09.02.1982
Sameinað þing: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2310 í B-deild Alþingistíðinda. (1953)

47. mál, ráðunautur í öryggis- og varnarmálum

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Við hv. þm. Benedikt Gröndal og Jóhann Einvarðsson höfum leyft okkur að flytja till. til þál. á þskj. 49, 47. mál þingsins, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að stofna sérstakt embætti ráðunauts ríkisstj. í öryggis- og varnarmálum hjá utanrrn.“

Till. sama efnis var flutt á síðasta þingi. Þá voru flm. þeir sömu að öðru leyti en því, að hv. þm. Benedikt Gröndal sat þá ekki á þinginu, en Jón Baldvin Hannibalsson var varamaður hans og skrifaði þá á þáltill. og var einn af flm.

Umr. um varnar- og öryggismál Íslands einkennast oft um of af tilfinningalegri afstöðu og lítilli þekkingu á þeim staðreyndum, sem móta og ráða stefnunni í þessum málum, og þeim ákvörðunum, sem teknar eru í varnar- og öryggismálum. Árum saman hafa hinir hernaðarlegu þættir, sem móta það ytra umhverfi sem Ísland býr við, verið á vitorði tiltölulega fárra. Stjórnvöld hafa lítt sinnt því að fræða þjóðina um staðreyndir þessara mála. Ein ástæða þess er vafalaust skortur á viðurkenndri innlendri sérfræðiþekkingu á þessum sviðum. Þessi skortur á innlendri sérfræðiþekkingu hefur líka leitt til ásakana þess efnis, að stjórnvöld séu í mati sínu á varnarhagsmunum Íslands á hverjum tíma um of háð mati erlendra manna á íslenskum hagsmunum. Það ætti því að vera augljóst áhuga- og hagsmunamál allra að Íslendingar ráði sjálfir yfir nægri þekkingu til að meta sjálfir þann hernaðarlega veruleika, sem landið er hluti af, og til þess að meta sjálfstætt þær upplýsingar og skoðanir sem aðrir kunna að gefa um og hafa á herfræðilegri stöðu Íslands og varnar- og öryggishagsmunum landsins. Slík herfræðiþekking innan stjórnkerfisins er í fyrsta lagi til þess fallin að treysta ákvarðanir stjórnvalda á þessum sviðum. Í öðru lagi mundi hún eyða tortryggni og ásökunum í garð þeirra sem með þessi mál fara.

Eins og allir vita er Alþb. eini stjórnmálaflokkurinn sem í orði kveðnu er á móti aðild að Atlantshafsbandalaginu og veru varnarliðsins hér á landi. Það er þó öllum ljóst, að Alþb. leggur samt sífellt minna upp úr þessum stefnumiðum sínum og minnist sjaldan á þau nema fyrir kosningar, þegar tryggja þarf flokksstuðning svokallaðra herstöðvaandstæðinga, við hátíðleg tækifæri á tyllidögum og þá sjaldan er utanríkismál ber á góma á Alþingi. Þessi þróun mála eða stefnuaðlögun Alþb. sést best á afstöðu Alþb. í stjórnarsáttmálum þeirra ríkisstjórna sem Alþb. hefur átt aðild að síðasta áratuginn. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar, sem kom til valda 1971, var tekið fram að stefnt væri að því, að varnarliðið færi í áföngum. Við stjórnarmyndun 1978 var tekið fram í stjórnarsáttmálanum að Alþb. hefði sérstöðu í þessum málum, en ekki var lengur minnst á brottför varnarliðsins. Og 1980, þegar ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens var mynduð, var ekkert minnst á sérstöðu Alþb. Þannig hefur þróunin orðið. Alþb. leggur sífellt minna upp úr þessu stefnuatriði.

