08.02.1982
Neðri deild: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2287 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

172. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við hæstv. sjútvrh., en það liggur alveg ljóst fyrir að þeir, sem hann ræddi við í sjómannadeilunni á Vestfjörðum á sínum tíma, fullyrða að hafa gert þráfaldlega á opinberum vettvangi að hann hafi gefið þeim loforð um afnám olíugjaldsins. Það, herra forseti, er reikningur sem við hæstv. sjútvrh. skulum gera upp í okkar kjördæmi þegar þar að kemur. Þá skulum við sjá til hvort hæstv. sjútvrh. verður reiðubúinn til að fullyrða það upp í opið geðið á þessum aðilum að hafa aldrei gefið það loforð sem þeir telja að hafi verið forsenda fyrir því að samkomulag var gert á sínum tíma. Það var einnig forsenda fyrir tillöguflutningi hv. þm. Karvels Pálmasonar fyrir nokkrum mánuðum, þegar hann lagði til að olíugjaldið yrði lagt niður. Forsenda fyrir þeim tillöguflutningi var sú, eins og menn muna af umr. um það mál, að m. a. væri verið að reka á eftir því að hæstv. sjútvrh. stæði við yfirlýsingar og gefin loforð við vestfirska sjómenn. (Gripið fram í.) Hæstv, sjútvrh. vill ekki við þetta kannast. Gott og vel. Ég var ekki viðstaddur þann fund sem hann átti með þeim Vestfirðingum, en þeir, sem þar voru — að hæstv. ráðh. einum frátöldum, telja að á þeim fundi hafi verið gefið loforð um þetta afnám sem hæstv. ráðh. vill ekki kannast við.

Það er líka algerlega rangt með farið að það hafi verið Alþfl. sem oftast hafi staðið að því að leiða í lög olíugjald. Olíugjald hefur verið lögleitt sjö sinnum. Af þeim sjö hefur það verið þrisvar áður gert í tíð núv. hæstv. sjútvrh. og þetta er í fjórða skiptið. Hann hefur sem sé átt hlut að því sjálfur fjórum sinnum að leiða þetta gjald í lög. Ég vil einnig taka fram til þess að leiðrétta allan misskilning, að við Alþfl.-menn höfum hingað til — að einum undanteknum — ávallt greitt atkv. með því að olíugjaldið yrði lögbundið. Ég man a. m. k. ekki eitt einasta skipti sem við höfum ekki gert það. Málið snýst nú hins vegar um það, að tveir af ráðherrum ríkisstj. höfðu, áður en fiskverðið var ákveðið, þráfaldlega lýst yfir — sumir segja að annar þeirra hafi lofað því, eins og ég sagði áðan, — þráfaldlega lýst yfir að þeir vildu að olíugjaldið yrði afnumið. En það er þveröfugt sem verið er að gera núna. Ég er sannfærður um að þessar þráfaldlegu yfirlýsingar þessara tilteknu tveggja ráðh. settu fiskverðsákvörðunina á sínum tíma í mikinn hnút.

Það, sem hæstv. ráðh. er því að gera hér eina ferðina enn, eins og Framsfl. hefur þurft að gera hvað eftir annað undanfarin tvö ár, er að lögfesta það sem hann hefur lýst yfir að hann sé á móti. Varla mótmælir hæstv. sjútvrh. því, að hann hefur þráfaldlega, um þetta mál eins og fjölmörg önnur sem hann hefur þurft að hafa afskipti af, lýst sinni skoðun sem er þveröfug við það sem hann hefur síðan framkvæmt. Sú framkvæmd, sem hann er nú að biðja Alþingi um að gera með lögfestingu olíugjaldsins, er þveröfug við ítrekaðar yfirlýsingar hans sjálfs um eigin vilja og eigin stefnu. Á þessu leyfði ég mér að vekja athygli í ræðu minni hér á undan, og ég býst við að þessar staðreyndir hafi orðið til þess, að hæstv. ráðh. skipti skapi í ræðu sinni áðan. Þetta svíður honum miklu meira að verða að horfast í augu við heldur en sú einfalda ákvörðun sem hér á sér stað. Það er ósköp skiljanlegt, vegna þess að þeir framsóknarmenn hafa síður en svo verið sparir á að gefa yfirlýsingar um hvað þeir hefðu viljað að til bragðs yrði tekið í þessum málum og öðrum. Menn eru farnir að hafa slíkar yfirlýsingar að gamanmálum vegna þess að það eina, sem framsóknarmenn hafa notað slíkar yfirlýsingar til, er til þess að geta einhvern tíma síðar sagt: Þó svo að við gerðum allt þveröfugt við það sem við ætluðum okkar, þá lá alla vega ljóst fyrir annaðhvort í ræðum á Alþingi eða í blaðaskrifum hvað við vildum. M. ö. o.: þeir taka sér í munn orð Páls postula: Það góða sem ég vil, það geri ég ekki, en það illa sem ég ekki vil, það geri ég.

