04.02.1982
Sameinað þing: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2243 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

151. mál, landgræðslu- og landverndaráætlun 1982--86

Egill Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur gert glögga grein fyrir efni þessarar þáltill. og þarf ég að sjálfsögðu ekki að fjalla um hana efnislega, nema aðeins nokkra þætti hennar sem ég vil undirstrika alveg sérstaklega.

Það, sem vakti í rauninni einna mesta athygli mína við störf að undirbúningi þessarar tillögugerðar, var hversu vel var gengið frá þessu máli og hve mikil vinna hafði verið lögð í það við undirbúning þess árið 1974. Eins og menn væntanlega vita hér allir var málið þá undirbúið af sérstakri nefnd undir forustu þáv. forseta Sþ., Eysteins Jónssonar, og fór fram mikil gagnasöfnun og mikil umræða á sviði sérfræðiþátta málsins og öll sú umr. tengdist líka búnaðarsamtökunum í landinu.

Till. og grg. frá árinu 1974 fólu í sér víðtæka áætlunarskrá um þær framkvæmdir sem áformað var að vinna að á áætlunartímabilinu. Við samanburð á þeirri áætlunargerð og því, sem hefur áunnist á þessu sama tímabili, er að sjálfsögðu ljóst að mörg verkefni, sem þar er getið, eru enn óunnin, en fyrir því eru margar ástæður. Sú fyrsta er vafalaust sú, að ekki lá fyrir nein sérstök úttekt eða áætlun um kostnað við þau verkefni sem þar var um getið. Í öðru lagi hefur þurft að hefja störf við aðrar framkvæmdir sem upp komu á þessu áætlunartímabili. Og í þriðja lagi, eins og ég vík kannske að síðar og kom fram í ræðu hæstv. landbrh., stóð Alþingi ekki við fyrirheit sín varðandi framkvæmdaþátt annarra fjárveitinga eins og þó var gengið út frá í samþykkt Alþingis á árinu 1974. Samt sem áður eru fyrir hendi tölur sem skýra þann árangur, sem náðst hefur á þessu tímabili, og þau verkefni, sem unnin voru á þessu árabili, og hefur þeirri skýrslu verið útbýtt hér á Alþingi þannig að ekki er ástæða að fjölyrða um það. Mér þykir þó vert að tilgreina þann árangur sem Landgræðsla ríkisins hefur náð á þessum árum, en þar hafa verið friðuð 14 ný svæði sem eru 84.2 ferkm og eru um 38% af því landi sem hefur verið tekið til friðunar og græðslu á 70 ára starfsferli Landgræðslu ríkisins. Þetta segir sína sögu um þann árangur og þau verkefni sem unnið hefur verið að á þessu árabili.

Það má nefna sem dæmi stóru tilraunirnar, gróður- og beitartilraunirnar, sem eru stærstu vísindalegu verkefni sem framkvæmd hafa verið á þessu landi á því sviði, og einnig fjölmörg verkefni önnur, m. a. á vegum Skógræktar ríkisins. En ég undirstrika það sem ég sagði áðan og er alveg nauðsynlegt að menn geri sér fyllilega ljóst, að verulegur hluti eða a. m. k. töluverður hluti þessa fjármagns gekk yfir til þeirra verkefna sem höfðu fjárveitingar hjá hinum einstöku stofnunum fyrir þetta áætlunartímabil. Þá vekur það líka athygli þegar litið er á verkefnin frá 1974, að þar voru gerðar tillögur um breytingar á lögum til samræmis við þessar þarfir. Lögum um Landgræðslu ríkisins var breytt og lögum um afréttarmál og fjallskil var einnig breytt með tilliti til þess að ná fram betri beitarstjórnun og gleggri ákvæðum um ítölu í beitarlönd. Þessi löggjöf hefur hins vegar ekki, þrátt fyrir þennan góða ásetning, orðið eins virk og að var stefnt, m. a. vegna þess að ekki hefur náðst fram sá árangur í sambandi við úttekt á gróðri í afrétti og heimahögum sem er nauðsynlegur undanfari þess, að hægt sé að koma á ítölu helst í öll lönd á þessu landi, eins og nú eru gerðar tillögur um.

