03.02.1982
Sameinað þing: 47. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2218 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

354. mál, efnahagsmál

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það var ekki málefnafátæktinni fyrir að fara hjá hæstv. ráðh. sem var að ljúka máli sínu. Ég verð nú að segja það, að þeir fáu þm., sem hlustuðu á hæstv. ráðh., hafa áreiðanlega verið jafnhissa og ég yfir því að heyra slíkan málflutning hjá hæstv. ráðh., alveg sérstaklega þegar hann hóf mál sitt, sýnilega alveg öskureiður. Hann orðaði það þannig, að ég hefði verið eldsúr í minni ræðu í dag. Hafi ég verið eldsúr, þá var hæstv. ráðh. gallsúr, og kannske eru það þá tveir lundabaggar sem koma loksins úr þorrabakka: eldsúr og gallsúr.

Hæstv. ráðh. kunni nákvæmlega skil á því, hvað hefðu komið margar síður út af Morgunblaðinu síðan á fimmtudaginn var. En mig minnir að hann nefndi tvær eða þrjár tölur aðrar í sinni svarræðu, þar sem hann hefur sjálfsagt verið spurður um — ja, ég veit ekki — nokkra tugi, ef hann hefði vitað hverju hann átti að svara. Sannleikurinn er sá, að hæstv. ráðh. er vorkunn. Hann er spurður hér spurninga sem hann getur ekki svarað, einfaldlega vegna þess að í því plaggi, sem er skýrsla hæstv. ríkisstj. allrar, er ekkert innihald annað en það, að hæstv. ríkisstj. hugsar sér að greiða niður vísitölu tvisvar sinnum um 6%, eins og þar stendur. Það er í rauninni það eina sem stendur í þessu plaggi. Hæstv. ráðh. segir föðurlega við mig að ég eigi ekki að leyfa mér að segja að þetta séu hrikalegar niðurgreiðslur. Ég benti þingheimi og hæstv. ráðh. á að bara hækkunin á niðurgreiðslum, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að efna til, er meira en þreföld sú upphæð sem hæstv. ríkisstj. ætlar að verja núna til framkvæmda í landinu: skólabygginga, sjúkrahúsa, hafna, flugvalla o. s. frv. Þetta kalla ég hrikalegar niðurgreiðslur.

Hæstv. ráðh. nefndi hér snarvitlausa tölu um það, hvað hér væri á ferðinni, þegar hann talaði um að verið væri að greiða niður 7%, enda hefur það komið fram hjá hæstv. sjútvrh., sem hefur sjálfsagt sett sig betur inn í þetta dæmi, að það á að greiða niður 11% í vísitölu með þessum niðurgreiðslum.

Ég hef ekki ómerkari mann en hæstv. forsrh. sjálfan fyrir því að leggja nokkurt mat á niðurgreiðslur, hvenær þær séu í hófi og hvenær þær séu ekki í hófi. Hæstv. ráðh. sagði í margtilvitnaðri Morgunblaðsgrein um niðurgreiðslur á sínum tíma, þegar þær voru aðeins 20–30 milljarðar á ári, sem mér reiknast til að sé eitthvað svipað því, ef sama verðlag er notað, og það kostar að greiða niður þessi 6–7 stig á næsta ári: „Niðurgreiðslur úr ríkissjóði á landbúnaðarvörur kosta nú milli 20–30 milljarða“ — að sjálfsögðu gkr. — „á ári og eru komnar úr hófi.“ Og hann segir annað, sem hv. þm. Friðrik Sophusson rifjaði hér upp í umr. í útvarpinu. Hann segir: „Þessar miklu niðurgreiðslur skekkja verðlag.“ Hvað er það, hæstv. ráðh., að skekkja verðlag? Er ekki alveg eins hægt að tala um að falsa vísitöluna, gera verðlag skakkt fyrir fólki, gera það þannig skakkt að fólk viti ekki hver mælirinn er á verðlag? Hæstv. ráðh. segir hér: „Þessar miklu niðurgreiðslur skekkja verðlag“. Og hann segir meira: „Draga úr hvöt til þess að ráðast í nýjar búgreinar. Þær bjóða heim hættu á misnotkun og spillingu.“ — Þær bjóða heim hættu á misnotkun og spillingu. Er það þetta sem hæstv. ráðh. er að gera með þeim einu efnahagsaðgerðum sem núv. hæstv. ríkisstj. er sammála um að gera? Og af hverju er hún bara sammála um að gera þetta?

