02.02.1982
Sameinað þing: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2189 í B-deild Alþingistíðinda. (1863)

54. mál, ávana- og fíkniefni

Guðrún Hallgrímsdóttir:

Herra forseti. Ég kem hér upp til að taka heils hugar undir þá þáltill. sem hér er á dagskrá. Hér er kveðið á um að gerð verði heildarathugun á því, hvernig best sé að verjast innflutningi, tilbúningi, útbreiðslu og neyslu ávana- og fíkniefna.

Aðgerðir til að koma í veg fyrir innflutning ávana- og fíkniefna eru góðra gjalda verðar, og segja mér kunnugir að slíkt sé til muna auðveldara hér á eylandinu en annars staðar, þar sem ekkert berst til landsins nema með skipum eða flugvélum. Eftirlit með slíkum flutningi er framkvæmanlegt með þar til þjálfuðum hundum og er hreint undravert hve auðvelt þeir eiga með að finna ýmsar tegundir fíkniefna. En það er eitt að koma eftir fremsta megni í veg fyrir innflutning ávana- og fíkniefna og annað að koma í veg fyrir útbreiðslu og neyslu.

Nýlegar umræður í fjölmiðlum, þar sem greint var frá ástandi þessara mála hér á landi, jafnvel rakin hin ótrúlegustu dæmi, sanna að það er ekki nóg að stemma stigu við innflutningi. Stóraukinnar fræðslu er þörf. Við vitum nú sem betur fer slöttungi meira en t. d. fyrir 5 árum eða fyrir 10 árum. Ég minnist þess, að fyrir 10 árum voru foreldrar í Þýskalandi yfir sig hamingjusamir þegar börnin þeirra komu drukkin heim vegna þess að þá vissu þeir að þau höfðu ekki verið í eiturlyfjum. Nú vitum við hættuna sem stafar af ávana- og fíkniefnum. En sú fræðsla, sem boðið er upp á, þarf að vera þannig að hún nái til þeirra aldurshópa, sem eru hér í mestri hættu. Ég efast ekki um góðan hug þeirra sem nú standa t. d. fyrir auglýsingaherferð í sjónvarpi gegn neyslu vímugjafa. En líklegt tel ég að fjárskortur ráði því fyrirkomulagi sem þar ríkir, og ég leyfi mér að efast um tilætlaðan árangur. Hér gæti Alþingi þrýst á. Við eigum sannarlega við þann fjölmiðil, sem áhrifamestur er, sjónvarpið, starfandi hæft og fært dagskrárgerðarfólk. Væri fé lagt til hliðar og okkar hæfa fólki falið að sjá um t. d. 5 mínútna dagskrá á einhverjum góðum tíma í sjónvarpi, þannig úr garði gerða að hún væri fræðandi um áhrif vímugjafa jafnframt því að vera skemmtileg, er ég sannfærð um að æska þessa lands lærði að varast þá miklu hættu sem af þessum efnum stafar. Ég nefni þetta sem eina leiðina til að verjast útbreiðslu og neyslu ávana- og fíkniefna, þær eru án efa fjöldamargar, þar sem þýðingarmest er að við leggjumst öll á eitt.