Snemma á árinu 1979 var skipuð svokölluð öryggismálanefnd sem starfað hefur fram á þennan dag. Það er því eðlilegt að spurt sé, að þegar rætt er um ráðunaut í varnarmálum, hvort ekki sé nóg að gert þar sem störf öryggismálanefndarinnar eru. Í þessu sambandi þykir mér rétt að rifja upp ummæli hæstv. utanrrh. Ólafs Jóhannessonar þegar hann var forsrh. og flutti stefnuræðu sína hinn 19. oki. 1978. Þá fórust honum orð á þessa leið, með leyfi forseta:

„Þá er í samstarfsyfirlýsingunni ákvæði um skipan nefndar til athugunar á öryggismálum. Þar er um að ræða algert nýmæli og má vera að sumum þyki það allnýstárlegt. En þar er að mínum dómi á margan hátt um merkilegt mál að tefla. Það ákvæði er svohljóðandi:

Ríkisstj. mun beita sér fyrir því, að sett verði upp nefnd, þar sem allir þingflokkar eigi fulltrúa, og verði verkefni nefndarinnar að afla gagna og eiga viðræður við innlenda og erlenda aðila til undirbúnings álitsgerðum um öryggismál íslenska lýðveldisins. Nefndin geri ítarlega úttekt á öryggismálum þjóðarinnar, stöðu landsins í heimsátökum, valkostum um öryggisstefnu, núverandi skipan öryggismála og áhrif á íslenskt þjóðlíf svo og framtíð herstöðvanna, eftir að herliðið fer, og varnir gegn hópum hryðjuverkamanna. Nefndin fjalli einnig um hugmyndir um friðlýsingu, friðargæslu og eftirlit á Norður-Atlantshafi og láti semja yfirlit yfir skipan öryggismála smáríkja í heiminum, einkum eyríkja sem eiga svipaðra hagsmuna að gæfa og Íslendingar. Nefndin fái starfskrafta og fé til að sinna verkefnum sínum og til að gefa út álitsgerðir og greinargerðir um afmarkaða þætti í því skyni að stuðla að almennri umræðu.“

Í mörgum löndum starfa sjálfstæðar stofnanir sem fjalla á hlutlægan hátt um utanríkis- og öryggismál. Slík stofnun er okkur Íslendingum ofviða. En ég vil líta á þessa könnunarnefnd í öryggismálum sem vísi að hliðstæðri starfsemi hér“. — Hér lýkur tilvitnun í hæstv. utanrrh., í stefnuræðu sem hann flutti 19. oki. 1978 þegar hann var forsrh. Eins og kemur fram í tilvitnuninni er lögð áhersla á að nefndin sé könnunarnefnd, en ekki stjórnvald í þeim skilningi.

Öryggismálanefndin réð síðan á miðju ári 1979 starfsmann, Gunnar Gunnarsson, og hefur hann starfað fyrir nefndina síðan. Þá hafa fjórir aðrir fræðimenn en Gunnar unnið að einstökum verkefnum á vegum nefndarinnar. Í formála að GIUK-hliðinu, fyrsta riti öryggismálanefndarinnar, segir Björgvin Vilmundarson, formaður nefndarinnar, frá þeim verkefnum sem nefndin leggur aðaláherslu á og ég leyfi mér hér að vitna til, með leyfi forseta:

„1. Öflun bóka, tímarita, ritgerða og annarra fræðirita og gagna sem snerta viðfangsefni nefndarinnar. Þegar nefndin tók til starfa var slíkt safn bóka og skjala ekki til í landinu. Umfangsmikil gagnasöfnun var því frumforsenda árangursríks starfs.

2. Samningu rita og greinargerða um einstök atriði á verkefnaskrá nefndarinnar. Fyrsta ritið birtist nú, en á næstunni verða gefin út tvö til viðbótar. Nefndin hefur auk þess veitt stuðning ákveðnum rannsóknarverkefnum.

3. Kynningu á starfsemi nefndarinnar á erlendum vettvangi og öflun sambanda við fjölmargar rannsóknastofnanir og aðra aðila sem starfa að hliðstæðum verkefnum í öðrum löndum. Náin tengsl við erlenda fræðimenn eru mikilvægur stuðningur við störf íslenskra aðila á þessu sviði.

