03.02.1982
Sameinað þing: 47. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2192 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

354. mál, efnahagsmál

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Þegar núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð lét hún frá sér fara málefnasamning sem var næsta óljós og þokukenndur. Í efnahagsmálum var þar að finna hrærigraut þeirra úrræða sem Alþb. og Framsfl. hafa sett á oddinn síðustu árin. Það er skemmst frá því að segja, að þegar líða tók á fyrsta starfsár hæstv. ríkisstj. tók að hrikta í og að bresta í böndum. Á síðustu vikum ársins settist hæstv. ríkisstj. niður og samdi efnahagsáætlun sem í raun var nýr stjórnarsáttmáli. Sú efnahagsáætlun var flutt í sjónvarpi á gamlárskvöld sem frægt er orðið. Kjarni hennar var sá að skerða verðbætur á laun og þjarma rækilega að atvinnuvegunum með verðlagshöftum, gengishöftum og háum fjármagnskostnaði með það fyrir augum að ná niður verðbólgunni.

Efnahagsáætlun ríkisstj. frá gamlárskvöldi 1980 var svo fráleit og afturhaldssöm gagnvart atvinnuvegunum að jafnvel fyrirtæki í opinberri eigu með hvers konar fríðindi og fyrirtæki sambands ísl. samvinnufélaga voru rekin með bullandi tapi og komust í þrot þegar líða tók á árið. Þessi stefna brast endanlega í böndum við ákvörðun fiskverðs og gengisfellingar nú fyrir skemmstu. Og nú eftir tveggja ára stjórn hæstv. ríkisstj. á efnahagsmálum gefur að líta þriðju efnahagsáætlunina sem almenningur hefur að vonum valið hin háðulegustu nöfn, m. a. sjálfur forseti Alþýðusambands Íslands.

Þegar þessi efnahagspakki svonefndi var opnaður við útvarpsumræður fyrir tæpri viku kom í ljós að í honum var tæpast að finna annað en glansumbúðir utan um þá gamalkunnu aðferð að stórauka niðurgreiðslur á búvörur úr ríkissjóði. Þannig má fá fram vegna gallaðs vísitölukerfis lækkun á framfærsluvísitölu sem er í engu samræmi við lækkun framfærslukostnaðar hjá venjulegri fjölskyldu nú á dögum. Ætlunin er að lækka framfærsluvísitölu um 3% nú 1. febr. og aftur 1. maí með þessum aðgerðum. Kostnaður skattborgaranna af þessu tiltæki er um 400 millj. á þessu ári, en 600–700 millj. á næsta ári, ef þessi stífla á ekki að bresta og vísitalan að fara í samt lag aftur. Þá er ég að setja fram tölur sem eru á sama verðlagi og í ár: 600–700 millj. kr. á næsta ári í auknar niðurgreiðslur frá því sem nú er. Þessi upphæð jafngildir þrefalt hærri tölu en það sem í fjárlögum er til grunnskólabygginga, dagvistarstofnana, sjúkrahúsa, hafna og flugvalla í öllu landinu — þrefalt hærri upphæð. En eins og kunnugt er, þá er eitt fangaráð núv. hæstv. ríkisstj. að lækka fjárveitingar til þessa framkvæmda um nokkur prósent til þess að afla fjár í þessu skyni.

Í reynd er þessi þriðja efnahagsáætlun ríkisstj. á tveimur árum þriðji stjórnarsáttmálinn. Í honum felst að ríkisstj. hefur gefist upp við að koma sér saman um úrræði í efnahagsmálum sem dugi til einhverrar frambúðar. Raunar er vart hægt að tala um skammtímaráðstafanir vegna þess að nýr vandi er búinn til með þessum niðurgreiðslum, svo hrikalegum sem ég hef hér lýst.

