08.02.1982
Neðri deild: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2283 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

172. mál, olíugjald til fiskiskipa

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka þátt í umr. um innréttingu þeirra hv. þm. sem taka sæti á Alþingi fyrir Vestfjarðakjördæmi, enda mæla þeir sjálfir best með sér þegar þeir tala úr ræðustól. En ég tek eftir því, að það hefur verið leiðrétt og prentað upp nál. 1. minni hl. Það er líklega fólgið í því, að þetta er nál. frá fyrrv. meiri hl., en er orðinn 1. minni hl. Ég vil mjög óska eftir því við formann sjútvrn. deildarinnar að hann láti prenta það upp enn einu sinni og leiðrétta frekar þskj. svo að það komi ekki til með að standa í þingtíðindum á þann veg sem hér er. Það er ótækt að láta koma fram í þingtíðindum að persóna, sem ekki á sæti á Alþingi, hafi ekki mætt á nefndarfundi. Reyndar hefði alveg eins mátt standa á þskj. 312, í lok nál., að Karvel Pálmason, Halldór Blöndal og Jóhannes Nordal hafi verið fjarstaddir þegar fundurinn var haldinn, eins og að minnast þarna á Sigurlaugu Bjarnadóttur því að ég tók þingsæti mitt að nýju þennan dag eins og reglur segja til um. Auk þess hefur komið fram, að hv. þm. Karvel Pálmason hafði fjarvistarleyfi. Ég vil biðja form. nefndarinnar um þetta vegna þess að hann hefur ekki þurft að kvarta yfir því, að við þm., a. m. k. ég og hv. 1. þm. Vestf. sem erum stjórnarandstöðuþm., höfum ekki mætt á fundum þegar hann hefur boðað til funda í sjútvn., því að iðulega hefði ekki verið hægt að halda fundi þar ef við hefðum ekki mætt. Í flestum tilfellum er hann einn mættur af þeim þm. sem styðja hæstv. ríkisstj. þegar á þarf að halda og fylgja frv. ríkisstj. fram.

Í sjálfu sér hefur hv. 1. þm. Vestf. talað svo rækilega um málið að ekki er ástæða fyrir mig til að fara efnislega út í nál. okkar frekar en hér hefur verið gert. Ég vil þó til viðbótar því, sem ég sagði um mætingar í sjútvn., benda hv. formanni nefndarinnar á það, að í sjálfu sér er óþarft fyrir óbreytta þm. að vera að mæta á slíkum fundum í þessari nefnd í framhaldi af því sem hann sjálfur lýsir hér yfir á hv. Alþingi, að þegar er búið að ráða þessu máli til lykta utan þings. Til hvers er þá verið að fylgja þessum formum, sem eru engin form orðin og í beinni andstöðu við það sem þingsköp segja, vegna þess að þeir hæstv. ráðherrar, sem hv. þm. styður til valda hér á Íslandi, haga sér á þann veg að slík vinna er með öllu óþörf? Það má alveg eins gera þetta heima í eldhúsi hjá sér eins og vera að koma saman á formlegan fund hjá hv. formanni.

Við höfum verið sjálfum okkur samkvæmir í því að benda á það enn einu sinni, að við teljum ekki rétt að það séu sjómenn sem borgi þennan skatt, einfaldlega vegna þess að Alþingi Íslendinga hefur viðurkennt að sú óárán, sem reið yfir þjóðina þegar olían hækkaði svo sem raun bar vitni um á sínum tíma, það vissu allir, hún var sameiginlegt vandamál þjóðarinnar í heild. Við höfum viðurkennt það m. a. með því að rétta upp höndina til að samþykkja greiðslu á styrkjum til þeirra sem þurfa að nota olíu til húshitunar úti um land, þrátt fyrir að margir staðir, reyndar fleiri en Reykjavík, þurfa ekki á neinu slíku að halda. Þetta er sameiginlegt vandamál þjóðarinnar að okkar mati, og það er nákvæmlega eins á komið með þennan stóra grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar, með fiskiskipaflotann. Auðvitað átti að greiða olíustyrkinn úr ríkissjóði. Það væri auðveldara fyrir ríkisstj. að beita sér svo fyrir réttlátri skiptingu á olíustyrk til flotans, þegar það kemur nú líka í ljós frá talsmanni ríkisstj. í þessu máli, hv. þm. Garðari Sigurðssyni, formanni sjútvn., að nauðsyn þessa styrks getur verið allt frá bilinu frá 5% og upp í 25% af rekstrarútgjöldum skipsins. Þetta lýsir náttúrlega enn betur því, hvers konar gegndarlaust kæruleysi og viljaleysi það er hjá hæstv. ríkisstj. að taka ekki þetta stóra vandamál fyrir.

Ég minnist þess á s. l. ári, að þá var það sjálfur formaður þingflokks Framsfl. sem benti á þetta óréttlæti og taldi að við svo búið mætti ekki standa. Það er svona enn þá. Það er því ekki illt innræti hv. þm. Sighvats Björgvinssonar sem ræður því, þegar hann bendir á það sem staðreynd, að eftir því sem meira er lofað af þessum flokki, Framsfl., við því minna er staðið og oftast nær farið þveröfuga leið. Ég hef þó ekki heyrt hæstv. sjútvrh. gefa það loforð sjálfan. Hins vegar minnist ég þess að hafa haft það beint frá sjómönnum af Vestfjörðum, framámönnum þar í stéttarfélögum sjómanna, sem hafa hermt loforð þessa efnis upp á hæstv. ráðh. og þingmann sinn. En ég leyfi mér að fullyrða það, vegna þess að það hefur komið inn í þessar umr., að ef þessi vilji Framsfl. og reyndar fleiri í ríkisstj. og meðal stuðningsmanna þeirra, eins og fram hefur komið í ræðu formanns sjútvn., hefði verið orðinn að veruleika og létt af olíugjaldinu, þá hefði orðið léttara um alla samninga við fiskimenn í byrjun þessa árs. Bendi ég þar sérstaklega á vilja og ætlun hæstv. ráðh. í sambandi við þetta mál, þótt ég vilji ekki herma upp á hann loforð um að fella olíugjaldið niður, heldur það sem ég hef hins vegar margoft heyrt hann segja, að hann vildi mjög gjarnan breytingu á fyrirkomulagi olíustyrks til skipanna. Ég leyfi mér að fullyrða að það hefði gengið betur með samningana í byrjun þessa árs ef svo hefði verið. En það er að sjálfsögðu tómt mál að tala um og var tómt mál að tala um þegar það er haft í huga, að samtök sjómanna áttu í baráttu við ekki aðeins mjög harða andstöðu útgerðarmanna, heldur við óvinsamlegt ríkisstjórnarvald í þessu landi.