04.02.1982
Sameinað þing: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2237 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

151. mál, landgræðslu- og landverndaráætlun 1982--86

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Till. sú sem hér er flutt, um landgræðslu- og landverndaráætlun fyrir árin 1982–1986, á að baki sér mikinn undirbúning og mikið starf. Í raun er hún framhald af landgræðslu- og gróðurverndaráætlunum árin 1975–1979 og enda þótt nokkurt bil hafi orðið á milli þessara tveggja áætlunartímabila hefur það verið fyllt að nokkru með fjárveitingum til að sinna þeim verkefnum sem þessar áætlanir fjalla um.

Áætlunin er byggð á áliti samstarfsnefndar um landgræðsluáætlun sem er fylgirit með till. þessari. Með bréfi, dags. 27. febr. 1979, fól þáv. landbrh., Steingrímur Hermannsson, samstarfsnefnd um landgræðslu- og gróðurverndaráætlun, sem var eins konar framkvæmdanefnd þeirrar áætlunar, að gera úttekt á því sem áunnist hefur síðan 1974, og gera tillögur um hvernig best verði staðið að framhaldi landgræðslu- og gróðurverndarstarfs svo að afturkippur komi ekki í slík störf þegar fjárveitingar samkv. ályktun Alþingis 1974 nýtur ekki lengur við.

Tillögur eða drög að tillögum samstarfsnefndar bárust rn. fyrir þinglok vorið 1980, en samstarfsnefndin skilaði endanlegu áliti skömmu fyrir árslok það ár. Ég sendi það álit þingflokkunum og átti fund með forsvarsmönnum þeirra um þessi mál. Niðurstaðan varð sú að óska eftir því, að þeir tilnefndu sérstaka menn í nefnd til að vinna að þessu verkefni, samræma sjónarmiðin og skila fullbúinni tillögu til rn. sem gæti orðið grundvöllur nýrrar ályktunar á Alþingi.

Með bréfi, dags. 1. júní 1981, var skipuð nefnd til að vinna að þessu verkefni. Áttu sæti í þeirri nefnd Egill Jónsson alþm. sem fulltrúi Sjálfstfl., Geir Gunnarsson alþm. sem fulltrúi Alþb., Ingvi Þorsteinsson magister og til vara Árni Gunnarsson alþm. sem fulltrúar Alþfl., Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri og til vara Ólafur Dýrmundsson ráðunautur sem fulltrúar Framsfl. Auk þess var skipaður formaður nefndarinnar Sveinbjörn Dagfinnsson ráðuneytisstjóri landbrn.

Nefndin rækti starf sitt með miklum ágætum og af samviskusemi og lagði alúð við að ná saman um það verkefni sem henni var falið. Það tókst einnig. Með bréfi 1. des. 1981 skilar hún áliti samhljóða. Er sú till., sem hér er flutt, nákvæmlega eins og nefndin gekk frá henni.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þeim aðilum sem að þessu verki hafa unnið, bæði á fyrri stigum þess, samstarfsnefndinni sem vann að gerð úttektar á hinni fyrri landgræðsluáætlun og lagði drögin að þeirri tillögu sem hér liggur fyrir, en ég vil einnig færa þeirri nefnd, sem starfaði að þessu máli á nýliðnu ári og ég gat hér um, alveg sérstakar þakkir fyrir hennar starf. Ég tel ákaflega mikils virði að fulltrúar pólitísku flokkanna á Alþingi skyldu bera gæfu til þess að ná samkomulagi um þetta efni og tryggja þar með greiðan gang þess í gegnum Alþingi.

Ég vil geta þess hér, að tillagan var flutt í des. s. l., og með hliðsjón af þeim undirbúningi, sem að baki lá, var tekið tillit til hennar við afgreiðslu fjárlaga. Í fjárlögum eru því þær fjárhæðir sem tillagan greinir til þess að framfylgja þeim verkum sem ætlast er til á grundvelli hennar. Þetta hefði ekki tekist ef eigi hefði verið samkomulag hinna pólitísku afla á Alþingi um málið. Fyrir þetta vil ég færa sérstakar þakkir.

