04.02.1982
Sameinað þing: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2223 í B-deild Alþingistíðinda. (1881)

106. mál, öryggismál sjómanna

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Þessi fsp., sem lögð var fram 18. nóv. s. l., þskj. var útbýtt hér í þinginu 19 nóv., var fjórum sinnum á dagskrá á fyrra ári, en þá ekki hægt að taka hana fyrir vegna fjarvista ráðh. Hún hefur verið tvisvar sinnum á dagskrá nú í byrjun þessa árs eftir að þing kom saman og var þá ekki hægt að ræða fsp. vegna fjarveru minnar. Ég var erlendis í opinberum erindagerðum. Segja má því að hluti þess, sem um er spurt í þessari fsp. og þeirri, sem hér verður tekin fyrir á eftir, sé kannske úrelt orðið, en þó held ég að sé rétt að fara yfir öll atriði þessarar fsp., og vil ég leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa fsp. fyrst:

1. tölul. hljóðar á þessa leið: „Hvenær má vænta formlegrar viðurkenningar siglingamálastjóra á sleppibúnaði gúmbjörgunarbáta sem Sigmund Jóhannsson í Vestmannaeyjum hefur hannað?

2. Þegar sú viðurkenning er fengin verða þá ekki sett reglugerðarákvæði sem skylda eigendur skipa til að búa skip sín strax þessum öryggisbúnaði?

3. Má vænta þess, að Siglingamálastofnun gefi á næstunni út nýjar reglur um gerð og búnað björgunarbáta á hinum stærri skipum?“

Varðandi fyrsta atriði þessarar fsp., 1. tölul., munu hafa orðið nokkur blaðaskrif ekki alls fyrir löngu, og að því sem mér skilst mun hafa komið þar fram full viðurkenning á ágæti þessa búnaðar. Hins vegar sjá hv. þm. að megintilgangur fsp. kemur fram í 2. tölul., að þegar sú viðurkenning er fengin, sem um er spurt, hvort ekki verði þá sett reglugerðarákvæði sem skyldi eigendur skipa til að búa skip sín strax þessum öryggisbúnaði. Ég þarf ekki að skýra hér fyrir ykkur, hv. þm., forgöngu Vestmanneyinga sem slíkra, bæði sjómanna þar og iðnaðarmanna og útgerðarmanna. sem vissulega eiga sinn stóra þátt í þeirri þróun sem hefur orðið frá fyrstu tíð í björgunarmálum á þeim þýðingarmikla útgerðarstað. Ég held þó að á síðustu árum hafi vakið athygli þáttur Vestmanneyinga í að taka upp og nota gúmbjörgunarbáta og nú síðast það, að þessi hugvitsmaður okkar, Sigmund Jóhannsson, hefur hannað það sem hér er verið að spyrja um sleppibúnaðinn, og reyndar fleiri þætti sem teljast til öryggisbúnaðar á skipum, — það muni lengi verða í minnum haft meðal a. m. k. þeirra sem við eiga að búa, sjómannanna sjálfra. Ég leyfi mér að fullyrða að ekki muni aðeins forganga Vestmanneyinga sjálfra, heldur og þessa einstaklings, sem hefur lagt gífurlega mikið hugvit fram við að koma þessum búnaði í notkun með þeim ágætu mönnum sem með honum hafa unnið, útgerðarmönnum og iðnaðarmönnum ásamt sjómönnum, — að þetta muni lengi verða í minnum haft og verða til fyrirmyndar fyrir aðra útgerðarstaði og aðra sem að slíkum málum vinna hér á landi.

Ég skal ekki taka upp þá umr. sem hefur orðið hér á milli mála. Minn tilgangur með þessari fsp. er ekki að ráðast á nokkurn hátt að hv. siglingamálastjóra né hæstv. sjútvrh. Siglingamálastjóri býr við það sem flestir stjórnendur í embættum hér á landi búa við. Þeir búa við mikið fjármagnsleysi. Mér er kunnugt um að það er margt og mikið sem hann vildi gera á vegum síns embættis, en hann hefur ekki fengið því fram komið vegna þess að embættinu hefur ekki verið veitt það fjármagn sem skyldi til þess að hægt væri að vinna það lífsnauðsynlega starf sem þar er oft og tíðum unnið. Skal ég ekki fara út í það nánar að sinni og ekki nema tilefni gefist til, en vill þó samt láta þetta koma fram vegna þess að oft hafa heyrst háværar gagnrýniraddir frá sjómönnum í sambandi við þessi mál.

3. tölul. er að gefnu tilefni settur fram með þessari fsp. Hann orðast svo, með leyfi forseta:

„Má vænta þess, að Siglingamálastofnun gefi á næstunni út nýjar reglur um gerð og búnað björgunarbáta á hinum stærri skipum?“

Rannsóknir á þessu hófust í Noregi á vegum iðnþróunarsjóðsins strax árið 1973. Þeim rannsóknum lauk 1979. Það var margt merkilegt sem kom þar fram, og niðurstaða þeirra rannsókna, sem fóru fram í Noregi, hefur verið kynnt bæði í sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum. Því er þessi liður fsp. fram borinn.