Þessi nýjasti stjórnarsáttmáli er samkomulag aðila ríkisstj. um að sitja áfram og fresta öllu því sem frestað verður í efnahagsaðgerðum. Alþb.-menn hafa að líkindum komist að þeirri niðurstöðu vegna hræðslu við borgarstjórnar- og bæjarstjórnarkosningar í vor og samninga sem eru lausir um sama leyti. Þeir hafa hreiðrað vel um sig í stjórnarráðinu og þykir vafalaust nokkru fórnandi fyrir að halda óbreyttu ástandi í Sjálfstfl. þegar kosið verður næst til Alþingis. Svipaðar ástæður liggja að líkindum til afstöðu Framsfl. til þessa nýja stjórnarsáttmála um að sitja í aðgerðaleysi þrátt fyrir allar upphrópanir þeirra í blöðum og öðrum fjölmiðlum á þriggja mánaða fresti um heildstæðar efnahagsaðgerðir.

Uppgjöf hæstv. ríkisstj. við mótun heildstæðrar efnahagsstefnu til þess að ná yfirlýstum markmiðum kemur skýrt í ljós ef borin eru saman nokkur efnisatriði fyrrgreindra þriggja efnahagsáætlana eða stjórnarsáttmála. Í sjálfum upprunalega stjórnarsáttmálanum segir svo, með leyfi hæstv. forseta, en það markmið er efst á blaði þegar rætt er um efnahagsmál:

Ríkisstj. mun vinna að hjöðnun verðbólgu þannig að á árinu 1982 verði verðbólgan orðin svipuð og í helstu viðskiptalöndum Íslendinga.“

Þetta þýðir að verðbólgan í ár ætti að vera 10–12% ef sú hin mikla óvætt hefði hlýtt stjórnarsáttmálanum. Um verðlagsmál segir svo:

„Verðlagshækkunum á þeim vörum og þjónustu, sem Verðlagsráð fjallar um, verði sett eftirgreind efri mörk ársfjórðungslega á árinu 1980: Til 1. maí skulu mörkin vera 8%, til 1. ágúst 7% og loks til 1. nóv. 5%.“ Þá segir einnig — og ég vek sérstaka athygli á því: „Verðhækkanir á búvöru fylgi sams konar reglum, enda verði niðurgreiðslur ákveðnar sem fast hlutfall af útsöluverði árin 1980 og 1981.“

Þetta ákvæði hins upprunalega stjórnarsáttmála er nú augljóslega verið að þverbrjóta í þeim þriðja og síðasta. Er það ekki einasta verðbólgan, sem ekki hlífir stjórnarsáttmálanum, heldur hæstv. ríkisstj. sem þverbrýtur hann sjálf. Í fjárlagafrv. ríkisstj. fyrir árið 1980 segir í grg., að verðhækkun frá upphafi til loka árs 1980 verði 31%, og er það í samræmi við niðurtalninguna í stjórnarsáttmálanum. Þegar þetta er haft í huga er það býsna góður brandari sem Steingrímur Hermannsson, hæstv. ráðh. og formaður Framsfl., endurtók í útvarpsumr. á dögunum og ýmsir ráðherrar hafa haft uppi. Hæstv. ráðh. sagði að verðbólgan hefði í lok ársins 1980, á fyrsta niðurtalningarárinu, orðið 60% og stefnt í 70–80% á öðru niðurtalningarárinu. Þetta var á þeim tíma sem niðurtalningarformúlan var nákvæmust, ferskust og hefði átt að hafa mest áhrif. Þetta er því fremur háðuleg einkunn hjá formanni Framsfl. um niðurtalninguna sem flokkur hans telur nánast trúaratriði.

Í annarri efnahagsáætlun hæstv. ríkisstj., öðrum stjórnarsáttmálanum, sem leit dagsins ljós í sjónvarpinu á gamlársdag, segir svo, með leyfi forseta, eftir að markmið höfðu verið sett fram:

„Gengissigi verður hætt um áramót og gengi krónunnar haldið stöðugu næstu mánuði.

Verðstöðvun er ákveðin frá 1. jan. til 1. maí. Verða engar hækkanir á vöru og þjónustu leyfðar nema með samþykki verðlagsyfirvalda og mega þau ekki heimila hækkanir á vöru og þjónustu nema þau telji að óhjákvæmilegt sé. Slík leyfi skulu háð samþykki ríkisstj.