Þessi tillaga felur í sér nokkur meginmarkmið. Í fyrsta lagi var það markmið nefndarinnar, sem að tillögunni vann, að fjárveitingar til stofnana, sem fé eiga að hljóta samkv. tillögunni og hafa fengið fé á fjárlögum samkv. fyrri landgræðsluáætlun, skyldu færast í sambærilegt horf að verðgildi og var 1974, við upphaf fyrri landgræðsluáætlunar. Það hafði því miður farið svo í meðförum Alþingis, að fjárveitingar þessara stofnana — eigin fjárveitingar þessara stofnana — höfðu í rauninni rýrnað í skjóli þess að þær fengu aukið fjármagn á landgræðsluáætlun. Var það gagnstætt því sem til var ætlast, en eigi að síður hafði þetta orðið þannig í raun. Fyrsta markmið þeirrar nefndar, sem um tillöguna fjallaði, hefur raunar þegar verið viðurkennt. Það markmið var að leiðrétta þetta svo að stofnanirnar fengju sambærilegt fjármagn til sinnar starfsemi eins og verið hafði við upphaf hinnar fyrri landgræðsluáætlunar.

Önnur markmið eru raunar hin sömu og við gerð landgræðsluáætlunar fyrir árin 1974–1979 og þau markmið eru hin sömu og gerð var tillaga um í áliti samstarfsnefndar. Þessi höfuðmarkmið eru:

a) Stöðva sandfok og aðra jarðvegseyðingu.

b) Vinna gegn gróðurskemmdum og gróðurrýrnun.

c) Koma beit og annarri gróðurnýtingu hvarvetna í það horf að gróðri fari fram.

d) Tryggja að skóglendi rýrni ekki og bæta þau sem skaðast hafa.

e) Rækta nýja skóga til fegrunar, nytja, skjóls, útivistar og til jarðvegs- og gróðurverndar.

f) Stuðla að endurgræðslu örfoka og ógróinna landa sem unnt er að breyta í gróðurlendi.

g) Efla rannsóknir til að treysta sem best grundvöll og öryggi þeirra framkvæmda sem unnið verður að samkv. framanskráðu.

Enn fremur er það meginforsenda, svo sem segir í grg. fyrir till., að búfjárbeit verði innan þeirra marka sem beitarþol og ástand gróðurs leyfir. Er talið að það sé meðal meginforsendna þess, að árangur náist í landgræðslu- og gróðurverndarstörfum.

Þá er rétt að fram komi að nefndin gerði um það tillögur, að flutt væri frv. til l. um breytingu á lögum um Landgræðslu ríkisins, og mun það frv. verða lagt fyrir Alþingi á næstunni.

Þau verkefni, sem gert er ráð fyrir að unnið verði að samkv. þessari till., eru:

1. Verkefni á vegum Landgræðslu ríkisins. Er gert ráð fyrir að á þessum fimm árum verði varið til verkefna á vegum þeirrar stofnunar 40.4 millj. kr.

2. Verkefni á vegum Skógræktar ríkisins á sama tímaskeiði, 9.5 millj. kr.

3. Verkefni á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, 5 millj. 150 þús. kr.

4. Til varnar gegn ágangi vatna og sjávar, þ. e. fyrirhleðslur við vötn til að verjast landbroti, og sjóvarnargarðar, 14.5 millj. kr.

5. Samvinnuverkefni ýmissa stofnana og stuðningur við samtök áhugamanna, 1 millj. 675 þús. kr.

Gert er ráð fyrir að það fjármagn, sem hér er talið, njóti verðtryggingar miðað við verðlag ársins, er miðist við framlög á fjárlögum ársins 1982, þ. e. þær fjárhæðir sem nú eru í fjárlögum.

Nefndin mælir einnig með því, að landbrn. skipi nefnd sem í eigi sæti einn maður frá hverjum þingflokki samkv. tilnefningu auk formanns án tilnefningar. Verði nefnd þessari falið að fylgjast með ákvörðunum og framkvæmd landgræðsluáætlunar, sem forstöðumenn stofnana þeirra, sem aðild eiga að áætluninni, auk fulltrúa þeirra, sem Búnaðarfélag Íslands tilnefnir, sjái að öðru leyti um. Má vænta þess, að eftir að þessi till. hefur verið afgreidd verði skipuð í fyrsta lagi framkvæmdanefnd tillögunnar, en í öðru lagi slík pólitísk nefnd sem hafi yfirumsjón og fylgist með þessu starfi til þess að tengja það sem allra best Alþingi og stjórnmálaflokkunum og tryggja að ekki verði misskilningur eða ágreiningur á milli pólitíska valdsins, stjórnmálaflokkanna á Alþingi, annars vegar og þeirra aðila, sem sjá um framkvæmd á þessu máli, hins vegar. Þetta tel ég hyggilegt og til þess fallið að koma í veg fyrir óæskilega tortryggni sem ella kynni að skjóta upp kolli að ástæðulausu.

