09.02.1982
Sameinað þing: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (1951)

117. mál, lækningarmáttur jarðsjávar við Svartsengi

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég er meðflm. að þessari till. og kannast ekki við að minn þáttur í till., þegar talað er um aðstöðu, sé á þann veg að þarna verði komið upp ógndýrum mannvirkjum og með gerð þeirra sé því þegar slegið föstu að þetta sé hið eina og sjálfsagða ráð til að lækna þennan sjúkdóm. Ég minnist þess, að þegar um það bárust fréttir að umræddur einstaklingur hóf þessa könnun á sjálfum sér, þá þurfti hann að leita til þeirra, sem stjórna orkuverinu þarna syðra, til þess að komast í húsaskjól til að afklæðast og klæðast að nýju; Ég geri ráð fyrir að það væri hægur vandi fyrir hæstv. ráðh. og ráðuneyti hans, þó það væri ekki annað, að láta Vegagerðina draga þarna suður eftir 2–3 lausa skúra, sem fást hjá henni og sjást á vegamótum víðs vegar um landið og í byggðum landsins, til að gefa þessu fólki aðstöðu til að geta framkvæmt þær kannanir sem læknir og það sjálft vill gera án þess að leita til hins opinbera. Ég held að það væru fyrstu viðbrögðin að bæta aðstöðu þessara manna, og fer ég persónulega ekki fram á meira til að byrja með.