Í þriðja lagi er fjallað um verðbætur á laun. Þar segir orðrétt einnig, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðbætur á laun 1. mars skulu ekki vera meira en 7% lægri en verið hefði samkv. ákvæðum laga nr. 13 frá 1979.“

Þetta þýðir á mæltu máli að verðbætur á laun áttu að skerðast um 7% umfram það sem skerðing samkv. Ólafslögum hafði í för með sér. Samtals nam skerðingin því samkv. þessu og Ólafslögum um 8.3% til 1. mars í fyrra.

Þetta er kjarni efnahagsáætlunar ríkisstj. frá 31. des. 1980, auk þess sem aukin verðtrygging spariinnlána hlaut að leiða til stórhækkunar á fjármagnskostnaði fyrirtækja.

Þessi harðsvíruðustu verðlags- og gengishöft í áratugi urðu að sjálfsögðu til þess, að íslensk fyrirtæki fengu ekki að selja vörur sínar á kostnaðarverði, hvorki innanlands né utan. Aftur á móti hlaut þetta að stórauka innflutning og auka sölu útlendra vara á íslenskum markaði. Þessari hlið stefnunnar voru gerð rækileg og skemmtileg skil í leiðara Þjóðviljans fyrir nokkru, þar sem talað er um mikinn innflutning og gífurlega eyðslu Íslendinga undir stjórn Alþb. Þessi stefna varð til þess að fyrirtæki voru rekin með bullandi halla og skuldasöfnun, en í lok ársins í fyrra og byrjun þessa árs hefur verið brugðið á það fangaráð af hálfu ríkisstj. að fleyta þessum fyrirtækjum áfram með kreppulánum, peningum sem teknir eru að láni erlendis til þess að reka íslensk fyrirtæki og framlengja líf þeirra um nokkurra vikna skeið.

Þá er komið að garminum honum Katli, efnahagsáætluninni í svonefndum „þorrabakka“. Þar segir, að ríkisstj. hafi í fyrra náð markmiðum sínum, og þess sérstaklega getið, að tekist hafi að verja kaupmáttinn. Orðrétt segir í skýrslu hæstv. ríkisstj.:

„En án sérstakra aðgerða í upphafi ársins hefði kaupmátturinn rýrnað.“

Það kemur því nokkuð á óvart og spánski fyrir sjónir, að þeim úrræðum er algerlega hafnað sem ríkisstj. sjálf telur hafa gefist vel í fyrra.

En fyrst skal vikið að gengismálum. Í efnahagsáætluninni frá gamlársdegi 1980 stóð eins og áður segir: „Gengissigi verður hætt um áramót og gengi krónunnar haldið stöðugu næstu mánuði.“ Í „þorrabakkanum“ fyrirfinnst orðið „gengi“ hvergi. Það er ekki minnst á orðið „gengi“ í nýrri efnahagsáætlun hæstv. ríkisstj.

Í öðru lagi segir í efnahagsáætluninni frá gamlársdegi 1980: „Verðstöðvun er ákveðin frá 1. jan. til 1. maí“ — hin svonefnda margfræga herta verðstöðvun. En um verðlagsmál segir svo í „þorrabakkanum“ hinum nýja:

„Í verðlagsmálum verður við það miðað að draga úr opinberum afskiptum af verðmyndun og auka sveigjanleika í verðmyndunarkerfinu.“

Hér kveður aldeilis við annan tón.

Að sjálfsögðu er hvergi minnst á skerðingu verðbóta á laun, þetta sem Alþb.-menn kalla kauprán þegar sá gállinn er á þeim, og stundum jafnvel kratarnir líka. En til viðbótar eru ýmis gullkorn í þessari skýrslu sem ekki er að finna í fyrri efnahagsáætlunum. Þar segir m. a.:

„Það er forsenda frekari árangurs í efnahagsmálum og grundvöllur vaxandi þjóðartekna á næstu árum, að atvinnuvegirnir búi við traustan grundvöll.“

Það verður að teljast til hinna mestu tíðinda, að núv. hæstv. ríkisstj. skuli hafa uppgötvað þessi sannindi eftir tveggja ára stjórn efnahagsmála, að atvinnuvegirnir þurfi að búa við traustan grundvöll.

