27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

25. mál, afkoma iðnfyrirtækja í eigu ríkisins

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Þetta voru dálítið einkennileg ummæli hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. Ég talaði reyndar ekkert um ríkisfyrirtæki í Ed. í gær.

Það er að vísu alveg ljóst að ríkisfyrirtækin eru öll rekin með halla. Þó þeim sé hyglað, þó þau séu skattfrjáls og þó að allt sé fyrir þau gert umfram einkafyrirtæki eru þau samt með halla. Einkafyrirtækin eru auðvitað miklu betur rekin, en þau eru samt með gífurlegum halla, eins og sýnt var fram á í umr. í gær. Þau ganga á eigur sínar jafnt og þétt.

Ég sagði að þetta væri eftir stefnu Alþb., eins og hv. þm. Ólafur Ragnar reyndar upplýsti, að þessi stjórn væri miklu meiri vinstri stjórn en stjórn Ólafs Jóhannessonar. Það er alveg rétt. Þetta er versta vinstri stjórn sem við nokkurn tíma höfum haft! Ákveðin öfl í stjórninni leiða aðra til þess að ganga á hag fyrirtækjanna þannig að þau eru nú mánuð eftir mánuð að eyða eignum sínum, ganga á eignir sínar. Það getur verið að með millifærslum í sjávarútvegi verði hægt að halda þessu gangandi nokkrar vikur í viðbót, en fyrirtækin eru að tapa milljónum á milljónir ofan.

Ég greindi sérstaklega frá því, hvernig ástandið væri í mínu kjördæmi, þar sem fyrirtækin eru að ganga á eigur sínar þannig að ef áfram héldi sem horfði í 1–2 ár í viðbót væru þau gersamlega orðin gjaldþrota. Þetta er myndin sem við blasir um land allt. Þessu er öllu saman fleytt með millifærslum og smávægilegum dúsum til að halda fyrirtækjunum gangandi frá degi til dags, en sjá til þess að þau geti ekki bætt reksturinn og séu þess vegna stanslaust að færa eigur sínar yfir til ríkisvaldsins og auðvitað að vilja sósíalista.

Þeir vilja þjóðnýta atvinnutækin. Þeir fara ekki dult með það. Þeir hafa auðvitað gert það alls staðar. Til þess starfa þeir, til þess eru þeir í skipulögðum fylkingum um heim allan að þjóðnýta atvinnutækin og koma á sósíalisma. Það vitum við auðvitað öll að er vilji þeirra og þess vegna eðlilegt að þessir menn í ríkisstj. séu glaðir. En mig furðar á því að sumir aðrir ráðh, skuli vera glaðir.