4. Umræðu um þau rannsóknarverkefni sem ákveðin verða sem næstu áfangar starfsins.

Þessir fjórir verkefnaflokkar veita grófa mynd af þeirri starfsemi sem farið hefur fram á vegum nefndarinnar á fyrstu tveimur árum starfstímans. Þeir bera þess merki, að hér er um brautryðjendastarf að ræða. Enginn íslenskur aðili hefur fyrr fengist við slík viðfangsefni á kerfisbundinn hátt. Því er eðlilegt að það hafi tekið nokkurn tíma að undirbúa ritið til útgáfu. Það er von öryggismálanefndar, að ritið, sem fyrst birtist, og önnur, sem á eftir munu koma, verði til að stuðla að aukinni þekkingu Íslendinga á þessu mikilvæga málefnasviði og skapa umræður um traustari grundvöll.“

Hér lýkur tilvitnuninni og enn á ný vil ég leggja áherslu á að í þessari tilvitnun má sjá að það er eðli og starfssvið nefndarinnar að fjalla um eða rannsaka og kanna og kynna málið. Má geta þess, að fyrsta ritið, um GIUK-hliðið, er mjög gott framlag nefndarinnar og í því er mjög vel, skýrt og greinilega, greint frá hernaðarlegu mikilvægi Íslands vegna legu landsins.

Í lok greinargerðar með þáltill. á þskj. 49 er greint frá því, hvernig hægt sé að skipa málum innan utanrrn. með tilliti til hins nýja embættis. Tillögumönnum er ekki fast í hendi hvernig sú skipan yrði, og er eðlilegt að hv. utanrmn. fjalli frekar um það mál ásamt hæstv. utanrrh. Í greinargerðinni er þó stungið upp á þeirri leið, að embættið falli beint undir hæstv. utanrrh. með sama hætti og varnarmáladeild gerir nú, en einnig má hugsa sér að embættið verði innan varnarmáladeildarinnar. Starfssvið embættisins væri að annast samskipti Íslands við Atlantshafsbandalagið og varnarliðið á sviði her- og öryggismála innan utanrrn. og að sjálfsögðu í fullri samvinnu við önnur stjórnvöld sem jafnframt annast þessi mál, auk þess sem varnarmálaráðunautur væri ríkisstj. til ráðuneytis um allt það sem snertir þjóðaröryggi og varnarmál landsins. Aðalatriðið er auðvitað að hæstv. utanrrh. komi verkaskiptingu á innan ráðuneytisins með þeim hætti sem eðlilegastur er talinn vera.

Varla þarf að minna hv. alþm. á 75. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta: „Sérhver vopnfær maður er skyldur að taka sjálfur þátt í vörnum landsins, eftir því sem nákvæmar kann að verða fyrir mælt í lögum.“

Eins og sést af þessum orðum stjórnarskrárinnar er sú skylda lögð á Íslendinga að verja landið, og getur löggjafinn ákveðið með hverjum hætti það skuli gert. Á þetta minni ég hér — ekki til að gefa í skyn að stofna eigi til íslensks hers, heldur þvert á móti til að benda á að þeim, sem sömdu stjórnarskrána, var vel ljóst að ein af frumskyldum þjóðarinnar er að verja landið, verja þjóðina vegna utanaðkomandi hættu, án þess að menn hefðu þó í huga almenna hervæðingu.

Í varnarmálum hljóta Íslendingar að hafa sérstöðu annars vegar vegna legu landsins og hins vegar vegna fámennis þjóðarinnar. Það er þess vegna tími til kominn að Íslendingar eigi sérfræðinga í þessum málum. Í því sambandi má gjarnan minna á hafréttarmálin, t. d. þátt Hans G. Andersens sem er sérfræðingur í þeim málum og hefur án efa gert landinu og þjóðinni gífurlegt gagn á alþjóðavettvangi við að gæta hagsmuna okkar. Ég efast um að nokkur Íslendingur hafi viljað vera án þeirrar sérþekkingar í hafréttarmálum sem við höfum í hafréttarfræðingum, og á sama hátt hlýtur að vera keppikefli okkar að eignast sjálfir sérfræðinga sem geta metið varnarþörf og varnarmöguleika þjóðarinnar.