Við fjárlagaafgreiðslu og önnur tækifæri hef ég rætt ítarlega um afleiðingar þeirrar vinstri stefnu sem hefur verið ríkjandi frá valdatöku vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar 1978 hér á landi. Ég skal ekki fjölyrða um þær hér frekar. Þó get ég ekki stillt mig um að vitna í þessu sambandi í Þjóðviljann frá 27. jan. s. l. Þar segir þetta málgagn,Alþb. í leiðara undir fyrirsögninni „Hátt er lifað“, með leyfi forseta:

„Það er mikil verðmætasköpun, sem fram fer í atvinnulífi okkar Íslendinga. Nú um síðustu helgi var hér í Þjóðviljanum vakin athygli á þeirri staðreynd, að aðeins á fimm árum, 1976–1981, hefur framleiðsluverðmæti sjávarútvegsins vaxið um nálægt 60% að raungildi.“ En svo segir ritstjóri Þjóðviljans: „En eitt er að afla verðmætanna og annað er að nýta þau með skynsamlegum hætti.“ — Já, eitt var að afla verðmætanna og annað að nýta þau með skynsamlegum hætti. Skyldi engum vera það umhugsunarefni, að frá 1978 hefur vöxtur þjóðarframleiðslunnar minnkað stöðugt og síðustu árin hefur þjóðarframleiðsla á mann í raun staðið í stað og lífskjör versnað, þrátt fyrir gífurlega aukinn afla og þá stórfelldu auknu framleiðslu í sjávarútveginum sem vitnað var í í leiðara Þjóðviljans.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sagði einhvern tíma í sumar í Þjóðviljanum að kaupmáttur verkafólks hefði sigið upp á síðkastið. Það má með sanni segja, að eitt er að afla verðmætanna og annað að nýta þau með skynsamlegum hætti. En hverju skyldi vera um að kenna? Hverjir hafa stjórnað landinu síðan 1978? Skyldi ekki orsakanna vera að leita að einhverju leyti í afturhaldssamri hafta- og ofstjórnarstefnu, sem er ær og kýr Alþb., sér í lagi ef það er í félagi við framsóknarmenn?

Ríkisstj. gumar af því, að hún hafi náð ákveðnum markmiðum á s. l. ári með úrræðum sem hún vill alls ekki nota í ár. Í fyrsta lagi hafi hún náð því markmiði að tryggja fulla atvinnu, í öðru lagi að ná verðbólgunni niður í 40% og í þriðja lagi að tryggja kaupmátt launa. Það er í mínum huga nánast grátbroslegt þegar ríkisstj. og aðstandendur hennar eru að hæla sér af því, að full atvinna sé á Íslandi, samtímis því sem við ausum í æ ríkara mæli ár eftir ár stórauknum verðmætum úr auðlindum okkar umhverfis landið í kjölfar þess, að við eignuðumst 200 mílna lögsögu. Það verður að segjast, að á meðan sú þróun heldur áfram þyrfti meira en litla óstjórn til að atvinnuleysi hlytist af þótt þess gæti í útlöndum. Sérstaða okkar Íslendinga er slík í þessum efnum. Við eigum enn innistæður í Selvogsbönkum sem við tökum ótæpilega út úr.

En hefur tekist að varðveita kaupmátt launa? Í nýútkomnu fréttabréfi Kjararannsóknarnefndar kemur fram að á s. l. ári hefur vinnutími verkamanna lengst um um það bil tvær klukkustundir á viku. Bónuskerfi hafa verið tekin upp í æ ríkara mæli, og fram kemur í sama fréttabréfi að kaup launþega hafi aukist nokkuð af þeim ástæðum. Þetta er meginskýringin á því, að kaupmáttur heildartekna verkafólks hefur ekki rýrnað á árinu 1981, en þá bötnuðu viðskiptakjör okkar verulega við útlönd vegna hækkunar dollarans á alþjóðlegum markaði. Á þessu ári hefði því kaupmáttur átt að aukast verulega. Kaupmáttur taxtakaups, sem Alþb.-menn miða alltaf við þegar þeir eru í stjórnarandstöðu, hefur rýrnað. Það var það sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson átti við með því að kaupmátturinn hefði sigið á samningstímabilinu.

