03.02.1982
Sameinað þing: 47. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2199 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

354. mál, efnahagsmál

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil nú mjög árétta það sem fram kom hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. í lok ræðu hans og reyndar áður í ræðunni, að enginn af ráðh. Framsfl. og enginn af ráðh. Alþb. skuli vera viðstaddur þessa umr. um efnahagsmáli. Hæstv. forsrh. er eini ráðh. sem hér situr og hlýðir á mál manna. Auðvitað er það ekkert annað en hneyksli, að ráðherrar skuli á þann veg bregðast við þegar á ferðinni er mál eins og það sem hér um ræðir, mál sem þm. stjórnarandstöðunnar hafa hvað eftir annað, allar götur frá því að þing kom saman í haust, reynt að fá til umr. hér á hv. Alþingi með fsp. til ráðh. og í ýmsu öðru formi, en þeir vikið sér undan að svara eða taka þátt í umr.

Sú skýrsla, sem hér liggur fyrir, á sér nokkuð langan aðdraganda. Þó að hæstv. ráðh. hafi ekki fengist til þess að svara eða taka þátt í umr. um efnahagsmál hér á Alþingi fyrr í vetur, þá hafa þeir þó æðioft látið frá sér heyra á opinberum vettvangi, í fjölmiðlum, um væntanlegar aðgerðir í efnahagsmálum. Þess vegna er nokkuð fróðlegt að skoða þessa skýrslu, skoða þær aðgerðir sem hér eru boðaðar, í ljósi þeirra umr. sem fram hafa farið á milli einstakra ráðh. í fjölmiðlum. Það gefur nokkra vísbendingu um hvernig þessar aðgerðir hafa fæðst og hverjir þar hafi átt stærstan hlut að máli.

Það var í des. s. l.hæstv. viðskrh. reið á vaðið í umr. um þessi mál með ítarlegu viðtali sem dagblaðið Tíminn átti við hann. Tíminn segir í upphafi viðtalsins að hæstv. ráðh. reki þar hverjar séu hugmyndir hans um hvernig affarasælast verði að hafa efnahagsmálin á næsta ári. Hann byrjar að vísu nokkuð að ræða um aðgerðirnar frá því um áramótin fyrir rúmu ári, og hann ítrekar og segir að hann hafi talið nauðsynlegt að gera nýjar ráðstafanir þegar komi fram á árið 1981 — eða eins og hann segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Framan af árinu og fram í septembermánuð var verðbólgan á niðurleið vegna ráðstafana um áramótin, en nauðsynlegt hefði verið að gera nýjar ráðstafanir ekki síðar en í september. Um síðustu áramót lagði ég ríka áherslu á að ráðstöfununum yrði fylgt eftir.“ „Fékkst ekki eining um þetta í ríkisstj.?“ spyr blaðamaðurinn. „Nei,“ segir ráðh., „það varð ekki samkomulag um frekari aðgerðir þá, enda örðugt um vik vegna samninga á vinnumarkaðinum.“

Hér segir ráðh. það alveg skýrt og skorinort, að í ríkisstj. hafi ekki verið samkomulag um neinar frekari aðgerðir á árinu 1981 en þær sem fólust í efnahagsaðgerðunum um síðustu áramót og því sé nú komið sem komið er, að verðbólgan æði áfram stjórnlaust. Ráðh. er síðan spurður um ýmis atriði varðandi það, hvað hann telji að nauðsynlegt sé að gera, og blaðamaður spyr: „Mun Framsfl. ekki halda til streitu stefnu sinni varðandi niðurtalninguna á næsta ári?“

„Jú, alveg hiklaust“, segir ráðh. „Við erum þeirrar skoðunar, að þessar aðgerðir þurfi að byggjast á því að sem flestir aðilar í þjóðfélaginu taki þátt í því að ná verðbólgunni niður. Þá eigum við við það, að ríkissjóður komi inn í myndina og dragi saman og hægi á sér í framkvæmdum, síðan komi bankakerfið til sögunnar með lækkuðum vöxtum og minnki þannig fjármagnskostnað. Í þriðja lagi verður þjóðin í landinu að taka þátt í þessu, launamenn sætti sig við skerðingu verðbóta á laun, bændur sætti sig við skerðingu á verði fyrir sínar afurðir og sjómenn sætti sig við skerðingu á fiskverði. Síðan verði stefnan í gengismálum þannig að hægt verði að reka útflutningsatvinnuvegina með skaplegu móti og aðhalds gætt í peningamálum og fjármálum. Þetta er kjarninn í okkar niðurtalningarkenningu. Ég vil leggja áherslu á það, að við teljum eðlilegt að hafa mjög ákveðna hliðsjón af kaupmætti launa í þessu öllu saman og erum þeirrar skoðunar, að með svona alhliða niðurtalningaraðgerðum verði hægt að komast hjá skerðingu kaupmáttar launa.“

