08.02.1982
Neðri deild: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2281 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

172. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér þykir ákaflega leitt að ég missti af eflaust mjög merkri ræðu hv. frsm. 1. minni hl. Ég vil taka fram að ég hafði mikinn áhuga á að heyra hans ræðu og spurði reyndar forseta að því, um leið og ég kom inn, hvort málið yrði ekki tekið strax fyrir. Hann kvað á því mundu verða nokkra töf því að hv. frsm. 1. minni hl. væri ekki tilbúinn með sína merku ræðu. Það beið mín jafnframt mál í Ed. svo að ég leyfði mér að skjótast þangað. Ég bið hann velvirðingar á þessu. Ég heyrði hins vegar niðurlagsorð hans og vil fullvissa hann um það, að ég hef mikinn áhuga á að þetta mál nái fram að ganga, og þakka ég honum og nefndinni fyrir sæmilega skjóta afgreiðslu málsins.

Ég get jafnframt upplýst að hv. formaður nefndarinnar hafði samband við mig meðan á þessu stóð, og ég get upplýst það fyrir hv. 3. þm. Vestf., að þessi mál voru ítarlega rædd í þingflokkum sem að ríkisstj. standa, og efast ég ekki um að hv. formaður sjútvn. tók þátt í þeirri umr.

Ég get jafnframt upplýst að hugmynd, sem hann var með og er góðra gjalda verð, bar ég undir hagsmunaaðila. Hún fékk þar ekki hljómgrunn.

Út af því, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði, þakka ég honum fyrir að ætla ekki að setja fótinn fyrir þetta mál. Af því að hann spurði sérstaklega hverju væri spáð um þróun olíuverðs á næstunni get ég sagt honum það, að aðþjóðlegar spár eru þær, að olíuverð muni fara lækkandi. T. d. er í mjög athyglisverðri grein, sem birtist nýlega í erlendu tímariti, eftir fremstu menn á þessu sviði vakin athygli á því, að miðað við fast verðlag hefur olíuverð lækkað á árinu 1981, og því er spáð, að það fari lækkandi miðað við fast verðlag fram til ársins 1985, sem er eins langt og þessi athugun nær, og færð eru rök að þessu. Ég get því út af fyrir sig tekið undir þá undrun sem mér þótti liggja í orðum hv. þm.: Hvers vegna hefur olíuverð ekki lækkað hér? Svarið er náttúrlega þetta, sem einnig kom fram í hans ræðu, að krónan okkar hefur fallið, verðbólgan er meiri og olíuverð hefur ekki lækkað svo mikið að það hafi upphafið þá lækkun sem hefur orðið á krónunni. Þess vegna hefur olíuverð hækkað í íslenskum krónum miðað við okkar gengisbreytingar. Ég vil hins vegar upplýsa að ég hef óskað eftir því, að viðskrh. láti kanna þetta mál og gefa okkur ítarlegt yfirlit yfir þróun olíuverðs upp á síðkastið og hverju spáð er á næstu mánuðum. Það hef ég ekki fengið, en sjálfsagt er að láta mönnum það í té þegar það liggur fyrir. Þetta er að sjálfsögðu ákaflega mikilvægt atriði í þessum málum öllum.

Hins vegar get ég upplýst að olíukostnaður fiskiskipa hefur lækkað um 1% — stig frá því í lok ársins 1980 til loka ársins 1981, og kemur þar eflaust fram einhver lækkun olíu að raungildi. Vitanlega kann einnig að koma til sparnaður á olíu. En sem sagt, olíukostnaðurinn hefur lækkað um 1% — stig á þessu ári.

