09.02.1982
Sameinað þing: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2299 í B-deild Alþingistíðinda. (1937)

128. mál, öryggismál sjómanna

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Mér finnst af svari hæstv. ráðh. að með þeim upplýsingum, sem hann hefur boðið þm. hér aðgang að, sé að nokkru leyti komið svar við annarri fsp. sem hefur verið lögð hér fram og er einmitt á þskj. sem útbýtt var í dag. Ég ætlaði ekki að ræða það, heldur ætlaði ég að vekja athygli hv. þm. á þeim orðum hæstv. ráðh., að ekki hafi verið hægt að gera fræðslumynd langtímum saman um sjósetningu gúmbjörgunarbáta vegna fjárskorts. Mér er kunnugt um það, að þá ágætu mynd, sem gerð hefur verið, var ekki hægt að gera fyrr en eitt af stéttarfélögum sjómanna, Vélstjórafélag Íslands, lagði fram stórfé til þess að það yrði gert.

Ég þykist vita að þó að eitthvað sé gert hér í sambandi við umferðina á götum borgarinnar, svo sem að setja upp umferðarljós eða önnur aðvörunarmerki, þá verði þegnar borgarinnar, hvorki bankastjóri Seðlabankans, Jóhannes Nordal, né Davíð Scheving né aðrir slíkir rukkaðir um það sérstaklega. Því síður á að rukka sjómannastéttina fyrir nauðsynlegan öryggisbúnað og varnir gegn slysum, sem þjóðfélagið — eða þeir ráðamenn í þjóðfélaginu sem eru valdir til þess, eru sammála um að þurfi að gera til þess að fyrirbyggja þau allt of tíðu slys sem þar koma fyrir.

Að sjálfsögðu hlýtur þessi mynd að verða betrumbætt þegar reglugerð verður sett um sleppibúnaðinn sem Sigmund Jóhannsson hefur hannað. Það er auðvitað alrangt, sem mátti skilja í fréttum Ríkisútvarpsins af fsp.-tíma hér um daginn, að það væri nánast beðið eftir að slys yrði til þess að fá reynslu á þann búnað. Það hefur aldrei komið fram frá Siglingamálastofnuninni að það þyrfti að bíða eftir því, heldur ætti að fylgjast með uppsetningu þessa búnaðar í ýmsar stærðir og gerðir fiskiskipa í Vestmannaeyjum. Eftir því hefur verið beðið, en hins vegar ekki eftir því að slys yrði.

Ég vek athygli á því, að þegar reglugerð hefur verið sett um þann sleppibúnað þarf að endurskoða og lagfæra þessa mynd, bæta inn í hana, og það þarf að taka hana á myndbönd og fjölfalda þau, vegna þess að í öllum stærri fiskiskipum eru nú myndsegulbönd. Ég get ekki mælt með því, að þetta sé gert án þess að ríkið hlutist til um það. Ég hef barist gegn því, að verið væri að stuðla að þeim verndaða þjófnaði á myndböndum sem hefur verið látinn viðgangast hér á Íslandi allt of lengi.