04.02.1982
Sameinað þing: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2229 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

345. mál, leiguskip Skipaútgerðar ríkisins

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég held að ég hafi ekki orðað það á þann veg, að mælingareglurnar sem slíkar hefðu verið brotnar í skjóli viðkomandi hæstv. ráðh., hins vegar vökulögin. Á það bendi ég aftur og undirstrika að það hefur verið viðurkennt af báðum þeim tveim hæstv. ráðh., sem ég vitnaði til, í umr., sem hér urðu á s. l. ári um þessi mál, að þeim væri kunnugt um þetta. Auðvitað gildir um þessa minni togara alveg það sama og hina. Ef þeir kallast togarar og eru skráðir sem togarar gilda vökulögin samkv. gildandi íslenskum lögum um þá hvernig sem mælingareglur og mælingar eru. Ég tók það sem dæmi um vökulögin.

Við skulum taka þá einkennilegu staðreynd um verslunarskip sem kemur til landsins yfirbyggt, að það er alltaf hægt að mæla það 499 tonn. Sama er reyndar með þessa svokölluðu minni skuttogara: Það er alltaf hægt að mæla þá undir 500 tonnum vegna þess að sjómannasamtökin féllust á það eitt sinn — illu heilli — að ganga fram hjá vökulögunum við gerð bátakjarasamninga og láta þessi skip falla undir þau.

Nú skal ég viðurkenna strax, að ég tel fulla ástæðu til þess, með hliðsjón af þeirri reynslu, sem hefur orðið á undanförnum árum, og með hliðsjón af þeirri félagslegu þróun, sem hefur orðið hjá verkafólki í landi í sambandi við vinnutíma og hvíldartíma, að vökulögin verði endurskoðuð. Ég er alveg ófeiminn við það, þó ég sé í stjórn eins sjómannafélagsins hér á landi, að miða við þá þróun sem verið hefur á undanförnum árum og áratugum í þessum málum. Það er ekki hægt að líða það til lengdar að ein stétt manna, fiskimennirnir og farmennirnir einir allra, fái ekki að njóta þeirrar þróunar sem hefur orðið á sviði vinnuverndar hjá landsmönnum. Við skulum ekki gleyma því þegar við erum að tala um og bera saman við erlenda sjómenn fjölda í áhöfn á verslunarskipum. Ég var fyrir stuttu að horfa á kvikmynd frá hræðilegu slysi sem varð við Landsend í Englandi þar sem verslunarskip fórst og því miður einnig áhöfn björgunarbáts sem kom til hjálpar. En meginástæða þessa slyss er talin vera sú, að skipið var algerlega vanmannað. Svo halda menn hér heima að það sé hægt að taka fljótabáta sunnan úr Evrópu til þess að sigla með strönd Íslands að vetrarlagi og bera það saman við siglingar í Norðursjó með ströndum fram þar sem hægt er að hleypa til hafnar hvenær sem er ef skellur á illt veður. Það er auðvitað barnalagt.

En ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans og tek það auðvitað fram, að þótt ég hafi ekki kallað Skipaútgerð ríkisins í þessu tilfelli alvöruskipafélag, sem ég geri ekki vegna þess að öll önnur skipafélög verða að standa undir rekstri sínum, þá fólst ekki í orðum mínum neitt um að það þyrfti ekki að halda uppi samgöngum á sjó við hafnir eins og hæstv. ráðh. nefndi. En ég spyr: Hefur það nokkurn tíma verið athugað í fullri alvöru og hefur t. d. þessari samvinnunefnd, sem hæstv. ráðh. talaði um verið falið að athuga hvort það sé ekki ódýrara að bjóða hreinlega hinum skipafélögunum, sem eru vel rekin í harðri samkeppni við erlend skipafélög, fjármuni fyrir að koma reglulega á þessar sömu hafnir? Ég veit ekki til þess. En ef það hefur ekki verið, af hverju er það ekki reynt? Til hvers er verið að halda uppi þessari þjónustu sem við erum að glíma við á hverju einasta ári við afgreiðslu fjárlaga að setja svo mikla peninga í að mönnum hrýs hugur við í hvert skipti sem þeir rétta upp höndina til þess?