Eins og ég nefndi áður í ræðu minni hefur afstaða Alþb. til þessara mála talsvert breyst að undanförnu og hafa talsmenn Alþb. hér á hv. Alþingi talað um þetta mál af meira raunsæi en áður. Í umr. utan dagskrár hinn 12. nóv. s. l. um utanríkis- og varnarmál flutti talsmaður Alþb., hv. 11. þm. Reykv., langa ræðu, sem reyndar var dæmalaus um margt, og ég ætla ekki að fara efnislega í þann misskilning, rangfærslur og dylgjur sem þar komu fram til að drepa á dreif umræðuefninu, en nefni til gamans hvernig hann blandaði umræðum um núllgrunn og sólsetursaðferð inn í það mál þannig að það varð forsíðuefni á Þjóðviljanum. Ég skal ekki frekar fjalla um það að sinni, enda hefur það verið gert áður og menn brosað að. Hér vil ég þvert á móti rifja upp nokkra ræðukafla, sem ég tel ástæðu til að leggja áherslu á vegna þess að í þeim kemur fram góður og gegn efnislegur stuðningur við þá þáltill. sem hér liggur frammi til umr. Hv. 11. þm. Reykv. sagði, með leyfi forseta:

„Það er ósköp skiljanlegt að við hér á Íslandi höfum ekki mikla þekkingu á þessum efnum. Við höfum ekki haft her. Við erum ekki hernaðarmenntuð þjóð. Öll þessi orð, SS-20, SS-4, SS-5, Poseidon, Polaris, Trident o. s. frv., eru nöfn sem við vitum ósköp litið hvað að baki liggur, nema það sem við lesum í dagblöðum. Staðreyndin er samt sem áður sú, að á rúmlega 20 árum hafa risaveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin, komið sér upp svo flóknu kerfi gereyðingarvopna að það þarf langan tíma til að setja sig inn í eðli þess og ógn. Það er kjarnorkuvopnakerfi, sem sérstaklega er tengt flugflota og þeim sprengjum sem flugvélum er ætlað að bera, það er kjarnorkuvopnakerfi, sem byggt er á eldflaugum sem skotið er af jörðu niðri, og í þriðja lagi kjarnorkuvopnakerfi sem tengt er kjarnorkukafbátum sem eru m. a. hér í hafinu kringum Ísland.

Síðar segir hv. 11. þm. Reykv:

„Íslenskir þingmenn t. d., sem taka þátt í samtökum Atlantshafsbandalagsins, sækja ekki fundi hermálanefndarinnar að öllu jöfnu. Þeir hafa látið hina herfræðilegu umræðu afskiptalausa, en það er sú umræða sem er kjarni málsins. Það er sú umræða sem gerir okkur kleift að meta það, hvers vegna við erum á móti SS-20, hvers vegna við erum á móti Pershing II og hvers vegna við erum á móti stýrieldflaugum.“

Hér mælir hv. þm. með því, að tekin sé virkari þáttur í þeirri starfsemi þingmannasambandsins sem snýr að hermálanefndinni, og er það vissulega nýmæli úr þessari átt. Í þessari ræðu sagði hv. 11. þm. Reykv. einnig, með leyfi forseta:

„Við ræðum oft hér um öryggismál á Íslandi út frá umræðugrundvelli sem fyrst og fremst er mótaður af seinni heimsstyrjöldinni. sá tími er því miður liðinn. Veröldin í dag er miklu flóknari. Það er miklu meira verk, það er miklu meiri vinna að setja sig inn í þau deilumál sem núverandi hernaðarumræða snýst um. Íslendingar mega ekki setja sig í þá stöðu að taka bara sem góða og gilda vöru þær áróðursplötur sem fulltrúar stórveldanna spila fyrir okkur um þessi efni, hvort sem það eru fulltrúar Bandaríkjanna eða Sovétríkjanna“.

Og loks vil ég vitna til þessara ummæla hv. þm.: „Það er nauðsynlegt fyrir okkur sem sjálfstætt ríki að gera okkur grein fyrir hvað hér er verið að tala um, að átta okkur á hinu sanna og rétta í þessu efni, vegna þess m. a. að við erum aðildarríki NATO og þar greiða fulltrúar Íslands atkvæði, við erum í Sameinuðu þjóðunum og þar greiða fulltrúar Íslands atkvæði, við erum kallaðir til að taka afstöðu. Það er lágmarkskrafa að við tökum þá afstöðu á grundvelli þekkingar.“

Hér lýkur tilvitnunum í kafla úr ræðu hv. 11. þm. Reykv. þar sem hann undirstrikar að íslenska sérþekkingu skorti á þessum málum. Tel ég að með þessum ummælum hafi hv. þm. í raun stutt efni þeirrar till. sem hér er til umr.