Þá var einnig samin löggjöf um fyrirhleðslur og varnir gegn landbroti af völdum vatnsfalla og sjávar, og einnig þar hefur ekki tekist svo til sem að var stefnt. Í þeirri löggjöf var kveðið á að gerð skyldi sérstök skrá og áætlun yfir brýnustu framkvæmdir í þeim efnum. Að tilhlutan Vegagerðar ríkisins fór fram þó nokkuð víðtæk úttekt í þessum verkefnaþætti, en hann var hins vegar ekki felldur saman í eina sérstaka heild, og fjárveitingar síðan hafa ekki verið grundvallaðar á þessari úttekt. Þarna var ekki heldur fylgt eftir eins og áformað var og lög voru sett um. Þetta hefur mönnum á þessu tímabili líka verið ljóst, enda hafa verið fluttar um það tillögur hér á Alþingi að koma þessum málum í fastara form, og að því er ég hygg árið 1979 var þessum lögum breytt þannig að skýrar var kveðið á um að þessi verkefni skyldu lúta forsjá Landgræðslu ríkisins og að leitast yrði við að koma þeim í fastara form.

Að tilhlutan landgræðslunefndar frá árinu 1974 var gerð veruleg úttekt á möguleikum Landmælinga ríkisins til að kortleggja landið með tilliti til gróðurfars þannig að auðveldara væri að meta gróður á hinum einstöku stöðum en áður var. Í þessu tilviki var að tilhlutan nefndarinnar útvegað sérstakt fjármagn í þeim tilgangi að auðvelda þessari stofnun þetta verkefni. Því miður hefur ekki orðið sá árangur sem ætlað var í þessum efnum og ber að leggja á það sérstaka áherslu við upphaf nýrrar áætlunar að þarna verði myndarlega tekið til hendinni.

Þá var líka í till. frá 1974 leitast við að tengja landgræðslustörfin meira hinni almennu starfsemi búnaðarsamtakanna, m. a. með skipan gróðurverndarnefnda, og hefur sá félagsþáttur sums staðar borið nokkurn árangur.

Það hlýtur að vera eðlilegt, þegar fjallað er um þetta mál hér á hinu háa Alþingi öðru sinni og þegar til framkvæmda kemur, að meta þessa þætti alveg sérstaklega, og ég undirstrika það sem ég sagði áðan, hvað málið hefur verið nákvæmlega unnið og hversu mikil og víðtæk úttekt var gerð til undirbúnings landgræðsluáætluninni árið 1974. Ég legg á það alveg sérstaka áherslu núna, að þar sem ekki hefur náðst fram á þessu tímabili viðunandi árangur sem tengist öðrum verkefnum en beinlínis snerta landgræðsluframkvæmdirnar, svo sem mati á gróðri, svo sem möguleikum til ítölu og annars slíks, þar verði nú tekið til hendinni af mikilli festu.

Ég hef áður minnst á það, að svo var kveðið á í landgræðsluáætluninni að þær fjárveitingar, sem stofnanirnar höfðu áður, fengju að halda sér óbreyttar. Þetta fjármagn átti að verða nýtt framkvæmdafjármagn. Hæstv. landbrh. gat þess í ræðu sinni áðan, að í raun hefði þetta ekki staðist. Hitt er vert að undirstrika alveg sérstaklega, að þetta stóðst mjög misjafnlega gagnvart hinum einstöku stofnunum. Þannig hygg ég að Skógrækt ríkisins hafi haldið sínum hlut í meginatriðum, Rannsóknastofnun landbúnaðarins hafi jafnvel bætt sinn hlut, en aftur á móti hlutur Landgræðslu ríkisins versnað að verulegum mun.