Enn gerir nefndin tillögur um það, að þegar þrjú ár eru liðin af framkvæmdatímabili áætlunarinnar verði áætlunin endurskoðuð með tilliti til þess, hvort ástæða sé til að breyta verkefnalista í ljósi breyttra viðhorfa eða þeirrar reynslu sem fengist hefur.

Ég þarf ekki að ítreka það, hversu ákaflega mikilvægt mál hér er á ferðinni. Ég tel að það sé tæplega unnt að finna verkefni sem hægt sé að fá meiri samstöðu um en einmitt verkefni af þessu tagi, — það hefur auðvitað sýnt sig fyrr með þjóðargjöfinni, — verkefni sem á að tryggja að við verjum gróðurríki landsins, verjum landið og bætum landið, eftir því sem föng eru á, og verjum til þess verulegum fjármunum.

Land okkar hefur fóstrað þjóðina nú í rúm 1100 ár. Auðvitað hefur landið með gögnum og gæðum borið í sér þá kosti sem dugað hafa þjóðinni til lífsframfæris þennan tíma. Ég dreg ekki úrgildi fiskimiðanna umhverfis landið og veiðisældar í ám og vötnum, hins mikla hlunnindaafrakstur sem nytjaður hefur verið á ýmsum tímum. En undirstaða þess, að þjóðin hefur getað lifað í landinu, er gróðurríki þess. Gróðurríkið og búsmalinn, sem lifað hefur af gróðri landsins í gegnum aldirnar, hefur gert það mögulegt, að hér byggi þjóð þennan tíma, og gert það mögulegt, að við lifum enn í þessu landi. Sambúð þjóðarinnar og landsins hefur að vísu oft verið hörð. Stundum heyrist það, að nútímamenn deili á fyrri tíðar kynslóðir vegna meðferðar þeirra á landinu og náttúru þess. En við skulum ekki gleyma því, að þessar kynslóðir þurftu á öllu sínu að halda til þess eins að geta lifað — og til þess að geta tryggt það að við erum þó þjóð í dag. Þetta tókst þrátt fyrir það að yfir landið hafa gengið kuldaskeið sem valdið hafa gífurlega mikilli gróðurrýrnun á undanförnum öldum. Það hafa gengið yfir landið eldsumbrot og hamfarir af völdum náttúruaflanna sem hafa eytt gróðri stórkostlega í gegnum aldirnar og valdið gífurlegum hörmungum fyrir þjóðina. Nægir að minna á það, að undir lok 18. aldar, í kjölfar móðuharðindanna var þjóðin aðeins um 38 þús. manns. Þá hafði svo sorfið að vegna hamfara af völdum náttúrunnar að búsmali féll unnvörpum, gróður eyddist, heil lönd eyddust svo að þar sást ekki gróður í langan tíma, því hann fór undir hraun og vikur, fiskur flaut upp í ám og vötnum dauður. Í kjölfar þeirra hörmunga, sem gengu yfir náttúru landsins og lífríki þess, féll einnig mannfólkið svo að aðeins um 38 þús. manns lifðu af. Slík dæmi úr sögu okkar ættum við að hafa í huga áður en við förum að kasta steinum að þeim sem gengnir eru og hafa lagt grunninn að tilveru okkar hér á þessum tímum.

Náttúruöflin, vindar og vötn, sverfa úr gróðurmoldinni og úr jarðefnum ár og síð og flytja með sér til sjávar. Vötn og vindar hafa því einnig átt mikinn þátt í að rýra landkosti á undangengnum árum og öldum, enda þótt sumpart hafi það skilað sér til baka.

Þrátt fyrir allt þetta eigum við býsna fjölbreytt gróðurríki enn í dag. Gróðurríkið lifði af allar þær hörmungar sem eldgos og harðindi fólu í sér, og þótt kuldaskeiðin hafi á ýmsum tímum orðið til þess að rýra landkosti búum við samt við býsna fjölbreytt gróðurríki enn í dag, — gróðurríki sem að vísu hefur auðgast nokkuð á síðustu árum með innflutningi nýrra plantna. Þrátt fyrir þetta getum við auðvitað ekki lokað augunum fyrir því, að tilvist mannsins í landinu hefur átt sinn þátt í því, að hér er ekki með sama hætti um að litast eins og væri ef landið hefði ekki verið í byggð. En við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd, sem við blasir, að þjóðin verður að lifa í landinu ef við ætlum að dvelja hér, hún verður að lifa af gæðum landsins, þeim kostum sem það býður. En á milli þessara tveggja þátta verður að viðhalda jafnvægi. Við verðum að gæta hófs í því hvernig við förum með landið og náttúru þess, og umfram allt nú á tímum að reyna að bæta að nokkru það sem áður hefur spillst.