Hér lýkur tilvitnun í hæstv. viðskrh. Þetta var mjög ítarlegt viðtal og aðeins gripið hér niður í nokkur meginatriði. En þetta viðtal hæstv. ráðh. kallaði á mjög harkaleg viðbrögð af hálfu forráðamanna Alþb. Strax daginn eftir er forsíðuviðtal við formann þingflokks Alþb. sem ræðst heiftarlega á hæstv. viðskrh. og segir, með leyfi forseta:

„Það er ekki nýtt, að Tómas Árnason viðskrh. heimti kauplækkun. Hann hefur í tíð þessarar stjórnar alltaf annað veifið staðið upp og sagt að lækka yrði kaupið. Tómas ætti frekar að snúa sér að því að koma í framkvæmd því sem hann hefur látið ógert af ráðstöfunum gegn verðbólgu. Samkv. efnahagsáætlun ríkisstj. um síðustu áramót átti viðskrn. að standa fyrir ýmsu. Meðal þess var endurskipulagning á innflutningsverslun og innkaupum hins opinbera til að draga úr verðbólgu. Viðskrn. hefur brugðist í þessu.“

Þetta var skeyti hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Og hæstv. félmrh., formaður Alþb., lætur ekki sitt eftir liggja og segir í viðtali við Þjóðviljann sem birtist líka daginn eftir, með leyfi forseta:

„Ég tel þetta viðtal við Tómas Árnason gefa alranga mynd af staðreyndum efnahagsmálanna. Það er mjög alvarlegt að ritari Framsfl. skuli stíga fram á sviðið með þessum hætti, þar sem núv. ríkisstj. hefur jafnan reynt að leysa skoðanaágreining á vettvangi ríkisstj. sjálfrar en ekki með blaðaskrifum. (SvH: Hvernig list ræðumanni á ráðherrastólana núna?) Nú eru allir ráðherrar úr salnum.

Hæstv. forsrh. hefur nú gengið í salinn og ég skal halda áfram ræðu minni, en ég sakna þess engu að síður, að ráðherrar annarra flokka skuli ekki vera hér staddir, hvorki Alþb. né Framsfl. Ég ætla þá að taka til við tilvitnun í hæstv. félmrh., sem segir, með leyfi forseta:

„Ég tel þetta viðtal við Tómas Árnason gefa alranga mynd af staðreyndum efnahagsmálanna. Það er mjög alvarlegt, að ritari Framsfl. skuli stíga fram á sviðið með þessum hætti, þar sem núv. ríkisstj. hefur jafnan reynt að leysa skoðanaágreining á vettvangi ríkisstj. sjálfrar en ekki með blaðaskrifum.

Vegna þeirrar fullyrðingar Tómasar, sem þú vitnar til, tel ég óhjákvæmilegt að svara með fáeinum orðum. Ég tel að það sé sérstaklega alvarlegt í viðtalinu við Tómas Árnason, að hann skuli gefa það í skyn ítrekað, að vaxandi verðbólga verði að skrifast á reikning samstarfsaðila Framsfl. í ríkisstj., þar sem þeir hafi ekki verið tilbúnir til að fallast á tillögur um viðbótaraðgerðir gegn verðbólgunni.“

12. des. er þessu síðan áfram haldið í Morgunblaðinu, en þar eru viðtöl bæði við hæstv. viðskrh. og hæstv. félmrh., þar sem þeir halda áfram að senda hvor öðrum skeyti, en Þjóðviljinn tekur í leiðara 11. des. mjög óstinnt upp þetta viðtal við Tómas Árnason, hæstv. viðskrh., og segir m. a., með leyfi forseta:

„Auðvitað hafa fjöldamörg deilumál komið upp innan núv. ríkisstj., en menn hafa sýnt vilja til að leysa þau. Menn hafa varast að hlaupa með deilumál í fjölmiðla á frumstigi. Fyrst hafa málin verið sett í nefnd og reynt að jafna ágreininginn og býsna oft hefur tekist að finna samkomulagsleið. Með þessum hætti verður að vinna eigi ein ríkisstj. að geta orðið farsæl.