Nú er það að sjálfsögðu svo að þessar stærðir má meta á ýmsa vegu, og eins og kom fram við fjárlagagerð og kemur fram í nál. var gerð þarna breyting á. Hins vegar er í þeim efnum lögð til grundvallar heildarfjárveiting til stofnananna, ekki einungis framkvæmdaþátta stofnananna heldur heildarfjárveiting, þannig að ef það hefði einungis verið litið á fjárfestingarþáttinn, en ekki verður séð annað af áætluninni frá 1974 en Alþingi hafi ætlast til þess, þá vantar að sjálfsögðu mikið á að úr hafi verið bætt. Þarna fékkst þó ótvíræð leiðrétting sem allir voru sáttir um. En ekki má þó gleyma að þessi rýrnun á fjármagni snerti Landgræðslu ríkisins kannske eina þessara stofnana eða a. m. k. langmest.

Eins og ég gat um áðan fjallaði hæstv. landbrh. í nákvæmu máli um till. og er ekki ástæða að rekja það hér öðru sinni. Ég vil þó leggja áherslu á fjögur atriði:

Í fyrsta lagi er lögð á það áhersla, að nauðsynleg löggjöf um afréttarmálefni og beitareftirlit verði endurskoðuð þannig að gróðureftirlitsmaður, sem gert er ráð fyrir að verði kvaddur til starfa, geti stöðvað eða takmarkað í samráði við sveitarstjórnir beit þar sem um sérstaka hættu er að ræða, það sé sem sagt hægt að koma á beitarstjórnun án ítölu. Þó að á það sé lögð áhersla á nál. að komið verði á ítölu um allt land. — Það var kannske það eina sem ég var ekki vel ánægður með í ræðu hæstv. landbrh., að ekki var hægt að skilja orð'hans öðruvísi, þegar fjallað var um ítölu, en að það væri afsakanlegt að þar hefði ekki náðst meiri árangur en raun ber vitni um, en eins og mönnum er væntanlega kunnugt hefur einungis verið unnt að koma á ítölu í einni afrétt hér á landi þrátt fyrir að fyrir liggja frá upprekstrarfélögum og sveitarfélögum óskir um ítölu í allverulegum mæli. Það er útilokað annað í sambandi við mat á gróðri en sá árangur náist að unnt sé að framkvæma slíka beitarstjórnun.

Þá hafa líka, eins og kemur fram í till., fyrirhleðslur vegna vatnsfalla og sjávar verið færðar undir þennan lið og eru nú settar með enn skýrari hætti inn sem sérstök verkefni Landgræðslu ríkisins. Eins og fjárveitingar til þeirra framkvæmda hafa litið út á s. l. árum hafa þær verið margar að tölunni til. Ég hygg að þær hafi á fjári. fyrir síðasta ár verið um 40 talsins og að meðalfjárveiting til þessara framkvæmda hafi þannig verið einhvers staðar í kringum 3 gamlar millj. Gefur auga leið að við slíka skiptingu er í rauninni hvergi hægt að ná árangri. Fjármagn til þessa verkefnis var á síðustu fjárlögum verulega aukið, en framkvæmdaliðum hefur hins vegar ekki fjölgað. Ég hygg að þeim hafi frekar fækkað þannig að þegar hefur þetta færst til betri vegar. En að sjálfsögðu verður að ganga eftir því, ekki síst vegna þess að á þennan málaþátt er mikil áhersla lögð, að nú verði gengið frá tillögum af hendi þeirra aðila, sem hafa með yfirstjórn þessara mála að gera, þannig að unnt sé að átta sig á þessu verkefni í heild.