Það eru allmargir áratugir síðan varnaraðgerðir hófust til þess að hefta nokkuð af þeim eyðingaröflum sem að gróðurríki landsins hafa sótt. Þessar varnaraðgerðir verða að halda áfram vegna þess að eyðing af völdum náttúruafla heldur stöðugt áfram. Ég gat þess, að vindar og vötn flytja jarðvegsefni stöðugt til sjávar. Þau safnast síðan saman við ströndina og fjúka á land upp og sverfa gróðurinn. Sums staðar er sandfok frá söndum við ströndina þannig að þar þarf stöðugra varnaraðgerða við til þess að stórkostleg gróðureyðing verði ekki af þeim sökum. Þetta er eitt af einkennum landsins. Við það verður við að búa og þessu verðum við að verjast til þess að gróðrinum hnigni ekki og þeim möguleikum sem landið á að búa okkur í framtíðinni. En við höfum einnig hafið sókn til þess að græða upp landssvæði sem eru örfoka og fyrir löngu hafa eyðst af gróðri. Við höfum hafið sókn til þess að bæta gróðursnautt land svo að gróður dafni þar betur og landið batni til nytja fyrir þjóðina í heild. Til þess að við getum haldið þeirri sókn áfram þurfum við fjármuni. Við þurfum að nýta þekkingu, sem til er í landinu, og við þurfum einnig nokkru að kosta til að auka þá þekkingu sem vísindamenn okkar búa yfir. Á undanförnum árum hefur t. a. m. nokkuð verið að því unnið að kanna hvaða grasstofnar séu best fallnir til uppgræðslu í landinu. Unnið hefur verið að því að rækta fræ af innlendum grasstofnum og hefur sýnt sig að yfirleitt eru þeir grasstofnar þolnari en þeir innfluttu. Einnig hefur þó, eins og raunar fyrr er um getið, borið við að ýmsar innfluttar plöntur búa yfir hæfni til gróðurbóta sem er jafnvel meiri en margra þeirra innlendu plantna sem í landinu hafa dafnað frá öndverðu. Það hlýtur að verða keppikefli okkar, sem er markmið þessarar þáltill. og ég hef áður getið og birtist í þeim markmiðum í rauninni í heild, að við störfum að því að bæta landið svo að hver kynslóð skili því betra til eftirkomenda en hún tók við því.

Veigamikill þáttur í því, að okkur sé þetta mögulegt, er að starfa samkv. áætlunum eins og þeirri sem hér er á dagskrá. Í till. þessari eru ekki sett fram bein eða sérstök markmið um landnýtingu, þótt að landnýtingu sé vikið hvað búskaparhætti snertir. Víst er að landnýting er einnig snar þáttur þessa máls sem þarf að vekja meiri athygli á og þarf meiri umfjöllun en þegar er orðin. Ég vitna til þess, að hér á Alþingi hefur verið flutt sérstök þáltill. um það efni, en einnig er í þessari till. fjallað um landnýtingu að því er snertir búfjárbeit og búskaparhætti.

Enn um langa hríð munum við nota meginhluta landsins til landbúnaðar. Við munum þurfa á miklu landi að halda áfram til þess að framleiða landbúnaðarafurðir og tryggja hagsmuni þess fólks sem að landbúnaðarframleiðslu starfar. Á þessum sviðum þarf að hafa mikið eftirlit með því, að beit á landinu sé við hæfi svo að ekki sé of nærri gróðurlendinu gengið. Á undanförnum árum hefur verið unnið verulega að því að bæta þar úr sem áður var talið að um misbrest væri að ræða hvað þetta snertir, þó að víst sé að í ýmsum tilvikum þarf þar betur að gera. Gripið hefur verið til ýmissa ráðstafana til þess að hafa stjórn á beit þess búfjár sem á landinu gengur, m. a. með því að takmarka beitartímann, setja mörk um það, sem eru breytileg eftir árferði, hvenær má reka afréttarpening til fjalls og hafa breytilega smölunardaga að hausti, allt eftir því hvernig gróðurfari er háttað á afréttum. Víst er að a. m. k. á ýmsum svæðum landsins hefur orðið mikil bót að þessum aðgerðum og hægt er í raun að stjórna því verulega á hvern hátt búsmali gengur að landinu á afréttum með aðgerðum af því tagi.