Á þetta er minnst hér til aðvörunar, vegna þess að í gær lætur Tómas Árnason viðskrh. sig hafa það að veitast í málgagni Framsfl. með mjög ómaklegum hætti að samstarfsaðilum sínum í ríkisstj.

Þjóðviljinn gerði þetta síðar nánar að umtalsefni, en ég skal ekki rekja það frekar hér.

Nú lágu þessar skeytasendingar og blaðaskrif niðri um skeið eða fram yfir jól, en þá ríður hæstv. fjmrh. á vaðið 15. jan. með viðtali, sem hann lætur eiga við sig í Þjóðviljanum og er reyndar tvíþætt. Það eru tvö viðtöl sem birtast hvort á sínum stað í blaðinu. Þar segir hæstv. fjmrh. að tillögur um efnahagsmálin séu nær fullmótaðar í ríkisstj. og um þær sé gott samkomulag. Rekur hann þar að þessar tillögur séu fyrst og fremst fólgnar í niðurfærslu verðlags eftir ákveðinni áætlun og enn fremur að óskertar verðbætur verði samkvæmt þessum efnahagsaðgerðum.

Formaður Framsfl., hæstv. samgrh., brást ókvæða við og segir í viðtali við Tímann daginn eftir, með leyfi forseta: „Ég verða að lýsa undrun minni yfir því sem nú birtist í blöðum um „pakkann“ sem fjmrh. hefur lagt fram. Ég harma það, því þetta kallar fram ótal spurningar sem þarf nú að leysa á annan máta heldur en í fjölmiðlum.“

Síðan gerir ráðh. nokkuð að umtalsefni þessar aðaltillögur, sem fólgnar eru í niðurgreiðslum, segir að þetta sé góðra gjalda vert, en að sjálfsögðu sé það ekki nema einn liður í málinu og framsóknarmenn hafi margar frekari hugmyndir og margar frekari tillögur, fram að færa en þær sem hæstv. fjmrh., Ragnar Arnalds, hafi lýst sem fullmótuðum aðgerðum. Síðan rekur hæstv. samgrh. ítarlega nokkur atriði sem hann telji að nauðsynlega þurfi að koma inn í efnahagsaðgerðir sem þessar.

Í fyrsta lagi ræðir hann um lagfæringu á vísitölugrundvellinum. Hann segir, með leyfi forseta:

„Það er einn liðurinn í hugmyndum okkar. Við verðum að taka út liði þannig að útkoman verði sanngjörn. T. d. að taka meira tillit til óhagstæðra viðskiptakjara en nú er gert. Það hefur svo oft verið sagt og að hluta viðurkennt, að laun geta ekki hækkað hér þegar olía hækkar erlendis.

Í vísitölunni höfum við líka liði, svo sem innlenda orku, þar sem við erum að gera stórt átak til að bæta afkomu almennings með hitaveitu- og orkuframkvæmdum. Það er í rauninni stórundarlegt að þetta skuli vera í vísitölu, ekki síst þegar þess er einnig gætt, að orkufyrirtækin eru öll í eigu þessa sama almennings sem fær kauphækkun þegar orkuverð hækkar.“

Enn fremur rekur hæstv. samgrh., að verðlagsmál verði að færa í meira nútímahorf, án þess að skýra það nánar. Hann vekur einnig athygli á peningamálunum og segir að ljóst sé að það þurfi að vera ákveðin stefna og að auka þurfi sparnað á ný. Hann minnir á að erlendar lántökur séu orðnar geigvænlegar. Við því verði að sporna og verði ráðstafanir í því skyni að vera í efnahagsmálapakkanum. Hann segir einnig: „Fjármagnskostnaður er mjög hár, og með„prógrammi“ um hjöðnun verðbólgu verður að taka hann inn og lækka vexti.“ Enn fremur ræðir hann um ýmis gjöld sem lækka þurfi á atvinnuvegunum. Síðan spyr blaðamaður: Eru það skammtímaráðstafanir, sem þið vinnið nú að, eða eru þær miðaðar til lengri tíma?“ Þá segir hæstv. samgrh.: „Tvímælalaust eru þær hugsaðar lengra fram í tímann. Við teljum lágmark að þær nái til ársins alls. Og reyndar er margt af þessum hugmyndum þess eðlis, að þær þurfa lengri tíma, við skulum segja 11/2 ár“. „Þær eru þá miðaðar við að gilda út kjörtímabilið“, spyr blaðamaður? „Já, það má segja það,“ segir hæstv. samgrh.

