27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

321. mál, húsnæðismál

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. sagði að fjárframlög til byggingarsjóðanna hefðu aukist verulega. Þetta er rangt. Þau hafa verið skert mjög verulega og mun ég sýna fram á það.

Það hljóta allir að vera sammála um að nú er nauðsynlegt að hækka mjög verulega lánshlutfall Byggingarsjóðs ríkisins til húsbyggjenda og húskaupenda, sérstaklega þeirra sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta skipti. M. a. veldur því full trygging lána. Verðtrygging lána eykur mjög á vanda þessa fólks og þess vegna er enn þá meiri nauðsyn en nokkurn tíma áður að hækka þetta hlutfall. En ef á að vera unnt að gera það núna eða á næstu árum verður að hækka markaða tekjustofna Byggingarsjóðs ríkisins eða ígildi þeirra. Það má undir engum kringumstæðum lækka þá. En hvað gerir ríkisstj.? Hvað hefur hún gert? Hefur hún hækkað framlög frá því sem markaðir tekjustofnar gerðu ráð fyrir? Aldeilis ekki. Á árinu 1980 skerti hún markaða tekjustofna kerfisins í heild um 5%. Árið 1981 skerti hún markaða tekjustofna Byggingarsjóðs ríkisins um hvorki meira né minna en 75% um leið og hlutverk sjóðsins var stórlega aukið. Þetta er nú allt framlag ríkisstj.

Ríkisstj. segist hafa hækkað mjög verulega framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verkamanna. Með orðaleikfimi má komast að þeirri niðurstóðu. Hæstv. ríkisstj. skar alveg á framlög ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verkamanna, en stal þess í stað helmingnum af stærsta markaða tekjustofni Byggingarsjóðs ríkisins, þ. e. launaskattinum. Tekjur Byggingarsjóðs ríkisins voru færðar yfir til Byggingarsjóðs verkamanna, en jafnhliða var skorið alveg á allt framlag frá ríkissjóði til Byggingarsjóðs verkamanna.

Á næsta ári verður skerðing markaðra tekjustofna enn þá meiri, þó að hæstv. félmrh. hafi haldið allt öðru fram. Í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er gert ráð fyrir 33% hækkun framlags ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins. Í þjóðhagsáætlun, sem lögð var fram í s. l. viku, er reiknað með að hækkun byggingarkostnaðar verði 50% frá meðaltali ársins 1981 til meðaltals ársins 1982. M. ö. o.: það verður veruleg skerðing, 17% skerðing, á raungildi framlagsins.

Herra forseti. Ég skal reyna að ljúka máli mínu fljótlega. M. ö. o.: skerðing markaðra tekjustofna Byggingarsjóðs ríkisins verður hvorki meira né minna en 82% samfara mikilli aukningu verkefna og heildarskerðing sjóðanna beggja verður 38%. Þetta er, eins og ég sagði, framlag hæstv. ríkisstj.

Á móti reiknar hæstv. ríkisstj. með því að auka lántökur til sjóðanna. Það getur gengið 1–2 ár, varla miklu lengur. Það gengur ekki að taka lán með 3.25% vöxtum til 15 ára og lána út aftur með 2% vöxtum til 26 ára. Sjóðirnir hljóta að komast í algert greiðsluþrot og það fyrr en síðar, og vaxandi meiri hluti af framlagi ríkissjóðs fer í að borga vaxtamismun.

Það stendur í framkvæmda- og lánsfjáráætlun ríkisstj. að hækkun útlána Byggingarsjóðs ríkisins verði 24.6% á sama tíma og byggingarkostnaður vex um 50%. Heildarútlán Byggingarsjóðs ríkisins verða því að raungildi 17.5% lægri en byggingarkostnaður verður í ár. Heildarhækkun beggja kerfanna verður 7%, ekki 18% eins og hæstv. félmrh. heldur fram, og er það orðaleikfimi fjárlagafrv. um 33% hækkun milli ára sem kemur inn í það dæmi. Með aðgerðum hæstv. ríkisstj. er ekki verið að stuðla að auknum útlánum, heldur er verið að stuðla að lækkun þeirra. Það er verið að stuðla að styrkingu kerfisins. Það er verið að stuðla að því að eyðileggja Byggingarsjóð ríkisins, ekki bara á þessum árum, heldur um alllanga framtíð.