Í grg. þessarar till. er vikið að ítölu. Það er rétt að ítala hefur litt verið notuð hér á landi á síðustu tímum. E. t. v. stafar það m. a. af því, að nokkrar forsendur þess að koma við ítölu eru flóknar og erfiðar í framkvæmd, og yfir höfuð er það sjónarmið ríkjandi að auðveldara sé að nota önnur tiltæk ráð, áður en til ítölu er gripið, ef þau ráð duga til þess að koma viðunandi stjórn á nýtingu landsins, svo sem styttingu beitartíma, sem mjög víða hefur verið gert, að friða afréttarlönd fyrir ágangi hrossa o. s. frv., en dugi þær aðgerðir ekki er væntanlega ekki um annað að tefla en grípa til ítölu sem þá þarf að vinna að. Til þess að hægt sé að grípa inn í þessi mál með skjótum hætti verður væntanlega flutt frv. alveg á næstu dögum í samræmi við óskir nefndarinnar svo að landbrn. geti, að höfðu samráði við þá aðila sem hlut eiga að máli, sveitarstjórnir í flestum tilvikum, gripið til skyndiráðstafana þar sem nýting er með þeim hætti, að hættuástand vofir yfir. Þetta er ákjósanlegt ákvæði í lögum sem auðvitað þarf þó að beita með fullri lipurð í sambandi við þá aðila sem hlut eiga að máli.

Ég ætla ekki að fjalla frekar um not landsins til búskapar. Ég legg þó áherslu á það, að um leið og veitt er fjármagn til þess að vinna gegn gróðurskemmdum og bæta land og rækta upp örfoka svæði þarf að halda þannig á beitarstjórn í landinu að þar verði ekki slys að og varanleg gróðurrýrnun. Við þurfum auðvitað að nota landið til miklu fjölþættari starfsemi en til landbúnaðar. Við þurfum sívaxandi hluta landsins undir þéttbýli og við þurfum sívaxandi hluta landsins undir mannvirki, vegi, svo að nokkuð sé nefnt, raforkuframkvæmdir o. s. frv. Í öllum slíkum framkvæmdum þarf að gefa því gaum, að í stað þess, sem spillist af landi, verði unnið að landbótum. Á því er mjög vaxandi skilningur og vita raunar allir Íslendingar hver breyting hefur á orðið í sambandi við opinberar framkvæmdir hvað þetta snertir. Þarf ekki annað en fara um vegakerfi landsins til þess að sjá það. Þar er gífurlegur munur frá því sem áður var, þegar lítið var skeytt um frágang landsins að vegagerð lokinni, en nú eru öll sár grædd upp um það leyti sem vegagerð er að ljúka á hverjum stað. Þannig þarf að halda á þeim málum sem snerta opinberar framkvæmdir, að ekki verði skilin eftir sár að óþörfu og í stað þess sem eyðist komi landbætur.

Enn þurfum við verulegan hluta af landi til útivistar fyrir landsmenn sjálfa, til þess að einkum þeir, sem í þéttbýli búa, geti sótt hollustu og unað til ósnortinnar náttúru landsins, átt þar friðsælar stundir í skipulögðum hverfum sumarbústaða og útivistarsvæða. Til þeirra nota þurfum við einnig vaxandi hluta af landinu. Á þessum efnum er fullur skilningur hjá þjóðinni og ekkert síður hjá þeim sem nota landið að mestu til búskapar.

Þannig getum við haldið áfram að tala um þau not sem við viljum hafa af landinu. Þó að ég sé ekki hér að mæla með því á þessari stundu, að þessir þættir allir verði teknir og skipulagðir fram í tímann, þá er þarna um atriði að ræða sem við þurfum að huga að og vinna helst á sem breiðustum vettvangi að því að samkomulag verði gott um þessi atriði öll.

Ég ætla ekki að fjalla frekar um landnýtingu. Ég hef rakið nokkra þætti þess sem við blasir hvað þann hluta málsins snertir. Ég vil aðeins ljúka máli mínu með því að ítreka þakkir mínar til þeirra sem að þessu máli hafa starfað að undanförnu, ekki síst nefndarinnar sem að því vann að undirbúa þessa till., og fagna þeirri samstöðu sem hún náði um málið.

Ég vænti þess að till. eigi með þennan undirbúning að baki greiða leið gegnum hv. Alþingi. Ég legg til, herra forseti, að eftir að þessari umr. hefur verið frestað verði till. vísað til hv. fjvn.