Hæstv. samgrh. kemur aftur í Tímann 23. jan. til að rekja nokkru nánar þessar hugmyndir. En þar er komið svolítið annað hljóð í strokkinn því að hann segir, með leyfi forseta: „Það, sem við viljum skoða betur, er að undirbúa framhaldsaðgerðir síðar á árinu, því þetta nær ekki nógu langt, og fá samkomulag innan ríkisstj. um slíkar aðgerðir.“ Síðan rekur hann nokkur atriði efnahagsaðgerðanna eins og þær hafa birst okkur í skýrslu hæstv. ríkisstj.

Dagblaðið Tíminn birtir svo leiðara 27. jan. þar sem segir, með leyfi forseta:

Ríkisstj. hefur náð samkomulagi um bráðabirgðalausn í efnahagsmálum. Markmiðið er að tryggja á fyrri helmingi ársins nokkra hjöðnun verðbólgunnar, rekstrargrundvöll atvinnuveganna og stöðugan kaupmátt.

Ýmsir munu láta í ljós óánægju yfir því, að ekki skyldi nást samkomulag um svokallaðar varanlegri aðgerðir. Þetta ætti þó engum að koma á óvart sem þekkir til sögu síðustu áratuga,“ segir í leiðara Tímans.

Það er ljóst samkvæmt þessu, að þær fyrirætlanir Framsfl., að hér væri um varanlegar efnahagsaðgerðir að ræða, hafa alveg runnið út í sandinn. Öll stór orð formanns Framsfl., hæstv. samgrh., um það um miðjan janúar, að hér væri verið að tjalda til lengri tíma, a. m. k. út kjörtímabilið, hafa reynst orðin tóm og ekkert að marka þau.

Ef borin eru saman þessi mörgu ummæli sem ég hef hér vitnað til — og raunar mætti bera saman eða vitna í margt fleira sem þeir hafa sagt, þessir hæstv. ráðh. — en ef þessi ummæli eru borin saman við það sem út úr þessu kom í raunveruleikanum má sjá að hér er fyrst og fremst um að ræða aðgerðir sem eru hugmyndir Alþb. Það eru fingraför Alþb. á öllum þessum aðgerðum. Í engu er tekist á við þennan vanda af alvöru. Þetta eru bráðabirgðaaðgerðir eins og þær sem einkenna allar hugmyndir og allar aðgerðir Alþb. í efnahagsmálum fyrr og síðar. Hér er um að ræða feluleik og blekkingar sem eru þeirra ær og kýr. Fyrst og fremst eru notaðar niðurgreiðslur til að telja niður gallaða framfærsluvísitölu. Á meðan æðir hin raunverulega verðbólga upp á við, sú verðbólga sem bitnar á heimilum og á atvinnurekstrinum, þó hún bitni ekki á þeirri gervivísitölu sem notuð er til þess að mæla með verðbólguna á heimili hæstv. ríkisstj.

Hlutur Framsfl. í þessu efni er því afar rýr. Það er auðvelt að sannfærast um það með því að bera saman þær hugmyndir, sem hæstv. samgrh. setti fram í Tímanum um miðjan janúar, og það sem svo raunverulega varð, þegar lesin er þessi skýrsla hæstv. ríkisstj.

Um vísitölugrundvöllinn, sem þeir framsóknarmenn lögðu höfuðáherslu á, er ákaflega óljóst orðalag í skýrslu hæstv. ríkisstj. Það er ekkert minnst á viðskiptakjör í þeim efnum, sem Framsfl. lagði þó höfuðáherslu á í sínum tillögum að sögn hæstv. samgrh., heldur einungis sagt að ríkisstj. muni nú þegar stofna til viðræðna við samtök launafólks og aðra hagsmunaaðila atvinnulífs um viðmiðunarkerfi, sem gæti komið í stað núverandi vísitölukerfis og tryggt kaupmátt og jöfnun lífskjara, en væri laust við höfuðókosti þess kerfis sem nú gildir. M. a. verði reynt að finna leið til þess að ráðstafanir til að jafna orkukostnað landsmanna valdi ekki aukinni verðbólgu.