Hv. þm. kvartaði undan því, að ég hefði ekki talað við hann og fleiri sjútvn.-menn. Ég hef talað við ýmsa sjútvn.-menn á meðan á þessu stóð. Hins vegar vil ég minna á að olíugjaldið var mjög stór liður, a. m. k. á bak við tjöldin, í samningum útgerðarmanna og sjómanna. Það er ekki fyrr en 14. jan., minnir mig, að niðurstaða af kjarasamningunum fæst og þá með þessum fyrirvara frá útgerðarmönnum og samþykkt athugasemdalaust af sjómönnum, að kjarasamningarnir byggðust á því, að olíugjaldið verði óbreytt út árið. Fiskverðið er síðan ákveðið á næstu tveimur dögum, 15. og 16. jan., og í þeim sviptingum, sem þá voru, lækkaði olíugjaldið um 1/2%. Ég held því satt að segja að ákaflega litið svigrúm hafi verið til að hafa sjútvrn.-fundi á þeim tíma. Hins vegar tek ég undir að það er aldrei ánægjulegt þegar Alþingi stendur frammi fyrir gerðum hlut, og væri æskilegt, að öðruvísi mætti vera, og ber vitanlega að stuðla að því. Dæmin um slíkt eru þó ákaflega mörg, ekki síst þegar um hefur verið að ræða kjarasamninga, og veit ég að ég þarf ekki að telja það upp fyrir hv. þm.

Ég vil taka það fram, að ég man vel og mér hefur oft orðið hugsað til þess boðs sem liggur fyrir frá hv. 1. þm. Vestf., að hann og stjórnarandstöðuþm. í sjútvn. séu reiðubúnir til viðræðna um breytingu á olíugjaldinu. Ég vil fullvissa hv. þm. um að ég mun nota mér það. Málið hefur hins vegar ekki komist á það stig einfaldlega af þeirri ástæðu, að áður þarf að tryggja a. m. k. vilja sjómanna og útgerðarmanna til þess að taka olíugjaldið til endurskoðunar. Sá vilji liggur ekki fyrir. Ég vona að á því geti orðið einhver breyting.

Ég ætlaði mér að segja fáein orð við hv. 3. þm. Vestf., en kann ekki við það þegar hann er ekki hér inni, og ætla að biðja forseta að láta sækja hann. Mun ég gera hlé á máli mínu á meðan. (SighB: Það þarf ekki, hann er hér.) Hann er kominn, jæja, gott. Ég kann ekki við að segja hér að hv. þm. fjarverandi það sem ég vil segja. Hins vegar hefði mér ekki komið á óvart þó að hann hefði hlaupið á brott eftir slíka ræðu sem hann flutti hér áðan. Ég vil segja það hér, að því miður virðist það vera orðin regla frekar en undantekning að litið er sátt af því sem hv. þm. fullyrðir úr þessum ræðustól. Að vísu kemur það mér ekki á óvart eða öðrum sem starfa á Vestfjörðum — og kannske ekki nú orðið öðrum hv. þm. En ég vil skora á hv. þm. að draga fram loforð mitt um að olíugjaldið skuli fellt niður. Ég hef hvað eftir annað sagt og endurtek það hér, að ég tel að breyta eigi olíugjaldinu í annað form en nú er, og það er mín meining áfram. Ég get einnig upplýst hv. þm. um það, að í þeirri nefnd, sem hefur að þeim málum starfað, liggja nú fyrir tillögur um breytingar á olíugjaldi og stofnfjársjóðsgjaldi frá því sem nú er, þannig að þessi gjöld verði felld niður og tekinn af óskiptu olíukostnaður sem komi á móti þessu tvennu. Ég tel þetta skynsamlega tillögu og hef rætt hana sjálfur við hagsmunaaðila í sjávarútvegi, bæði sjómenn og útgerðarmenn, og mun halda því áfram. Eins og ég sagði áðan, ef einhver hljómgrunnur fæst fyrir slíkum till. tel ég ástæðu til að sjútv.-nefndir þingsins athugi þær.

Þó að ég vilji nú helst ekki eyða orðum á hv. þm. meira en ég nauðsynlega þarf vil ég upplýsa að í sambandi við bensíngjaldið ríkir alls ekki það hugarfar hjá hæstv. ríkisstj. eins og hjá hv. þm. sem gerir því skóna að bensínið hafi verið hækkað eftir að vísitalan var ákveðin. Þetta er rangt. Bensíngjaldið lagðist til hliðar af — við skulum segja: mistökum þegar bensínið var hækkað viku áður. Þetta gjald var ákveðið fimmtudaginn áður en vísitalan var ákveðin. Allar fullyrðingar hv. þm. um annað hér áðan eru úr lausu lofti gripnar og eiga enga aðra rót en í hans eigin innræti.