09.02.1982
Sameinað þing: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2303 í B-deild Alþingistíðinda. (1941)

174. mál, afstaða ríkisstjórnarinnar til einræðisstjórnarinnar í Tyrklandi

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv. hefur beint til mín svohljóðandi fyrirspurn: „Hefur íslenska ríkisstjórnin beitt áhrifum sínum innan Atlantshagsbandalagsins til þess að mótmæla einræðisstjórn og mannréttindabrotum í öðru bandalagsríki, Tyrklandi?“

Ég vek athygli á að spurning þessi er einskorðuð við NATO, þ. e. hvort íslenska ríkisstjórnin hafi beitt áhrifum sínum innan NATO til þess að mótmæla því sem þar greinir. Svarið við þessari spurningu er nei. Það hefur Ísland ekki gert. Það hafa aðrar bandalagsþjóðir ekki heldur gert. Atlantshafsbandalagið er stofnað til varnar gegn utanaðkomandi ógnun. Innanríkismál einstakra bandalagsríkja verða vart tekin til formlegrar meðferðar þar gegn vilja þess ríkis sem í hlut á, enda gildir innan bandalagsins reglan um „consensus“ eða samþykktir allra við ákvörðunum bandalagsins. Þrátt fyrir þetta er að sjálfsögðu fylgst með gangi mála í Tyrklandi og skoðanir látnar í ljós óformlega. En það er ekki hægt að segja að ríki hafi beitt áhrifum sínum innan bandalagsins í þá átt sem í fsp. er rætt um.

Þetta svar verður að nægja varðandi Atlantshafsbandalagið. En því má svo bæta við, að bandalagsþjóðirnar og auðvitað aðrar þjóðir geta beitt áhrifum sínum með ýmsum hætti á öðrum vettvangi, bæði einstaklega og í fjölþjóðlegum samtökum eða stofnunum sem flest NATO-ríkin eiga aðild að. Evrópuráðið er t. d. og hefur verið vettvangur fyrir umræður um ástandið í Tyrklandi, og þar eru skoðanir settar fram á formlegri hátt og þrýstingi beitt við tyrknesk stjórnvöld til að fá þau til að hverfa sem fyrst til lýðræðislegra stjórnarhátta og ekki síður að láta af fangelsunum stjórnmálamanna og verkalýðsleiðtoga.

28. jan. s. l. samþykkti þing Evrópuráðsins ályktun þar sem brot á mannréttindum voru fordæmd og ýmsum áskorunum var beint til tyrknesku ríkisstjórnarinnar, svo sem að fellt væri úr gildi bann við stjórnmálaflokkum, ritskoðun afnumin, pyntingum væri ekki beitt o. s. frv. Loks var í þessari ályktun beint til aðildarríkja að þau gripu til þess ráðs að kæra Tyrkland fyrir Mannréttindanefnd Evrópu. Ályktun þessi er svipuð þeirri sem gerð var í málefnum Grikklands í júní 1967. Með hliðsjón af þessari ályktun hafa nokkur ríki tekið til athugunar hvort þau ættu að kæra Tyrkland fyrir Mannréttindanefndinni. Niðurstaða liggur enn ekki fyrir. Geta má þess einnig, að Evrópuþingið, þ. e. þing bandalagsríkja Efnahagsbandalagsins, samþykkti 22. jan. ályktun þar sem herforingjastjórnin í Tyrklandi var fordæmd, umboð þingmanna í samstarfsnefnd EBE og Tyrklands var ekki framlengt, lagt til að fjárhagsaðstoð EBE við Tyrkland yrði frestað og að 52 verkalýðsleiðtogar yrðu látnir lausir úr fangelsum Tyrklands. Þessi ályktun var samþykkt, en að vísu með litlum atkvæðamun.

Mér er ekki kunnugt um hvort málefni Tyrklands hafa verið til umfjöllunar í þingmannasamtökum NATO, en af sjálfu leiðir að Tyrkir munu nú ekki eiga þar fulltrúa þar sem engir þingmenn eru eins og stendur í Tyrklandi.

Hversu mikil áhrif erlend ríki hafa haft á herforingjastjórnina í Tyrklandi er ekki gott að segja, en í áramótaræðu leiðtoga hennar, Kenan Evren hershöfðingja, sagði að tillögur ráðgjafarþingsins, sem sett var á fót til að gera breytingar á stjórnarskránni, yrðu væntanlega lagðar undir þjóðaratkvæði í nóvember og almennar kosningar yrðu síðan haldnar haustið 1983 eða í síðasta lagi vorið 1984.

Ég tel ekki rétt að fara nánar út í þessi mál í fyrirspurnatíma, en að sjálfsögðu mætti margt fleira um þau segja. Ég læt þess aðeins getið, að mál þessi hafa verið nokkuð rædd í utanrmn. og ríkisstj. nýlega.