02.02.1982
Sameinað þing: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2182 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

171. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Til að fyrirbyggja misskilning vil ég taka það skýrt fram, að ég hef ekki dregið hér á neinn hátt í efa að lögformleg stjórnvöld á Spáni hafi tekið þá ákvörðun sem hér liggur fyrir að við lýsum yfir stuðningi við. Ég setti hins vegar fram þá ósk, að í meðferð málsins hér á Alþingi fengjum við líka að kynnast röksemdum þeirra áhrifaríku afla á Spáni sem hafa lagst gegn þessari aðild á þjóðþingi Spánar. Ég held að ég fari rétt með að skoðanakannanir á Spáni sýni að þau andstöðuöfl hafi meiri hluta með þjóðinni fyrir sínum málstað, en sá þingmeirihluti, sem samþykkti aðildina að Atlantshafsbandalaginu, styðji sig hins vegar við minni hluta þjóðarinnar samkv. skoðanakönnun. Að vísu getur álit í skoðanakönnunum sveiflast frá viku til viku og mánuði til mánaðar. Mér finnst hins vegar nauðsynlegt að þessir þættir séu hafðir í huga, vegna þess að hvort sem okkur líkar betur eða verr, Íslendingum, og hvað svo sem líður markaðsmöguleikum á saltfiski, þá verða íslensk stjórnvöld, Alþingi og ríkisstj., að horfast í augu við það, að því fylgja ákveðnir hlutir að vera í formlegu bandalagi með herforingjastjórn, að vera í formlegu hernaðarbandalagi með herforingjastjórnum. Þegar farið er að nota herinn í tilteknu landi til að brjóta niður stjórnmálaflokka, verkalýðsfélög, frjálsa fjölmiðla, háskólana og nota fangelsi hersins til þess að færa þangað stjórnmálamenn af þjóðþingum og úr fyrrv. ríkisstjórnum, pynta þá og beita öðrum viðlíka aðferðum, þá er það alvarlegt mál fyrir ákveðna þjóð að vera formlegur bandamaður slíkrar herforingjastjórnar. Það hefur hent Ísland að vera bandamaður slíkrar herforingjastjórnar í Grikklandi og Ísland er það að forminu til í dag hvað snertir Tyrkland.

Ég vil í þessu sambandi nefna hér aðeins eina sögu úr æviminningum Galbraiths prófessors í Bandaríkjunum og þekkts sendiherra, sem Bandaríkin höfðu í Indlandi. Hann rekur hvernig hann og nokkrir háskólakennarar í Bandaríkjunum forðuðu á einni nóttu frá því voðaverki, að herforingjarnir í Grikklandi, sem þá höfðu tekið völdin með stuðningi stjórnar Lyndons Johnsons Bandaríkjaforseta, dræpu Andreas Papandreou, sem nú er forsætisráðherra Grikklands. Í þessum æviminningum er því lýst nákvæmlega, hvernig nokkrir háskólakennarar í Bandaríkjunum gátu með áhrifum sínum á einni nóttu og gegnum tengsl sín við Hvíta húsið afstýrt því, að núv. forsætisráðherra Grikklands yrði líflátinn af herforingjunum sem þá voru búnir að taka völdin.

Þeir stjórnmálamenn jafnaðarmannaflokka, frjálslyndra flokka, hægri flokka og vinstri flokka, sem hafa þurft að berjast fyrir sjálfu lýðræðinu í sínu landi, gegn hernum í eigin landi, hafa dýrkeyptari reynslu af þessum málum en við, sem höfum blessunarlega verið laus við það, að slík öfl réðu stjórnarfarinu í okkar landi. Íslenskir þingmenn hafa ekki þurft að óttast það, að innlendur her kynni einn góðan veðurdag að koma að þeim að nóttu til á heimilum þeirra og færa þá í tugthús frá fjölskyldum þeirra, geyma þá árum saman og brjóta allt lýðræði í landinu niður. En þetta gerðist á Spáni. Þetta gerðist í Grikklandi. Þetta gerðist í Tyrklandi. Og þetta gerðist í Portúgal. Öll þessi ríki og með Spáni nú eru bandalagsríki Íslendinga. Þess vegna held ég að nauðsynlegt sé að við gefum okkur þó ekki væri nema smástund við meðferð þessa máls hér á Alþingi til þess að kynna okkur röksemdir þeirra stjórnmálaafla á Spáni það eru sterk og mikil öfl — sem lögðust gegn þessari aðild vegna þess að þau óttuðust að hún gæti veikt lýðræðið í þeirra landi en ekki styrkt það. Ég tók eftir því, að hv. þm. Ólafur G. Einarsson tók sér ekki lýðræði í munn í ræðu sinni áðan. Hann talaði eingöngu um hernaðarhagsmuni á Norður-Atlantshafi. Kannske er það kjarni málsins, að það bandalag, sem hér er verið að ræða um, snýst þegar allt kemur til alls ekki um lýðræði, heldur um hernaðarhagsmuni.