Það er ljóst að íslensk varnarmálastefna grundvallast á ákvörðunum, sem Íslendingar tóku á árunum 1949–1951, og grundvallast á aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningi Íslands við Bandaríkin.

Hæstv. utanrrh. í núv. ríkisstj. lagði fram sína skýrslu á síðasta þingi til umræðu eins og venja er, og þar kemur væntanlega fram afstaða hans og ríkisstj. til þessara mála, og án þess að ég vitni til þeirra ummæla, sem þar koma fram í IV. kafla um Atlantshafsbandalagið og öryggismál Íslands, vil ég taka það fram, að ég er því fyllilega sammála sem þar segir.

Margt hefur verið ritað um varnarmál og hafa hv. þm. ritað fjölda greina, en ég held að það skyggi á engan þótt nefndur sé einn þm. sérstaklega og það er hv. 4. þm. Reykv. Benedikt Gröndal, sem bæði hefur skrifað um þetta bók og skýrar greinar í blöð.

Á undanförnum árum hafa nokkrar umræður orðið um þessi mál. Segja má að síðasta merka framlagið til þessara mála hafi verið þegar Kjartan Gunnarsson lögfræðingur flutti merka ræðu um íslenskt frumkvæði í öryggismálum sem mjög styður þá till. sem hér liggur fyrir til umr. Kjartan er lögfræðingur sem stundaði nám við varnarmálaháskóla norska varnarmálaráðuneytisins 1979–1980. Ég tel að það sé gagnlegt fyrir þessar umræður að vitnað sé til örfárra ummæla sem koma fram í ræðu Kjartans Gunnarssonar sem reyndar hefur birst í Morgunblaðinu.

Eftir að hafa gert grein fyrir meginmarkmiðum íslenskrar varnarmálastefnu og hugsanlegri ógn, sem steðjar að okkur, segir Kjartan svo, með leyfi forseta:

„Ísland verður ekki fremur en önnur lönd skilið frá þeim stjórnmálalega, herfræðilega og landfræðilega veruleika sem það er í. Það er staðreynd, að átök eða barátta fer fram í heiminum milli tveggja meginhugmyndakerfa, alræðis og lýðræðis. Risar þessarar baráttu eru Bandaríkin og Ráðstjórnarríkin og í stórum dráttum snýst baráttan af hálfu lýðræðissinna um tvennt: annars vegar að tryggja frelsi Vestur-Evrópu og annarra lýðræðisríkja og hins vegar að takmarka eins og unnt er möguleika alræðisríkjanna til áhrifa í þriðja heiminum svokallaða.“

Síðan ræðir Kjartan um hernaðarlegt mikilvægi landsins og þær hindranir sem eru á vegi hugsanlegra árásaraðila. Hann bendir á, hve landið hefur verið opið fyrir sovétborgurum, og segir í því sambandi að 80 sovétborgarar séu hér í starfi á vegum sendiráðsins. Í því sambandi væri ástæða til að geta þess, að nú er til meðferðar hjá hv. Alþingi frv. til l. um atvinnuréttindi útlendinga þar sem segir að ekki þurfi að sækja um atvinnuleyfi fyrir útlendinga í einkaþjónustu sendimanna erlendra ríkja. Nefni ég það til umhugsunar fyrir stjórnvöld.

Í öðru lagi bendir Kjartan á að rússneskir rannsóknarleiðangrar hafi farið um landið og skilað mjög litlu af þeim niðurstöðum sem þeim ber skylda til að skila. Má í því sambandi rifja það upp, að Rannsóknarráð ríkisins sá sig knúið til á sínum tíma að koma í veg fyrir frekari rannsóknarleiðangra frá Sovétríkjunum vegna þess hve seint og illa gekk að fá niðurstöður þeirra leiðangra.