Við vitum sjálfsagt hér á Alþingi, kannske allir hv. alþm., að nokkurrar gagnrýni hefur orðið vart á framkvæmd landgræðsluáætlunar og þær raddir hafa heyrst, að ekki hafi náðst sá árangur sem að var stefnt. Út af fyrir sig, eins og ég hef áður sagt, held ég að þetta megi til sanns vegar færa, að þau verkefni öll, sem upp voru talin og um var getið í áætluninni frá 1974, hafi ekki enn komist til framkvæmda. M. a. af þessari ástæðu er lögð á það áhersla, að Alþingi hafi möguleika á að fylgjast með þessari áætlun af meiri nákvæmni en áður var. Þá er m. a. haft í huga hvernig Alþingi fylgist með vegáætlun, sem eins og menn vita er sett til þriggja eða fjögurra ára og endurskoðuð á því tímabili annað hvert ár. Þetta legg ég mikla áherslu á, að þetta verkefni verði þannig tengt yfirstjórn landbúnaðarmála, þ. e. landbrn., en í till er á það bent, að einn nm. verði skipaður af landbrh. án tilnefningar, en að öðru leyti verði þessi nefnd skipuð fulltrúum þingflokkanna. Þar ættu þá að fást með eðlilegum hætti upplýsingar sem Alþingi gæti metið hverju sinni. Auk þess er lagt til að áætlunin verði endurskoðuð eftir þrjú ár þannig að verkefnið verði hægt að endurmeta í heild.

Í fjórða lagi vil ég minna á það, sem kom raunar glögglega fram við umr. um skylt mál sem var til umr. fyrir fáum dögum, að mikil áhersla er lögð á að koma á myndkortagerð yfir allt landið þannig að unnt sé á grundvelli þess að framkvæma gróðurmælingar með þeirri nákvæmni sem talin er vera hvað fullkomnust hér á landi. Það má ekki gleyma því, þó að það sé kannske ekki beinlínis í tengslum við þessa landgræðsluáætlun því að ég held að óhætt sé að fullyrða að það er þó vegna þeirrar umr. sem um hana hefur farið fram, að á síðustu fjárlögum, fjárlögum fyrir þetta ár, var veitt myndarleg fjárupphæð til tækjakaupa fyrir Landmælingar Íslands til þess einmitt að auðvelda þessa myndkortagerð. Á þetta vil ég leggja áherslu.

Þá má kannske minna á að í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. og að því er ég hygg við ýmis önnur tækifæri hafa komið fram yfirlýsingar um að landgræðsluáætlunina frá árinu 1974 ætti að framreikna til þess verðs sem þá var. Í tillögum samstarfsnefndarinnar um landgræðsluáætlun fyrir árið 1981–1985 eru hinar tölulegu forsendur grundvallaðar á þessum stefnumiðum. Það er líka nauðsynlegt að hér komi fram, svo að málið sé sem gleggst upplýst, að landgræðslunefnd hafa borist samþykktir frá tveimur stjórnmálaflokkunum, þ. e. bæði frá Framsfl. og Alþb., þar sem fallist var á þennan skilning og stuðningi heitið við landgræðsluáætlun eins og hún kom fram frá samstarfsnefndinni.

Það skýtur því sannarlega nokkuð skökku við þegar tölur eru metnar að þessu leyti, að hér er þó ekki farið nema ca. hálfa leið, miðað við landgræðsluáætlun frá árinu 1974, að því er fjármagn varðar. Þetta má að vísu reikna með ýmsum hætti. Mér virðist að ef fjárveitingin vegna landbrots, þ. e. talan eins og hún kemur fyrir, er tekin með, þá sé hér um að ræða ívið meira en helming þeirrar tölu sem var árið 1974, en að því frádregnu er hér ekki um að ræða helming þess fjármagns. Þetta skeður þótt ríkisstj. hafi í stjórnarsáttmála sínum ætlað að fara hér með fullt hús, og þetta skeður þótt stjórnarflokkarnir báðir hafi samþykkt tillögur og skilað um það bréfum sem fólu í sér stuðning við framreikning á fjármagni landgræðsluáætlunarinnar frá 1974.

