09.02.1982
Sameinað þing: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2306 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

174. mál, afstaða ríkisstjórnarinnar til einræðisstjórnarinnar í Tyrklandi

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég átti sæti ásamt hv. 11. þm. Reykv. á þessu Evrópuráðsþingi sem varamaður hv. þm. sem var að ljúka máli sínu.

Það er að sjálfsögðu útilokað að ræða þetta mál til nokkurrar hlítar í fsp.-tíma, en ég get tekið undir mikið af því sem hér hefur verið sagt. Reyndar ræddum við þetta oft á þinginu, ég og hv. 11. þm. Reykv., og vorum sammála um fordæmingu á öllu því illa sem í Tyrklandi hefur gerst. Hins vegar greindi okkur á, eins og reyndar kom fram áþinginu sjálfu, um hve langt ætti að ganga að þessu sinni. Ég átti sæti í stjórnmálanefndinni og þar voru mjög tíðir fundir. Það voru þrjú aðalmál þar: Það var þetta mál, Póllandsmálið og svokallað Ísraels- eða Jerúsalemsmál, sem kom upp seint á þinginu. Voru mjög tíðir og langir fundir í þessari nefnd um þetta mál. Samstaða varð um afgreiðslu málsins úr nefndinni. Má leggja það þannig fyrir þótt menn greindi á innan nefndar. Þannig stóðu margir okkar að sem sátu fundina. Við vildum fylgja því. Þannig var afstaða fulltrúa hinna Norðurlandaþjóðanna, en ég talaði við formenn sendinefnda þeirra, að það ætti að standa að þeirri ályktun sem reyndar var samþykkt að lokum með litlum breytingum. Ágreiningur var um hvort ætti að reka Tyrki skilyrðislaust strax eða hvort ætti að setja þeim tímabundið síðustu skilyrði til að ráða bót á þessum málum sínum, því það þykir nokkuð sannað að átt hafi sér stað hjá þeim bæði pyntingar og annað sem ekki getur á nokkurn hátt fallið undir þau skilyrði um mannréttindi sem Evrópuráðið leggur á sínar aðildarþjóðir.

Við skulum samt ekki gleyma því, að á fundum stjórnmálanefndarinnar komu fram skýrslur frá nefnd sem Evrópuráðið hafði sent til Tyrklands til að kynna sér málið. Formaður þeirrar nefndar var formaður stjórnmálanefndarinnar. Urwin, þingmaður Verkamannaflokksins í Brettandi, mjög þekktur og vel látinn maður þar í landi sem og í Evrópuráðinu. Það var sama úr hvaða pólitísku flokkum þeir komu eða frá hvaða landi þeir komu, þeir sem fóru þessa ferð voru nær allir sammála um að það ætti að beita öllum þeim þrýstingi sem hægt væri til að halda Tyrklandi innan Evrópuráðsins.

Lengi má að sjálfsögðu deigt járn brýna, en þetta getur ekki gengið óendanlega. Ég er alveg sammála öðrum um að það er tímabundið hve lengi er hægt að þola það. Þannig var líka með Grikkland. Ég átti sæti í Evrópuráðinu á þeim fundi sem greiddi atkv. endanlega um það sem varð til þess að Grikkir sögðu sig sjálfir úr því. Þeir voru að vísu ekki reknir, en þeir sögðu sig úr ráðinu, en voru svo teknir inn síðar, þegar þeir höfðu komið á lýðræðislegu stjórnarfyrirkomulagi. Það er satt að segja von allra góðra manna að svo verði og með Tyrkland innan tíðar. Annars mega þeir fara.