Öll þau stóru orð framsóknarmanna birtast í þessari mjög óljósu yfirlýsingu — sem er engin einkaskoðun okkar stjórnarandstæðinga að sé mjög óljós. Það kom m. a. fram í viðtali við forseta Alþýðusambands Íslands í Morgunblaðinu 29. jan. s. l. að hann telji orðalagið á yfirlýsingu ríkisstj. næsta óljóst, talað um að finna eitthvert annað kerfi, eins og hann segir. Og síðan rekur hann skoðanir Alþýðusambandsins á þessu máli, sem eru að sjálfsögðu allt aðrar en þær skoðanir sem Framsfl. hefur sett fram.

Í verðlagsmálum segir í viðtali við hæstv. samgrh. að það sé mat þeirra framsóknarmanna að þau eigi að færa í meira nútímahorf. En um þessi atriði er ákaflega óljóst orðalag einnig í skýrslu ríkisstj. Þar segir aðeins að í verðlagsmálum verði við það miðað að draga úr opinberum afskiptum af verðmyndum og auka sveigjanleika í verðmyndunarkerfinu samkv. frv. sem lagt verður fram á Alþingi á næstu dögum. Það er nú æskilegt að fá upplýst hvenær slíkt frv. verði lagt fram. Síðan segir: „Tekið verður upp nýtt fyrirkomulag sem miðar að því að verðgæsla komi í vaxandi mæli í stað beinna verðlagsákvæða. Stuðlað verði að hagkvæmari innkaupum til landsins.“ Hér er að sjálfsögðu fyrst og fremst um orðagjálfur að ræða, en engar raunhæfar aðgerðir boðaðar eða ekkert sem hönd er á festandi í þessum þætti frekar en öðrum.

Varðandi aðgerðir í peningamálum, sem Framsfl. lagði mikla áherslu á, er um jafnmikinn véfréttarstíl að ræða. Þar segir í skýrslu ríkisstj.: „Með sérstökum aðgerðum í peningamálum mun ríkisstj. reyna að tryggja að þessi þáttur efnahagslífsins stuðli að auknu jafnvægi og hjöðnun verðbólgu. Áætlanagerð um peningamál verði notuð í því skyni, að þróun helstu peningastærða miðist við þann ramma sem efnahagsstefna og markmið ríkisstj. mynda. Aðhald í peningamálum verði aukið með ýmsum ráðstöfunum.“ Það er orðalagið.

Um erlendar lántökur, sem hæstv. samgrh. taldi að væru orðnar geigvænlegar og þyrfti að sporna við, segir aðeins að ráðstafanir verði gerðar til þess að draga úr erlendum lántökum og í því skyni verði leitað samkomulags við viðskiptabankana um aukna þátttöku innlendra lánastofnana í fjármögnun framkvæmda. Stefnt verði að því að auka innlendan sparnað til að draga úr þörf á erlendum lánum. Ýmsir möguleikar verði kannaðir í þessu sambandi, þ. á m. að nota skattalög í auknum mæli til að örva sparnað. Allt á sömu bókina lært: Kanna á ýmsa möguleika, engar raunhæfar aðgerðir boðaðar.

Þegar hæstv. samgrh. talaði um nauðsyn þess að lækka vexti sagði hann í viðtalinu, með leyfi forseta: „Reyndar finnst mér að lækkun vaxta mætti leiða dálítið í niðurtalningu verðbólgunnar.“ Hann sem sagt boðar að það eigi að lækka vextina og þeir eigi síðan að leiða í niðurtalningu verðbólgunnar. En út úr þessu kemur í skýrslu ríkisstj.: „Unnið verður að því að draga úr fjármagnskostnaði, m. a. með lækkun vaxta í samræmi við hjöðnun verðbólgunnar.“ Hér er auðvitað um allt annað að ræða, eins og allir sjá sem um það vilja hugsa, og ljóst að í þessu efni eins og öðrum hefur Framsfl. beðið lægri hlut við samningu þessara svokölluðu efnahagsaðgerða.

