04.02.1982
Sameinað þing: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2230 í B-deild Alþingistíðinda. (1890)

158. mál, iðnaður á Vestfjörðum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég fylgi hér úr hlaði fsp. sem borin er fram af Sigurgeir Bóassyni til iðnrh. um iðnað á Vestfjörðum. Fsp. hljóðar svo:

„Hvað líður framkvæmd þál. um eflingu iðnaðar og þjónustu á Vestfjörðum, sem samþykkt var á Alþingi 19. maí s. l.?“

þáltill., sem þá var samþykkt, hljóðar svo, með leyfi forseta: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir gerð áætlunar um eflingu iðnaðar og þjónustu á Vestfjörðum.“

Þessi þáltill. var samþykki 19. maí og í alla staði væri eðlilegt að fyrir lægi hvaða farveg ríkisstj. hefur ætlað framkvæmd hennar, hvort Framkvæmdastofnun ríkisins hefur verið falið að sjá um það verkefni að gera áætlun í samræmi við þáltill. eða hvort aðrar hugmyndir eru uppi um framkvæmd hennar. Það ýtir nú einnig á eftir að fá skýr svör við þessu, að fyrir þinginu liggur þáltill., sem flutt hefur verið í vetur og er efnislega mjög á sama veg og sú till. sem samþykkt var s. l. vor.