Í þriðja lagi rifjar Kjartan það upp, að Ráðstjórnarríkin hafa sóst eftir föstum formlegum tvíhliða „samráðsviðræðum“ um alþjóðamál, en ekki hefur verið orðið við þeirri beiðni af Íslands hálfu.

Þá ræðir Kjartan í ræðu sinni um frumkvæði okkar og skyldur og segir þar m. a., með leyfi forseta:

„Það er skylda okkar Íslendinga við sjálfa sig og vinaþjóðir sínar að taka varnar- og öryggismál sín margfalt fastari tökum en við höfum gert og láta okkur ekki lengur nægja að vera eingöngu eins konar áheyrandaaðilar hjá Atlantshafsbandalaginu. Afstaða okkar til varnarliðsins á ekki að ráðast fyrst og fremst af því, og þá á ég við afstöðu okkar sem styðjum landvarnar, að aðalatriðið sé bara að hafa Kanann hér, eins og sumir orða það, og láta Bandaríkjamönnum eftir allt frumkvæði í öryggismálum okkar og tala með hræsnisfullri fyrirlitningu um hernaðarbrölt og vopnakapphlaup rétt eins og það snerti okkur ekki.“

Og síðar segir Kjartan, með leyfi forseta:

„Ég tel að við Íslendingar eigum að gera okkar eigin tillögur um varnir landsins. Við eigum sjálfir að meta varnarþörfina og við eigum sjálfir að meta fyrirkomulag varnanna í samvinnu við bandalagsþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu og sérstakri samvinnu við þann aðila sem hefur tekið að sér samkvæmt sérstökum samningi frumvarnir landsins.“

Í ræðu Kjartans komu fram athyglisverð sjónarmið um svokallaðar allsherjarvarnir og þar segir hann, með leyfi forseta:

„Ef litið er á uppbyggingu varnar- og öryggismála á Norðurlöndum kemur í ljós að bæði í NATO-löndunum tveimur, Noregi og Danmörku, og í hlutlausu löndunum tveimur, Svíþjóð og Finnlandi, eru varnir þessara landa byggðar á svokölluðu „total forsvars-prinsipi“ eða allsherjarvörnum, eins og ég hef kosið að kalla þetta kerfi. innan allsherjarvarnakerfisins er gerð ein samræmd áætlun um viðbrögð, samvinnu og verkefna allra aðila í ríkinu, hers, almannavarna, atvinnulífs, skóla, sjónvarps, blaða, heimila, og yfirleitt fyrir fram reynt að gera sér grein fyrir hverjum einasta þætti, sem reynt getur á, og þannig fyrir fram reynt að lágmarka möguleikana á mistökum, röngum ákvörðunum og tortímingu mannslífa að óþörfu.“

Þessi ummæli Kjartans Gunnarssonar rifja upp samkomulag milli Íslands og Bandaríkjanna varðandi varnarsamninginn frá 1951 frá 22. okt. 1974, en í bókun með því samkomulagi segir í e-lið, með leyfi forseta:

„Báðar ríkisstjórnirnar“ þ. e. ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna — „munu athuga leiðir til þess að efla samvinnu milli varnarliðsins annars vegar og íslensku landhelgisgæslunnar, almannavarna og flugmálastjórnarinnar hins vegar.“

Á þetta minni ég hér vegna þess að ég hef ekki orðið var við að til slíks samstarfs hafi verið stofnað, en sé svo væri fróðlegt að fá það upplýst ef einhver hv. þm. gæti gert það.

Kjartan fjallar um frumkvæði Íslendinga og tiltekur nokkur verkefni og segir síðan, með leyfi forseta:

„Og í lok þessa þáttar er rétt að geta þess, að sjálf staðsetning höfuðstöðva varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli í næsta nágrenni við mesta þéttbýlissvæði landsins er auðvitað eitt af því allra fyrsta sem íslensk rannsókn á vörnum landsins og fyrirkomulagi þeirra taki til athugunar. Hér skal ekki fullyrt um niðurstöður slíkrar rannsóknar, en hún gæti auðveldlega leitt í ljós að flytja bæri höfuðstöðvar varnarliðsins frá núverandi stað.“

