04.02.1982
Sameinað þing: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2224 í B-deild Alþingistíðinda. (1882)

106. mál, öryggismál sjómanna

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, að það er leitt hve dregist hefur að svara þessu af þeim ástæðum sem hann rakti. Reyndar hygg ég að ég geti bætt því við, að þegar við báðir vorum hér viðstaddir fyrir jólahlé á þinginu voru annir það miklar að ekki var hægt að koma þessu að.

Það svar, sem ég flyt hér, er byggt á svari siglingamálastjóra frá því um mánaðarmótin nóv.-des., og eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda hefur nokkurt vatn runnið til sjávar frá því að spurt var og frá því að svar var tilbúið. Bið ég menn að hafa það í huga um leið og ég kem að þessum spurningum.

1. spurning: „Hvenær má vænta formlegrar viðurkenningar siglingamálastjóra á sleppibúnaði gúmbjörgunarbáta sem Sigmund Jóhannsson í Vestmannaeyjum hefur hannað?“

Svar siglingamálastjóra ber með sér að þessi sleppibúnaður hlaut samþykki Siglingamálastofnunar ríkisins sumarið 1981 með því skilyrði að rakastýrði losunarbúnaðurinn geti ekki losað gúmmíbjörgunarbát án þess að til þess sé ætlast. Ef um aðrar gerðir búnaðarins verður að ræða þarf að fá sérstakt samþykki áður en hann er settur upp. Er sérstaklega vísað í þessu sambandi til rits stofnunarinnar, Siglingamál, frá því í júlí 1981, þar sem er ítarlega fjallað um þennan mjög athyglisverða búnað og kemur fram sú niðurstaða Siglingamálastofnunar, að búnaðinn beri að samþykkja með því skilyrði sem ég rakti.

Síðan er 2. spurning: „Þegar þessi viðurkenning er fengin, verða þá ekki sett reglugerðarákvæði sem skylda eigendur skipa til að búa skip sín strax þessum öryggisbúnaði?“

Ég hef haft mikinn áhuga á að það verði gert af þeim ástæðum, sem hér hafa komið fram, að hér er um mjög athyglisverðan öryggisbúnað að ræða. Ég beindi því til siglingamálastjóra, að það yrði undirbúið eins fljótt og frekast er unnt. Í bréfi siglingamálastjóra til mín, dags. 20. ágúst 1981, vekur siglingamálastjóri athygli á að útgerðarmenn í Vestmannaeyjum muni ætla að útbúa skip sín fyrir vetrarvertíð með þessum búnaði og þar fáist gullið tækifæri til að fá nauðsynlega reynslu á búnaðinn og þá á ýmis atriði sem tengjast mismunandi aðstöðu í hinum ýmsu bátum. Siglingamálastjóri leggur áherslu á að það atriði sérstaklega hefur ekki verið nægilega skoðað og kunni að þurfa að gera sérstakar kröfur til einstakra báta í því sambandi. Í því bréfi leggur hann til að beðið verði með að afla formlegra umsagna, eins og ætíð er gert, þangað til sú reynsla er fengin. Rn. taldi rétt að haga málum eins og siglingamálastjóri leggur til, en strax og þessi vitneskja liggur fyrir, sem fæst á vetrarvertíðinni, mun rn. ganga eftir því, að leitað verði til hagsmunaaðila, eins og gert er í öllum slíkum tilfellum, þ. e. til sjómannasamtaka, samtaka útgerðarmanna, farmanna og fiskimanna, og búnaður þessi verði síðan lögbundinn með reglugerð og þá með þeim skilyrðum sem reynsla þessarar vertíðar og niðurstöður siglingamálastjóra og hagsmunaaðila gera ráð fyrir að setja þurfi.

Þá er þriðja spurningin. Þar er spurt: „Má vænta þess, að Siglingamálastofnun gefi á næstunni út nýjar reglur um gerð og búnað björgunarbáta á hinum stærri skipum?“

Samandregið svar siglingamálastjóra er á þessa leið: Fylgst er stöðugt með þróun í gerð og búnaði björgunarbáta, jafnt á minni sem stærri skipum. Nú er unnið að grundvallarendurskoðun á Solar-samþykktinni frá 1974 að því er varðar björgunartæki skipa. Hluti hennar verður algerlega endurnýjaður og fjölmargar nýjar kröfur gerðar m. a. með björgunarbáta flutningaskipa. Sérstakur fundur, segir hann hér í desember, verður haldinn nú í janúar í Alþjóðasiglingamálastofnuninni, IMCO, og er þá gert ráð fyrir að gengið verði endanlega frá texta þessa kafla. Fari þetta eftir er þess að vænta að íslenskum reglum verði breytt til samræmis við nýjustu kröfur um björgunartæki flutningaskipa. — Fundur þessi var haldinn og er nú verið að endurskoða íslenskar reglur með tilliti til þess, sem niðurstaða varð um á fundinum. Ég hef lagt á það áherslu, að því verki verði hraðað. Geri ég fastlega ráð fyrir að ég fái niðurstöður fljótlega á mitt borð.

Ég vil aðeins að lokum taka það fram, að ég mun, eins og ég hef gert, leggja á það mikla áherslu að kappkostað verði að bæta öryggi á sjó eftir hverri þeirri leið sem fær þykir. Mér hefur sýnst af því að fylgjast með þróun þessa athyglisverða björgunarbúnaðar, sem kenndur er við Sigmund Jóhannsson og hann hefur hannað, að þar sé sannarlega um mjög athyglisvert skref í þessa átt að ræða. Ég hef því lagt áherslu á að unnið verði eins ötullega og hægt er að því að koma þessu í öll skip, en hef hins vegar ekki talið mér fært að ganga hraðar fram í því máli en siglingamálastjóri og sérfræðingar hans telja eðlilegt. — En ég mun fylgja því eftir að málinu verði sinnt eins fljótt og eins vel og frekast er kostur.