Í rauninni má segja að eina atriðið, sem út úr þessum hugmyndum Framsfl. hafi komið, sé lækkun á vissum gjöldum á atvinnuvegunum, launaskattur í iðnaði og fiskvinnslu lækki úr 3.5 í 2.5% og stimpilgjöld af afurðalánum úr 1% í 0,3%. Vissulega er það þakkarvert og ég skal ekki vanþakka það á neinn hátt sem þarna kemur fram. En að öðru leyti er allt, sem fram kemur í þessum tillögum í véfréttarstíl, óljósar hugmyndir, kanna á hin og þessi atriði, og mörg þessara atriða eru eins óljós og þokukennd og þau voru í stjórnarsáttmálanum fyrir um tveimur árum. Í mörgum atriðum er ekkert komið lengra en að endurtaka það sama með svipuðu orðalagi og þar var gert.

Ég skal nefna sem dæmi, að í þættinum um peningamál á bls. 6 í stjórnarsáttmálanum, eins og hann var prentaður 8. febr. 1980, segir: „Peningamagn í umferð verði í samræmi við markmið í efnahagsmálum.“ Um þetta segir í þessari skýrslu um aðgerðir: „Áætlanagerð um peningamál verði notuð í því skyni, að þróun helstu peningastærða miðist við þann ramma sem efnahagsstefna og markmið ríkisstj. mynda.“ Hér er verið að segja nákvæmlega það sama, einungis með öðru orðalagi. Tveimur árum seinna er verið að ítreka og árétta þetta stefnumark. Lengra er ekki komið í þeim efnum.

Við skulum taka annað dæmi. Á bls. 4 í stjórnarsáttmátanum er talað um endurskoðun vísitölugrundvallarins. Þar segir: „Ríkisstj. mun beita sér fyrir því, að hraðað verði endurskoðun vísitölugrundvallar.“ Um þetta segir hins vegar núna í þessari skýrslu: „Ríkisstj. mun nú þegar stofna til viðræðna við samtök launafólks og aðra hagsmunaaðila atvinnulífsins um viðmiðunarkerfi sem gæti komið í stað núverandi vísitölukerfis.“ Að vísu er vitað að neyslukönnun hefur legið fyrir í Hagstofunni nú um alllangt skeið, en ekki verið gert neitt í því að koma á nýjum vísitölugrundvelli í samræmi við hana. Er þetta heldur rýr eftirtekja eftir tveggja ára starf.

Þriðja dæmið má nefna úr sáttmála ríkisstj. Í kaflanum um verðlagsmál á bls. 5 segir: „Unnið verði að lækkun vöruverðs“ — og nefndar nokkrar aðgerðir í því skyni. Eitt atriðið er að greiða fyrir því, að unnt sé að lækka vöruverð með innkaupum í stórum stíl. Nú er sagt hins vegar í verðlagsmálakafla þessarar skýrslu: „Stuðlað verði að hagkvæmari innkaupum til landsins.“ Hér er auðvitað verið að orða meira og minna það sama með örlítið breyttu orðalagi.

Ljóst er af þeim dæmum, sem ég hef talið hér upp, að ekki er langt komið þeirri vinnu sem stjórnin hét í upphafi að vinna að. Það alvarlegasta í þessu er þó það, að eftir allan þennan tíma, eftir að hæstv. ríkisstj. hefur mánuðum saman setið á rökstólum við að leysa þann efnahagsvanda sem að okkar steðjar, skuli ekki koma út úr því annað en nýjar bráðabirgðaráðstafanir sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson lýsir í grein í Dagblaðinu í dag á þann veg, að hann segir að eftir þrjá mánuði verði að stokka allt upp á nýtt. Þetta er alvarleg staðreynd, því að það, sem á þarf að halda umfram annað í þeim mikla vanda sem að okkur Íslendingum steðjar, er að gripið sé á efnahagsmálunum með föstum tökum en ekki með lausatökum bráðabirgðaaðgerða á þriggja mánaða fresti. Ef svo fer fram sem horfir er alveg ljóst að við munum fyrr en síðar lenda í alvarlegum ógöngum í efnahagsmálunum. Og því miður ber þessi skýrsla ríkisstj. um aðgerðir í efnahagsmálum ekki vott um það að nein glæta sé fram undan í okkar mikla vanda.