27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

321. mál, húsnæðismál

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þær upplýsingar sem hann gaf. Sumt af því var ágætt að fá hér og voru raunverulegar upplýsingar, en önnur ummæli hans höfðu ekki það upplýsingagildi sem hefði verið vert. Hann fann t. d. að því, að ég hefði viðhaft nokkur orð um húsnæðisástandið til þess að færa ástæður fyrir aðalspurningu minni til hans, fyrstu spurningunni sem ég gerði grein fyrir. Mér fannst ýmislegt í máli ráðh. vera á þá leið, að það væri full ástæða að undirstrika hvað er aðalatriðið í þessum málum, en ekki minni háttar atriði, eins og sum atriði eða upplýsingar sem hann var að gefa áðan.

Þegar við tölum um húsnæðisástand skulum við gera okkur grein fyrir hver húsnæðisþörfin er. Og hver er húsnæðisþörfin? Samkv. spá Framkvæmdastofnunar ríkisins árið 1977 var áætlað að byggja þyrfti um 2400 íbúðir á ári til ársins 1985 til þess, eins og þar segir, „að anna eftirspurninni“. En hvernig standa þessi mál? Hvernig gengur okkur að anna eftirspurninni? Samkv. upplýsingum frá húsnæðismálastjórn standa málin þannig, að lán frá Byggingarsjóði ríkisins voru á undanfórnum árum á fokheldar íbúðir á tímabilinu frá 1. oki. til 30. sept. þannig: Á fyrsta tímabilinu, sem ég er hér með, frá 1978–1979, voru íbúðirnar, sem lánað var út á, 1685, á næsta ári 1665 og í ár er reiknað með 1200. Á næsta ári er reiknað með enn þá lægri tölu, það sé einungis lánað til 1 175 fokheldra íbúða. Hvað segja þessar skelfilegu tölur? Þær segja að það hlýtur að stefna í mikið húsnæðisleysi, hvort sem það kemur að fullu fram meðan þeir sitja í ríkisstj. sem bera ábyrgð á þessu ástandi. Ég veit að hæstv. ráðh. segir að það verði auknar byggingar hjá Byggingarsjóði verkamanna. Það er alveg rétt. En það gerir ekki annað en mæta þeirri fækkun íbúða sem annars væru byggðar á vegum Byggingarsjóðs ríkisins. Það er yfirleitt ekki um neina aukningu að ræða.

Hæstv. ráðh. talaði um að verðgildi lánsfjár til íbúðalána hefði aukist á þessu ári um 8% og ykist á næsta ári um 18%. Þetta eru algerar pappírstölur. Hvers vegna? Vegna þess að það er búið að svipta Byggingarsjóð ríkisins aðaltekjustofninum, þeim mikilvægasta, launaskattinum, en í staðinn kemur óviss tekjustofn eins og kaup lífeyrissjóðanna á skuldabréfum Byggingarsjóðs. Það var gert ráð fyrir að á þessu ári keyptu lífeyrissjóðirnir fyrir 152 millj., en þegar 9 mánuðir voru búnir af þessu ári hafði verið keypt fyrir 57% af þeirri upphæð. Nú er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir leggi til meira á næsta ári eða 212 millj. kr. Það er í algerri óvissu. Þær tölur, sem við höfum, gefa því ekki til kynna hve herfilegt það ástand getur orðið á næstunni.

Hæstv. ráðh. sagði að það væri ábyrgðarleysi, — hann var að tala þá um launaskattinn, — að við sjálfstæðismenn hefðum borið fram tillögur um að launaskatturinn færi í Byggingarsjóð ríkisins. Það er ábyrgðarlaust athæfi! En það er ekki ábyrgðarlaust athæfi, hæstv. ráðh., að bera fram tillögur um að þessi byggingarsjóður sé sviptur launaskattinum, sem upphaflega var lagður á með samkomulagi við launasamtökin í landinu til að efla íbúðabyggingar í landinu. Nei, það er ekki ábyrgðarlaust!

Hæstv. ráðh. var að guma af hvernig búið er að Byggingarsjóði verkamanna. Hvernig er búið að Byggingarsjóði verkamanna? Samkv. lögum á hann að fá framlag frá ríkissjóði sem nemur 30% af ráðstöfunarfé hans. Hann hafði 50% áður. En hvernig á að fjármagna annað? Hvernig á að fjármagna 50% af því fjármagni sem Byggingarsjóður verkamanna þarf á að halda? Hann á að taka lán til 15 ára með 3.5% vöxtum og lána þá peninga út til 42 ára með 0.5% vöxtum. Haldið þið að Byggingarsjóður verkamanna verði byggður upp til frambúðar með þessum hætti?

Hv. 8. landsk. þm. vill halda því fram, að það sé allt í góðu lagi í húsnæðismálunum hér í Reykjavík vegna þess að það sé verið að byggja 170 leiguíbúðir og það sé verið að kaupa — hugsið þið ykkur — 20 íbúðir sem eiga að vera leiguíbúðir. Þetta er ekki svaravert, og ég hef ekki heldur tíma til þess. En það er húsnæðisvandi og mikil eftirspurn eftir húsnæði um allt land og það er eitt af því þýðingarmesta, ekki einungis í Reykjavík, heldur í hinum dreifðu byggðum, að gert sé átak í því að auka til muna byggingu íbúðarhúsnæðis.