08.02.1982
Efri deild: 40. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2269 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

167. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um breytingu á lögum um almannatryggingar til samræmis við barnalög. Þó barnalögin mæli fyrir um framfærslu barna að einkarétti, en ekki gagnvart hinu opinbera, verður að telja eðlilegt að breyta aldursmörkum 14. og 17. gr. almannatryggingalaganna til samræmis við barnalög. Með frv. þessu er lagt til að svo verði gert.

Þá eru í barnalögum ýmis nýmæli sem leggja auknar fyrirgreiðsluskyldur á Tryggingastofnun ríkisins, og eru þau rakin rækilega í grg. frv. þessa.

Meginatriði þar eru að í fyrsta lagi er í 19. gr. heimilað að úrskurða um sérstök framlög vegna tiltekinna útgjalda og í 2. mgr. 30. gr. segir að foreldri eða eftir atvikum framfærandi samkv. 31. gr. eigi aðgang að Tryggingastofnun ríkisins um slíkar greiðslur.

Í öðru lagi er um það að ræða, að í 1. mgr. 25. gr. er heimilað að úrskurða föður til að greiða framfærslueyri í allt að þrjá mánuði og í 1. mgr. 30. gr. segir að um aðgang barnsmóður að Tryggingastofnun ríkisins vegna þessa framfærslueyris fari svo sem segir í 73. gr. almannatryggingalaga.

Í þriðja lagi er um það að ræða, að í 2. mgr. 25. gr. er heimilað að úrskurða barnsföður til að greiða móður mánaðarlegan hjúkrunar- og framfærslustyrk í allt að níu mánuði og í 2. mgr. 30. gr. segir svo að barnsmóðir eigi aðgang að Tryggingastofnun ríkisins um greiðslur þessar.

Í fjórða lagi er um að ræða ákvæði í 1. mgr. 26. gr. þar sem ákveðið er að úrskurða skuli barnsföður til að greiða kostnað af meðgöngu og fæðingu þegar 3. mgr. 15. gr. á við. Í 2. mgr. 30. gr. er barnsmóður veittur aðgangur að Tryggingastofnun ríkisins um greiðslur þessar.

Hér er fyrst og fremst um að ræða einfalt samræmingarmál almannatryggingalaga við barnalögin. Samkv. lögum og venjum fylgir frv. þessu áætlun um kostnaðarauka vegna ákvæða frv. ef að lögum verður sem ég vænti fastlega. Er gerð grein fyrir þeim kostnaðarauka á bls. 3 í grg. frv.

Þetta frv. hefur þegar sætt meðferð í hv. Nd. Alþingis og var samþykkt þar samhljóða. Í framsöguræðu formanns heilbr.- og trn. Nd. var gerð grein fyrir umr. sem fram höfðu farið í þeirri nefnd um málið. M. a. sagði svo í ræðu hv. frsm.:

„Vill heilbr.- og trn. beina þeim tilmælum til hæstv. heilbr.- og trmrh., að hann sjái til þess að sami háttur verði hafður á við framkvæmd a-liðar frv., verði það að lögum, að fæðingarorlofsgreiðsla skerði rétt til greiðslu samkv. a-liðnum og þar með samkv. 1. mgr. 25. gr. barnalaga nr. 9/1981. Verði dómsaðilum í úrskurðarmálum barnsfaðernismála kynntur sá skilningur verði hann viðurkenndur.“

Ég tel sjálfsagt að fallast á þessa ábendingu hv. heilbr.- og trn. Nd. og vænti þess, að um það verði einnig samstaða hér. Ég fer fram á það við hv. Ed., að hún reyni að hraða svo sem mest má verða afgreiðslu þessa máls, vegna þess að óvissa í þessu efni hefur valdið töfum og erfiðleikum í Tryggingastofnun ríkisins sem greiðist úr um leið og frv. af þessu tagi yrði afgreitt.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.