Síðar í ræðunni, þegar Kjartan dregur saman stærstu atriðin í ræðu sinni, segir hann, með leyfi forseta: „Hin aukna þátttaka Íslendinga í vörnum landsins er að mínum dómi fyrst og fremst fólgin í breyttu og auknu pólitísku og stjórnunarlegu frumkvæði og afskiptum af fyrirkomulagi varnanna og aukinni þátttöku Íslendinga í starfi Atlantshafsbandalagsins. Þar með talið tel ég að Íslendingar eigi að taka sæti í hermálanefnd Bandalagsins og fylgjast ekki síður með hinum hernaðarlegu þáttum í starfi þess heldur en með þeim hinum pólitísku þáttum í starfi þess.“

Ég vek athygli á því, að það, sem Kjartan segir hér, fer nákvæmlega saman við ummæli hv. 11. þm. Reykv. í utandagskrárumr. hinn 12. nóv. í vetur, þegar hann nánast mæltist til þess, að íslenskir þm. tækju starf í hermálanefnd Þingmannasamtaka Atlantshafsbandalagsríkja, sem auðvitað ber að skýra með þeim hætti, að það sé mikilvægt starf sem þar fer fram, og á sama hátt hlýtur það að vera skoðun hv. þm. að Íslendingar eigi að sinna þeim störfum hjá Atlantshafsbandalaginu sem snúa að hermálanefndinni og því starfi sem fer fram í Mons í Belgíu. Tek ég það svo, að hann sé á þeirri skoðun.

Í lok ræðu sinnar segir Kjartan, með leyfi forseta: „Þeir, sem hafa markað stefnu Íslands í utanríkis- og varnarmálum, hafa ávallt haft að markmiði að tryggja að Íslendingar fái að lífa á Íslandi án afskipta eða yfirgangs annarra. Á nýjum og breyttum tímum þarf nýjar og breyttar starfsaðferðir til þess að tryggja að þessi markmið náist. Ábyrgðin og frumkvæðið í öryggismálum þjóðarinnar hlýtur og verður ávallt að vera í höndum hennar sjálfrar. Þar er um slíkt fjöregg að ræða að það er aldrei hægt að fela erlendum mönnum til ákvörðunar og mats, en án þekkingar, frumkvæðisvilja og óttaleysis við að viðurkenna staðreyndir stjórnmálalegs og herfræðilegs umhverfis verður öryggisins aldrei gætt sem skyldi.“

Ef draga á saman aðalatriðin í því, sem ég hef sagt í minni ræðu, tel ég að það hafi unnist í umræðum á síðustu árum að nú er rætt um utanríkis- og varnarmál þjóðarinnar af meiri þekkingu og rökum í stað þess tilfinningahita og trúar sem einkenndu slíkar umræður fyrir nokkrum árum. Í öðru lagi er breyting til batnaðar í íslenskum stjórnmálum sú stefnuaðlögun Alþb. sem orðið hefur með tilliti til aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu og dvalar erlends varnarliðs í landinu.

Í þriðja lagi hef ég bent á muninn á starfssviði embættis ráðunauts í varnarmálum, sem verður stjórnvald og hins vegar öryggismálanefndarinnar, sem er könnunarnefnd tilnefnd af þingflokkum. Í fjórða lagi hef ég undirstrikað að hér er ekki verið að undirbúa stofnun íslensks hers, heldur er verið að tryggja íslenska hagsmuni, ýta undir íslenskt frumkvæði í mikilvægum þætti sjálfstæðismála þjóðarinnar. Og loks hef ég bent á nokkur atriði, sem verið hafa til umræðu á þessu sviði að undanförnu, og vitnað í því sambandi sérstaklega til erindis Kjartans Gunnarssonar.

Herra forseti. Ég hef reynt að sneiða hjá ágreiningsefnum í varnarmálum og fremur bent á það sem sameinar okkur Íslendinga í þessum málum. Ég fæ ekki betur séð en að tillaga um stofnun embættis ráðunauts í varnarmálum hljóti að eiga verulegt fylgi á hv. Alþingi. Ég fagna því að sjálfsögðu, ef hér koma fram í umr. jákvæðar tillögur um betri skipan, og leyfi mér að lokum að fara fram á að málinu verið vísað til hv. utanrmn.