Menn koma hér, ráðh. eftir ráðh., og segja: Okkur tókst bara vel í fyrra, drengir. Við sögðum: Stöðugt gengi. Við sögðum: Við skulum hafa verðlagshöft, við skulum hækka vexti. Okkur tókst bara vel, drengir. (FrS: Röskir drengir og dugandi.) Og við skulum stunda kauprán, eins og hv. þm. Alþb. kalla að skerða verðbætur á laun. Þetta gerðu þeir allir í fyrra og koma svo hér og hæla sér af því hver um annan þveran: Við náðum öllum markmiðum okkar í fyrra. — Ekki eitt einasta úrræði af þessu, sem var svo gott í fyrra, er notað núna. Hvernig skyldi standa á því? Hvar eru fuglar þeir á sumri sungu?

Það er ekki furða þó að hæstv. ráðh. hafi verið örlítið eldsúr hér áðan. Hann sagði að allir hæstv. ráðherrar væru sammála um þessa skýrslu, sem er ekkert annað en ein loðmolla og ekkert stendur í og hann gat engu svarað um hvað stæði í. Það er alveg stórmerkilegt að menn skuli geta verið sammála um ekki neitt. Það er í rauninni kannske það sem þessarar ríkisstj. verður lengst minnst fyrir: að hafa getað orðið sammála um að gera ekki neitt, en sitja áfram í rólegheitum, á fjórum fótum. Ég heyri að bent er á að það sé kannske ekki gott að segja „að sitja á fjórum fótum“, en ég gæti trúað að það væri sú lýsing sem best hæfði þessari ríkisstj., því að sitji hún enn í ráðherrastólum, þá er sem hún sé á fjórum fótum.

Hæstv. ráðh. sagði að ég hefði verið eldsúr yfir því, að það væri nú loksins farið að framkvæma eitthvað af stefnu Sjálfstfl. Ég hefði bent á, að núv. hæstv. ríkisstj. hefði farið eftir úrræðu Alþb. og Framsóknar, og hefði verið þekktari fyrir það hér í þingsölum áður að deila á það. Nú væri farið að fara eftir úrræðum Sjálfstfl. og þar væri um það að ræða að minnka svolítið hörðustu og vitlausustu verðlagshöft sem um getur í áratugi — og ég átti að hrópa húrra fyrir því — og það ætti að fara að lækka ríkisútgjöldin. Já, það átti að fara að lækka ríkisútgjöldin. Þarna er um örlítið brot að ræða af því sem ríkisútgjöldin hafa verið hækkuð, hæstv. ráðh. Út af fyrir sig fagna ég því og eins og ég sagði í minni ræðu áðan: guð láti gott á vita, að það er farið að ýja að því að gera þetta. En því miður er allt orðalag þessarar skýrslu svo óljóst, að ekki er hægt að reiða sig á að það gangi fram sem þar segir.