Þegar menn tala um að kaupmáttur heildartekna hafi haldist í horfinu er það vegna aukins vinnuálags, vegna lengri vinnutíma og vegna meiri bónusgreiðslna. Ég býst varla við að sumir hverjir hæstv. ráðh. í núv. ríkisstj. hefðu verið stoltir af slíkum árangri ef þeir hefðu verið utan ríkisstj.

Þegar hæstv. ráðherrar fullyrða að verðbólgan á árinu 1981 hafi orðið rum 40% er erfitt að sjá hvort sé ríkara í fari þeirra: sjálfsblekkingin eða sjálfshólið. Raunveruleg verðbólga á árinu 1981 varð að sjálfsögðu miklu meiri en hækkun framfærsluvísitölu sýndi á pappírnum. Það er um tilbúna eða hreinskilnislega sagt falsaða tölu að ræða. Byggingarvísitalan hækkaði miklu meira. Hækkun tekna og þar með skatta okkar og útgjalda ríkissjóðs var milli 60 og 70% og seðlaveltan 70%. Ýmsum óhjákvæmilegum hækkunum var einnig frestað fram yfir síðustu áramót, t. d. gengisfellingunni, þannig að segja má að afkomu atvinnuveganna hafi verið fórnað til þess að búa til hagstæða, óraunhæfa framfærsluvísitölu á s. l. ári. Þetta viðurkenndi hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson í útvarpsumr. fyrir tæpri viku þegar hann ræddi aukinn hraða verðbólgunnar á síðasta hluta ársins. Hann sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta varð til þess, að verðbólguhraðinn jókst að nýju með grunnkaupshækkun og ytri aðstæðum í lok ársins. Einnig er vafalaust að nokkuð hart var gengið að útflutningsatvinnuvegunum með aðhaldssamri gengisstefnu.“ Ég endurtek: „Einnig er vafalaust að nokkuð hart var gengið að útflutningsatvinnuvegunum með aðhaldssamri gengisstefnu.“

Þá segir hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson einnig í sömu ræðu, með leyfi hæstv. forseta, orðrétt: „Því verður ekki neitað, að hækkun dollarans fyrri hluta síðasta árs var að ýmsu leyti kærkomin. Slíks er ekki að vænta nú.“

Með þessu játar hæstv. ráðh. hreinskilnislega að gengisskráningin á síðasta ári hafi um sinn hjálpað ríkisstj. til þess að fá fram minni verðhækkanir á innfluttri vöru en ella, t. d. vöru frá Evrópulöndum, þar sem gjaldmiðlar hækkuðu mjög lítið mánuðum saman eða jafnvel lækkuðu. En þetta er auðvitað stundarfyrirbrigði sem er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðh. að ekki er að vænta á þessu ári.

Þegar raunsætt er litið á málið náðist því miður enginn árangur nema á pappírnum í viðureigninni við verðbólguna á s. l. ári, þrátt fyrir einstaklega góðar ytri aðstæður og grunnkaupshækkanir sem voru minni en flestir höfðu búist við, enda mætti spyrja hvers vegna allur sá vandi, sem við stöndum frammi fyrir nú, væri fyrir hendi ef sá mikli árangur hefði náðst sem hæstv. ráðh. gumar af að hafi náðst í fyrra.

Herra forseti. Sú skýrsla ríkisstj., sem hér er til umr., vekur miklu fleiri spurningar en hún svarar. Það væri t. d. ekki úr vegi að spyrja hæstv. forsrh. hvernig ríkisstj. ætli að ná þeim meginmarkmiðum í efnahagsmálum að verðbólga verði 35% í ár og hraði hennar kominn niður í 30% í árslok. Þjóðhagsstofnun hefur gert nýja áætlun um framfærsluvísitölu, niðurgreidda framfærsluvísitölu með þeim ógnarfjárhæðum sem ég hér hef lýst. Þessi vísitöluspá — eftir að komin eru fram áform ríkisstj. um niðurgreiðslu — gerir ráð fyrir 40–42% hækkun niðurgreiddrar framfærsluvísitölu. En hún gerir ráð fyrir 45–47% hækkun byggingarvísitölu á árinu, sem er náttúrlega miklu betri mælikvarði á verðbólguna, og það gerist þrátt fyrir allar niðurgreiðslurnar. Þessi verðbólguspá, ef svo mætti segja, er miðuð við að engar grunnkaupshækkanir verði á árinu. En hvert 1% sem grunnkaup hækkar eykur verðbólguna nálægt því um 1% þegar frá líður við núverandi aðstæður og vísitölukerfi. Raunveruleg verðbólga er því í svipuðu fari þrátt fyrir allar blekkingarnar, niðurgreiðslurnar og skollaleikinn.