Það er þess vegna nokkuð á annan veg en gerist í venjulegu pólitísku starfi, að þegar stjórnarandstaðan gengur til starfa skuli fjárveitingar lækka um meira en helming frá tillögum ríkisstj. og ríkisstjórnarflokka. Ástæðan fyrir því er vafalaust sú fyrst og fremst, að þeir menn, sem að þessu störfuðu, voru ekki í neinni pólitískri streitu og að málinu var unnið af mikilli einlægni og í góðu trausti manna á milli. Ég er ekki í vafa um að við hefðum allir sem einn óskað þess, að þessi tala gæti verið hærri þannig að hægt væri að ná meiri árangri. Það má ekki gleyma því, að hér eru gerðar hliðarráðstafanir sem eru mikilvægar, en líka verða menn þá að muna að það er auðvelt að bæta hlut þessarar starfsemi í hinni venjulegu fjárlagagerð. Ég legg áherslu á þetta til þess m. a. að það sé alveg ljóst öllum hv. alþm., að út frá því er gengið að aðrir þættir fjármagns, sem til þessarar starfsemi ganga hjá hinum einstöku stofnunum, rýrni ekki á þessu tímabili. Mér fannst alveg nauðsynlegt að þetta kæmi hér skýrt fram, þannig að menn gætu metið störf nefndarinnar og þetta samkomulag m. a. á þessum grundvelli.

Ég legg svo áherslu á það nú í lokin, sem mér finnst ákaflega mikilvægt og ég hef komið inn á áður, að það er ekki einungis fjármagn sem skiptir máli í þessu sambandi heldur líka hitt, hvernig staðið er að verkefnum, og þá á ég ekki sérstaklega við þau verkefni sem snerta hinar einstöku stofnanir. Í þessum efnum hefur landbrn. og að sjálfsögðu landbrh. mikið vald. Ég tel það mikinn kost við þessa áætlunargerð að ráðuneytisstjórinn í landbrn. var formaður þessarar nefndar. Hann leiddi málið af mikilli lipurð og af mikilli samviskusemi. Hann er ákaflega vel kunnugur þeim sjónarmiðum, sem þar komu fram, og þeim málum, sem um var fjallað, og það ætti að tryggja enn frekar en ella að nokkurrar forustu mætti vænta og það í ríkari mæli af hendi landbrn. en verið hefur. Þá á ég m. a. við það, að hinir einstöku þættir þessara mála gangi fram nokkuð jafnhliða, — þar á ég við t. d. áætlunargerð um fyrirhleðslur vatna, þar á ég við myndkortagerð og þar á ég við endurskoðun löggjafar í sambandi við afréttarmálefni, — þannig að þessir og aðrir slíkir þættir þessara mála geti gengið fram jafnhliða, en liggi ekki eftir eins og hefur gerst á tímabilinu frá 1974 til ársins 1979, þrátt fyrir það, hversu vel málið var þá unnið og hversu víðtækar breytingar voru gerðar á löggjöf til að ná þessum verkefnum fram. Einmitt þessi störf og þessi verkefni eru stór þáttur í því, að menn geti séð ýmis fyrirheit í þessari áætlun, sem ekki komu fram í áætluninni frá 1974, þótt um miklu minna fjármagn sé nú að ræða en þá var.

Ég undirstrika alveg sérstaklega í lokin, herra forseti, að ég legg áherslu á það og undirstrika sérstaklega og vænti þess, að núv. hæstv. landbrh. og þeir, sem taka við af honum, meti það og taki til athugunar, að það er ekki einvörðungu það fjármagn, sem hér er lagt til grundvallar, sem þessi áætlun byggist á, heldur líka það starf sem er í tengslum við landgræðslu- og gróðurverndarstörf á Íslandi.