ég tel að það væri ástæða til fyrir hina virðulegu forseta þingsins að fjalla um þessi mál og athuga hvort ekki væri hægt að koma á einhverri nýskipan í sambandi við fyrirspurnir.