Hæstv. ráðh. bað okkur hv. þm. Kjartan Jóhannsson að biðjast afsökunar á því, að við hefðum talað um að Þjóðhagsstofnun spáði 40–42% verðbólgu eða hækkun framfærsluvísitölu á þessu ári. Ég orðaði þetta: hækkun framfærsluvísitölu. Hæstv. ráðh. vildi gera mikið úr því, að þetta væri ekki spá heldur framreikningur. Nú held ég að þetta sé bitamunur en ekki fjár, og hafi aldrei farið meira fleipur frá hv. þm. í sambandi við slíka hluti en þetta, þá vil ég segja að það hafi verið vel. Ég biðst ekki afsökunar á þessu, enda algerlega óþarft, vegna þess að oft og tíðum voru þessi orð notuð jöfnum höndum. Það ætti hæstv. ráðh. að vita. Að sjálfsögðu eru ýmsir fyrirvarar á þessu. Það er erfitt að spá, alveg sérstaklega um framtíðina, er sagt. Og allar spár eru með fyrirvörum. Ég held að ég hafi tíundað samviskusamlega með hvaða fyrirvörum þessar spár eru. Þær eru m. a. með þeim fyrirvara að engin grunnkaupshækkun verði á árinu. Ég spurði hæstv. ráðh.: Er þetta stefna ríkisstj. m. a.? Og ég benti hæstv. ráðh. á að það þyrfti að mati sérfræðinga 5+5% kauprán á síðasta hluta ársins að óbreyttu vísitölukerfi ef ætti að ná verðbólgumarkmiði hæstv. ríkisstj. Um þetta hafði hæstv. ráðh. ekkert að segja.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. úr hófi fram. Ég vil aðeins segja að það kemur úr hörðustu átt þegar mál er lagt þannig fyrir hv. Alþingi, að því er ekki ætlað að fá neina umfjöllun í nefnd, og er þess eðlis, að fjöldi af þeim fullyrðingum, sem eru í þessari skýrslu og ég hef ekki fengið svör við, heyrir undir hina ýmsu ráðherra, að sé amast við því og talin frekja af óbreyttum þm. að ætlast til að hæstv. ráðherrar séu viðlátnir og geti svarað.

Ég sé hér hæstv. félmrh. sem ekki var hér í dag. Ég ætlaði að leggja fyrir hann nokkrar fsp., m. a. þá, hvort hann teldi að þetta væri eðlilegt verðbólgumarkmið ríkisstj. og hvernig hann liti á þau ummæli ýmissa sérfræðinga, að að óbreyttu vísitölukerfi væri ekki unnt að ná þessu verðbólgumarkmiði nema með því að skerða kaup tvisvar sinnum í haust, um 5% í hvort skipti, auk margs annars. En af ýmsum ástæðum ætla ég að láta hér staðar numið.

Að lokum þetta: Hæstv. ráðh. var nokkuð ánægður með, hvernig grundvöllur atvinnuveganna hefði verið í tíð hæstv. ríkisstj., og sagði að það skipti atvinnulífið öllu máli að verðbólgan hjaðnaði. Það er alveg rétt. En versta verðbólgan fyrir atvinnuvegina er sú, að kostnaður þeirra hækki meira en tekjurnar. Hæstv. ríkisstj. hefur einmitt haldið þannig á málum að inniendur kostnaður atvinnuveganna hefur hækkað meira en þeir hafa fengið að selja vörur sínar bæði hér innanlands og erlendis. Um leið hefur hæstv. ríkisstj. haldið þannig á máli að útlendir atvinnuvegir hafa haft greiðan aðgang að íslenskum markaði vegna þess að oft og tíðum hefur ekki orðið hækkun á erlendum gjaldeyri í marga mánuði samtímis því að þeir, sem eru að keppa við innflutning útlendra atvinnuvega á íslenskum markaði, hafa þurft að sæta stórfelldum innlendum hækkunum.

Blað hæstv. félmrh. skrifaði mjög skemmtilega um þetta fyrir nokkrum dögum. Þar var leiðari um það sem hét: „Við lifum hátt“. Var þar bent á hversu óhemjumikill innflutningur hefði orðið á Íslandi á s. l. ári. Það var vegna þessarar stefnu ríkisstj. í atvinnumálum. Það er vegna útlendrar stefnu ríkisstj. í atvinnumálum. Íslenskir atvinnuvegir máttu sæta því að fá ekki vegna pólitískra ákvarðana að selja vöru sína á kostnaðarverði, hvorki á inniendum markaði né erlendum. En útlendingar máttu flytja hingað inn vörur afskiptalaust og á mjög góðu verði vegna stefnunnar í gjaldeyrismálum.

Það er þannig sem ekki á að búa að atvinnuvegunum, hæstv. ráðh. Það verður að höggva að rótinni. Það verður að koma í veg fyrir innlendar verðhækkanir, innlendar kostnaðarhækkanir atvinnuveganna. Með því einu móti er hægt að halda gengi stöðugu og halda niðri verðlagi í landinu. Það er ekki hægt að byrja á öfugum enda, hvorki í þessu né öðru. En það hefur hæstv. ríkisstj. sannarlega gert.