Eftir þessum orðum Biblíunnar hafa framsóknarmenn starfað í þessari ríkisstj. í heil tvö ár. Á þriggja mánaða fresti koma þeir með yfirlýsingarnar um hvað þeir vildu gjarnan gera, og ganga þar fremst í flokki hæstv. sjútvrh., hæstv. viðskrh. og tveir af þm. Framsfl. En það verður bara aldrei neitt úr þessu. Þessar tillögur ná aldrei lengra en inn á síður Tímans. Síðan er ekki staðið við einn einasta stafkrók af því sem þar er fram sett. Ég vísa hæstv. sjútvrh. t. d. á viðtal sem hann átti við dagblaðið Tímann um áramótin. Það væri fróðlegt fyrir hæstv. sjútvrh. að lesa það viðtal núna, lesa það fyrir þingheim og gera mönnum grein fyrir því, hvað stendur eftir af þeim orðum sem hann viðhafði þar. Þar stendur ekki lengur steinn yfir steini. Ekkert af því, sem þar kom fram, hefur gerst.

Framsfl. getur aldrei staðið í ístaðinu og hefur aldrei getað gert undanfarin ár þegar hann hefur þurft að eiga við Alþb. Þetta var segin saga í þeirri ríkisstj. sem við Alþfl.-menn áttum sæti í með Framsfl. Ef til ágreinings kom í þeirri ríkisstj., þá bognaði Framsfl. alltaf frammi fyrir Alþb. þó svo að hann léti í veðri vaka að ýmislegt af því, sem við héldum fram, væri þrátt fyrir allt rétt.

Gott og vel. Síðan gekk hann til kosninga með stefnuskrá sem var á margan hátt mjög lík þeim tillögum, sem við höfðum gert, og kallaði niðurtalningu. Hann hefur fengið færi á að framkvæma þá stefnu sína undanfarin tvö ár, en hann hefur alltaf látið í minni pokann. Hann hefur aldrei getað staðið á einu einasta átriði í eigin tillöguflutningi — aldrei. Hann hefur alltaf látið undan, alltaf látið í minni pokann og alltaf breytt þvert gegn eigin yfirlýsingum og tillögum sem flokkurinn hefur þó ekki verið spar á. Formaður Framsfl. veit manna best að það hefur ekki vantað að hugmyndirnar hafi heyrst frá honum og hans mönnum, en þeir hafa alltaf guggnað á framkvæmdum. Þeir hafa aldrei getað staðið á sínum eigin tillögum. Það er ósköp skiljanlegt að þeir gætu á sínum tíma e. t. v. ekki fundið möguleika á því að standa með okkur Alþfl.-mönnum að þeim tillögum sem við gerðum, þó svo að þeim fyndist þær tillögur á margan hátt vera skynsamlegar. Það er ósköp skiljanlegt. Hitt er öllu verra, að þeir geta ekki einu sinni staðið á eigin tillögum. Þeir geta ekki einu sinni staðið á eigin málstað gagnvart Alþb. Og þetta veit fólk. Þetta vita menn.

Herra forseti. Að lokum örfá orð um bensínhækkunina sem ég spurðist fyrir um. Það var laugardaginn 6. febr. 1982 sem hækkun þessi kom til framkvæmda. Frá því er sagt í Morgunblaðinu þennan dag, að bensínið hafi hækkað um 5.6% frá og með deginum í dag, þ. e. frá og með laugardegi 6. febr. Fyrr var ekki um þessa bensínhækkun tilkynnt. Eins og ég sagði áðan upplýsti hagstofustjóri í fjh.- og viðskn. út af öðru máli, að þær hækkanir, sem kæmu fram í síðasta lagi á föstudaginn 5. febr., urðu teknar með í útreikningi framfærsluvísitölunnar, en hækkanir, sem kæmu fram eftir þann tíma, yrðu ekki reiknaðar inn í vísitöluna. Þess vegna leyfði ég mér að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvenær ákvörðun ríkisstj. um þessa hækkun hefði verið tekin og hver væri ástæðan fyrir því, að framkvæmdinni hefði verið frestað þangað til laugardaginn 6. febr., þangað til daginn eftir að hagstofustjóri lokaði fyrir allar upplýsingar um verðhækkanir í vísitölureikningum sínum. Hæstv. sjútvrh. upplýsti að þessi ákvörðun hefði verið tekin af ríkisstj. á fimmtudegi. Þá var ákvörðunin tekin og það virðist hafa gert mögulegt eða virðist hafa tryggt það a. m. k. eftir hans orðum að dæma, að tillit yrði tekið til þessarar hækkunar í sambandi við útreikning framfærsluvísitölunnar. Það er auðvitað meginatriði málsins. M. ö. o.: það dugði ekki að fresta framkvæmd hækkunarinnar til laugardagsins 6. febr. vegna þess að hagstofustjóri tekur mið af ákvörðuninni um hækkunina sem tekin var á fimmtudegi, þó svo að hún kæmi ekki til framkvæmda fyrr en á laugardegi, nokkrum klukkutímum eftir að Hagstofan hafði lokað fyrir verðhækkanatilefni sín inn í vísitöluna. Er það gleðilegt út af fyrir sig, ef marka má orð hæstv. ráðh., að hagstofustjóri hefur þá tekið mið af því, hvenær ákvörðunin var tekin, en ekki því, hvenær af framkvæmdinni varð. Ég ætla nú ekki að geta mér til um tilætlanir ríkisstj. í þessu sambandi, en þetta liggur þó alla vega fyrir eftir yfirlýsingu hæstv. sjútvrh. og er það vel.