27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

25. mál, afkoma iðnfyrirtækja í eigu ríkisins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vildi lýsa ánægju minni með þá sterku stöðu atvinnuveganna í landinu sem fram kemur hjá hv. formanni þingflokks Alþb. að sé nú á þessari stundu. Ég vil leyfa mér að benda á að allar ráðagerðir hæstv. ríkisstj. og tal um að það sé nauðsynlegt að færa stórfé í þjóðarbúskapnum til þessara sömu atvinnugreina, eins og í sjávarútvegi, m. a. úr gjaldeyrisvarasjóði landsmanna, er þá gjörsamlega þarflaust og út í hött. Ég vil fagna því, að staða íslenskra atvinnuvega skuli vera svo styrk sem hv. þm. segir. Þá ætti væntanlega ekki að vera mikill vandi fyrir hæstv. ríkisstj. og þá, sem með völdin fara á landi hér, að leyfa launþegunum að njóta í formi kauphækkana einhvers af þeirri góðu stöðu íslenskra atvinnuvega.

Ég vænti þess, að hæstv. forsrh., sjútvrh. og aðrir ráðh. í ríkisstj. haldi ekki lengi áfram svartnættissöng sínum um nauðsyn þess að færa stórfé í eigu annarra þjóðfélagsþegna til atvinnugreina í sjávarútvegi og iðnaði fyrst afkoman er svona góð.