04.02.1982
Sameinað þing: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2265 í B-deild Alþingistíðinda. (1909)

52. mál, iðnkynning

Guðrún Hallgrímsdóttir:

Herra forseti. Með þáltill þeirri, sem hér liggur fyrir, er lagt til að ríkisstj. standi að kynningu á íslenskum iðnaði í samvinnu við samtök iðnaðarins. Í till. eru tilgreind þrjú meginmarkmið með þessari kynningu, þ. e. að stuðla að aukinni sölu á framleiðslu og þjónustu íslensks iðnaðar, að skapa jákvæðari afstöðu almennings til íslensks iðnaðar og að bæta aðstöðu íslensks iðnaðar.

Um þessi markmið hygg ég að flestir geti verið sammála. Í ágætri framsögu benti flm. á ýmis rök fyrir tillöguflutningnum og nauðsyn þess að efla iðnað. Hann benti á nauðsyn þess að fjölga störfum í iðnaði jafnt til að auka fjölbreytni sem og til að gera iðnaðinn hæfan til að taka á móti þeim sem nýir koma til starfa á næstu árum. Frsm. minntist á gjaldeyrissparnað sem íslenskur iðnaður hefur í för með sér. Hann drap á nauðsyn þess að nýta innlent hráefni, vit og verkkunnáttu og benti einnig á síauknar gjaldeyristekjur sem þjóðin hefur af iðnaðarframleiðslu.

Þau markmið, sem þessari kynningu er ætlað að taka mið af, eru í reynd þættir í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, barátta fyrir sterkari sjálfsvitund hennar. Það er ekki langt síðan menn höfðu ótrú á öllu því sem íslenski var. Að ganga í Gefjunarfötum gerðu víst varla einu sinni þm. Framsóknar. En þótt slíkt heyri liðinni tíð, þá er enn grunnt á vantraustið hvar sem er og hvenær sem íslenskur iðnaður treður nýjar slóðir. Þess vegna sakna ég þess, um leið og ég tek heils hugar undir hin almennu markmið kynningarinnar, að í grg. skuli ekki vera vikið einu orði að leiðum til að ná þessum markmiðum fram. Í fróðlegu framsöguerindi var það ekki heldur gert. Í grg. er einungis sagt að kynningin þurfi að vera umfangsmikil, sem ég tel því miður ófullnægjandi leiðsögn um það, hvernig að henni skuli unnið. Ég vona að ég verði ekki sökuð um andstöðu við málefnið þótt ég veki á þessu athygli, en í starfi mínu hef ég því miður reynslu af því, hvernig er að hrinda í framkvæmd tillögum sem ekki eru nægilega vel mótaðar á Alþingi sjálfu.

Það má vel vera að flm. séu hér með í huga sams konar iðnkynningu og fór fram á árunum 1976–1977. Hún fór fram með samstarfi stjórnvalda og hagsmunasamtaka í iðnaðinum. Sú kynningarstarfsemi var margþætt og umfangsmikil. Meðal þátta má nefna dag iðnaðarins sem fram fór í öllum kjördæmum landsins, auglýsingaherferð í fjölmiðlum, sýningar af ýmsu tagi, samkeppni, m. a. umbúðasamkeppni, og kynnisferðir í fyrirtæki og stofnanir, svo að helstu þættir séu taldir upp. Í tengslum við kynninguna fóru síðan fram kannanir á áhrifum hennar. Athugað var m. a. hvort kynningin hefði haft áhrif á innkaup á íslenskum vörum, og í könnun, sem gerð var fimm mánuðum eftir að iðnkynning hófst, kom fram að innkaupavenjur höfðu breyst íslenskum iðnaði í hag. Talið var að í þeim vöruflokkum, sem könnunin tók til, hefði innlend markaðshlutdeild aukist um 6%. Þess má einnig geta, að 89% aðspurðra töldu að kynningin hefði haft góð og jákvæð áhrif, 2% töldu að hún hefði ekki haft nein áhrif, en 9% vildu ekki tjá sig um málið.

Til iðnkynningar var veitt fé á fjárlögum þriggja ára. Árið 1976 voru það 2.5 millj. kr. á verðlagi þess árs, árið 1977 voru það 6.5 millj. kr. og á árinu 1978 voru það 6.5 millj. kr. á verðlagi þess árs.

Ég tel að ef það er hugmynd flm. að hrundið verði af stað iðnkynningu með svipuðu sniði og gert var 1976–77. þá þurfi að athuga það mál gaumgæfilega. Með því er ég ekki að segja að sú iðnkynning hafi ekki komið að gagni, það hef ég nú þegar rökstutt að hún gerði, heldur álít ég að of stutt sé liðið frá því að hún fór fram, ferskleika og nýjabrum muni skorta, auk þess sem kynning nú þyrfti að ná til fleiri þátta og jafnvel annarra þátta en hún náði til á árunum 1976–77.

Nú liggur fyrir hv. Alþingi þáltill. um iðnaðarstefnu, reyndar tillögur sem vonandi næst samstaða um. Þar er um víðtæka stefnumörkun í málefnum iðnaðarins að ræða. M. a. er þar um sömu markmið að ræða og sett eru fram í þeirri till. sem hér er til umr., en þar er auk þess bent á leiðir. Ég vil beina þeim tilmælum til þeirrar nefndar, sem fær þáltill. til meðferðar, að hún leiti samræmis og styðjist við þær leiðir sem bent er á í fyrrnefndri þáltill. um iðnaðarstefnu, svo að tillagan um íslenska iðnkynningu verði markvissari. Undanfarið hafa fjölmargar aðgerðir verið í gangi á vegum samtaka iðnaðarins til stjórnvalda í því skyni að styrkja stöðu íslensks iðnaðar. Hér má nefna sem dæmi ýmis iðngreinaverkefni, margvíslegt starf á vegum tæknistofnana iðnaðarins, og einnig lög þau sem Alþingi samþykkti nýlega um iðnráðgjafa, en með þeim er von manna að landsbyggðinni verði sköpuð betri aðstaða til að vinna að eflingu iðnaðar.

Ég tel að ítarleg kynning á þessu umfangsmikla starfi þjóni sannarlega þeim markmiðum sem þessari tillögu gerð er ætlað. Oft er hins vegar álitamál hvað það er sem ríkið á að taka á sig. Sölu- og kynningarstarfi álít ég t. d. að sé betur borgið í höndum samtaka iðnaðarins og að frumkvæði þeirra sjálfra, en þar getur ríkið aðstoðað á ýmsan hátt með löggjöf eða öðru. Hefur í því sambandi oft verið minnst á sjónvarpsauglýsingar þar sem innlendir framleiðendur eiga í vök að verjast flóði alþjóðlegra auglýsinga.

Herra forseti. Ég fagna fram kominni till., en ég tel nauðsynlegt að leiðir að þeim markmiðum sem þar eru sett fram, verði skýrt varðaðar svo að með samþykkt till. og við framkvæmd hennar náist umtalsverður árangur til eflingar íslenskum iðnaði.