En hvernig nær þá hæstv. ríkisstj. því verðbólgumarkmiði sem er í hinum nýja stjórnarsáttmála? Er ætlunin að skerða verðbætur á laun um 5% 1. sept. og aftur 5% 1. des., en þess þyrfti að mati sérfræðinga að óbreyttu vísitölukerfi ef hraði verðbólgunnar á að verða 30% á síðasta hluta ársins. Auk þess þyrftu að nást samningar um óbreytt grunnkaup á árinu. Er þetta stefna hæstv. ríkisstj., hæstv. forsrh.?

Ég sé að hæstv. ráðherrar Alþb. mega ekki vera að því að hlýða á þessa umr., enda eiga þeir sjálfsagt lítið í þessum efnahagspakka. En það hefði verið æskilegt að geta spurt hæstv. félmrh., formann Alþb., um það, hvort hann teldi að þetta væri stefna hæstv. ríkisstj., og ef ekki, hvernig hún hugsaði sér þá að ná verðbólguhraðanum niður í 30% á árinu. Í skýrslu hæstv. ríkisstj. segir, með leyfi forseta:

„Það er forsenda frekari árangurs í efnahagsmálum og grundvöllur vaxandi þjóðartekna á næstu árum að atvinnuvegirnir búi við traustan grundvöll.“

Ég vitnaði í þetta gullkorn áðan. Við lestur þess vaknar sú samviskuspurning til hæstv. forsrh., hvort hann telji að atvinnuvegirnir hafi búið við traustan grundvöll í stjórnartíð núv. hæstv. ríkisstj. Ef svo er, hvers vegna er þá verið að veita tugum fyrirtækja erlend lán til þess að rekstur þeirra stöðvist ekki í því góðæri sem verið hefur?

Þegar sú fullyrðing skýrslunnar er lesin, að án sérstakra aðgerða í upphafi s. l. árs hefði kaupmáttur á því ári rýrnað, vaknar sú spurning, sem gott væri að geta spurt hæstv. félmrh. um: hvers vegna er þá ekki gripið til sömu úrræða í ár, ef þau úrræði í fyrra reyndust svo vel til þess að varðveita kaupmáttinn? Er stefnt að einhverju öðru á þessu ári? Sagt er í skýrslunni að stefnt sé að nýju viðmiðunarkerfi. Hvað þýðir þetta, hæstv. forsrh.? Og hverjir eru höfuðókostir núverandi vísitölukerfis? Er hæstv. ríkisstj. sammála um hverjir séu höfuðókostir núverandi vísitölukerfis, eins og segir í skýrslunni? Getur hæstv. forsrh. skýrt þingheimi frá því, að ríkisstj. sé sammála um hverjir séu höfuðókostir núverandi vísitölukerfis og hvað það þýði, orðalagið um að stefnt skuli að nýju viðmiðunarkerfi þegar ákveða á verðbætur á laun?

Í skýrslunni segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta: „Sveitarstjórnir fái heimild til þess að breyta gjaldskrám fyrirtækja sinna sem nemur hækkun byggingarkostnaðar, án sérstaks leyfis frá ríkisvaldinu.“

Hefur stefnan verið röng í þessum efnum, hæstv. forsrh.? Ég ætlaði raunar að beina þessum fsp. mínum til annarra hæstv. ráðh., en þeir eru nú ekki við hér svo að ég beini þeim þá til hæstv, forsrh. Hvernig kemur þessi yfirlýsing skýrslunnar heim og saman við hið nýja viðmiðunarkerfi? Hafa t. d. hæstv. ráðherrar Alþb. fallist á að kostnaður af þessum hækkunum, hækkunum vegna gjaldskráa sveitarfélaga, þjónustufyrirtækja sveitarfélaga, verði tekinn út úr verðbótakerfinu?

Þá vildi ég minna á einn þátt þessarar skýrslu, sem kemur eiginlega eins og skrattinn úr sauðarleggnum og eins konar bakþanki í skýrslunni. Það er kaflinn um húsnæðismál. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. hvort það sé rétt, sem heyrst hefur í fjölmiðlum, að það skorti stórfellda fjármuni til að endar nái saman bæði í almenna byggingarlánasjóðnum og Byggingarsjóði verkamanna, svo að þessir sjóðir geti gegnt hlutverki sínu. Í því sambandi minni ég á að almenni byggingarlánasjóðurinn, sem er í vörslu húsnæðismálastjórnar, var skorinn feiknalega niður við fjárlagaafgreiðsluna.

Þá vil ég vekja athygli á því, sem stendur um peningamál í þessari margræddu skýrslu, og spyrja hæstv. forsrh., þar sem hæstv. viðskrh. er ekki við og hefur fjarvistarleyfi: Getur hæstv. ráðh. sagt Alþingi nokkuð ljósar frá stefnunni í peningamálum en sú meitlaða stefnuyfirlýsing skýrslunnar segir, sem hljóðar þannig, með leyfi forseta: „Með sérstökum aðgerðum í peningamálum mun ríkisstj. reyna að tryggja að þessi þáttur efnahagslífsins stuðli að auknu jafnvægi og hjöðnun verðbólgu“?

Hvað þýðir þetta „með sérstökum aðgerðum“? „Með sérstökum aðgerðum í peningamálum mun ríkisstj. reyna.“ Þetta er upplýsandi fyrir Alþingi. En þetta er gott dæmi um þær markvissu og hárbeittu upplýsingar, sem ríkisstj. oft og tíðum lætur Alþingi í té, og er í góðu samræmi við þá virðingu sem stjórnvöld sýna þessari æðstu stofnun þjóðarinnar. Kannske er betra orðalag að finna annars staðar í skýrslunni, en þar segir: „Aðhald í peningamálum verði aukið með ýmsum ráðstöfunum.“ Því miður fæ ég ekki neitt betra út úr þessu, hæstv. ráðh., en þeirri hinni fyrri tilvitnun.

Herra forseti. Þar sem hæstv. ráðherrar hafa ekki séð ástæðu til þess að vera við umr. um þennan nýja stjórnarsáttmála sinn, þá felli ég niður hér ýmsar spurningar sem ég hefði viljað beina til einstakra hæstv. ráðh. (Gripið fram í: Því lætur þú ekki sækja þá?) Ég tel tæplega ástæðu til þess að fara að ónáða þá. Þeir álíta e. t. v. að þeir séu búnir að vinna fram á vor þegar Alþingi verður sent heim. Þeir hugsa sér sjálfsagt ekki að gera neitt fyrr en þá og láta þá Alþingi standa frammi fyrir gerðum hlut í haust. Það eru þeirra ær og kýr.

Herra forseti. Þetta eru örfá dæmi um þær spurningar sem vakna þegar þessi skýrsla er lesin. Á þeim sést að það eru miklu fleiri spurningar sem vakna heldur en er svarað með þessari skýrslu. Það er kapítuli út af fyrir sig, að þessi efnahagsmálapakki, sem svo hefur verið nefndur, er fluttur inn á hv. Alþingi í formi skýrslu sem ekki verður krufin til mergjar í neinni nefnd. Til þess væri þó ærin ástæða, svo sem ég hef hér rökstutt.

Eins og mál þetta ber að er útilokað fyrir einstaka alþm. að setja sig inn í það og fá spurningum svarað öðruvísi en í almennum umr. Því miður hafa hæstv. ráðherrar ekki séð ástæðu til að heiðra almenna þm. með nærveru sinni til þess að veita þeim þær upplýsingar og þykir mér það leitt.