09.02.1982
Sameinað þing: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2317 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

47. mál, ráðunautur í öryggis- og varnarmálum

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. 1. flm. þessarar till. vék að ýmsum umræðuefnum í sinni framsöguræðu og varði allmiklum tíma hennar til þess að gera að umræðuefni stefnuræðu framkvæmdastjóra Sjálfstfl. sem flutt var fyrir nokkrum dögum. Þessi aðferð við að mæla fyrir þessu máli gerir óhjákvæmilegt að í þessum umr. verði vikið nokkuð að víðtækari umfjöllun um íslensk utanríkismál en ástæða hefði verið til ef menn hefðu eingöngu haldið sér við þá till. sem hér liggur fyrir.

Alþb. hefur á undanförnum árum og lengi lagt á það ríka áherslu að það væri ekki samboðið sjálfstæðri þjóð að Íslendingar tækju við skoðunum og ákvörðunum í hernaðarmálefnum frá Bandaríkjunum og Atlantshafsbandalaginu án þess að leggja nokkurt sjálfstætt mat á þessi efni. Það er einn svartasti bletturinn á meðferð íslenskra utanríkismála á undanförnum áratugum að Íslendingar hafa ekki sjálfir haft burði til þess að meta á sjálfstæðan hátt þær tillögur, þær framkvæmdir og þær ákvarðanir sem Bandaríkjastjórn og Atlantshafsbandalagið hafa staðið að varðandi hernaðarþróun á Norður-Atlantshafi.

Það eru rúm 30 ár síðan Íslendingar gengu í Atlantshafsbandalagið, og það er álíka langur tími síðan gerður var samningur við Bandaríkin um að þau hefðu hér her. Á þessum tíma, sérstaklega á síðustu tveimur áratugum, hafa verið teknar mjög afdrifaríkar ákvarðanir um tengsl Íslands við kjarnorkuvopnakerfi Bandaríkjanna. Stig af stigi hefur hernaðaraðstaðan hér verið á s. l. 20 árum svo úr garði gerð að Ísland er nú orðið lykilhlekkur í kjarnorkuvígbúnaðarkerfi Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins, en þó sérstaklega Bandaríkjanna.

Það er vissulega virðingarverð hreinskilni hjá stuðningsmönnum Atlantshafsbandalagsins — og það eru þm. úr öllum þremur flokkunum sem styðja aðildina að Atlantshafsbandalaginu sem standa að þessari till. — að viðurkenna með þessum tillöguflutningi og sérstaklega með þeirri grg. sem hér er flutt, að innan íslenska stjórnkerfisins, í utanríkisþjónustu Íslendinga og í utanrrn., hafi ekki verið og sé ekki til einn einasti maður sem hefur fullgilda sérfræðiþekkingu á þessum málum. Meginröksemdin fyrir þeirri till., sem hér er flutt — eins og bæði kemur fram í till. sjálfri og grg. fyrir henni og ekki síður í þeirri framsöguræðu sem hér hefur verið flutt, er sú játning að eftir 30 ára aðild að Atlantshafsbandalaginu, eftir 30 ára herverndarsamning Bandaríkjanna, standi Íslendingar frammi fyrir því, að á þeim vettvangi stjórnkerfisins, þar sem um þessi mál er fjallað, sé enginn Íslendingur, sem hafi nægilega þekkingu á þessum málum, og þess vegna sé nauðsynlegt að stofna sérstakt embætti ráðunauts ríkisstj. í þessum efnum.

Ég fagna því sérstaklega að fulltrúar NATO-flokkanna skuli hafa manndóm og hreinskilni til að játa að þessi þekkingarskortur sé innan íslenska utanrrn. og þeir utanrrh., sem hafa tekið ákvarðanir um að flétta Ísland stig af stigi inn í kjarnorkuvígbúnaðarkerfi Bandaríkjanna, hafa ekki haft neinn fullgildan innlendan sérfræðing sér við hlið. Það er vissulega alvarleg lýsing á því, með hvaða hætti ákvarðanir eru teknar hjá sjálfstæðri þjóð, en ég hygg að hún sé engu að síður sönn.

Það er rétt, eins og 1. flm. vék að í framsöguræðu sinni, að þegar unnið var að myndun ríkisstjórnar eftir kosningarnar 1978 áttu fulltrúar Alþb. og Alþfl. í þeim viðræðum frumkvæði að því, að hér í landinu væri stofnað til starfsemi sem hefði það markmið, að Íslendingar öfluðu sér þeirrar þekkingar, öfluðu sér þeirra gagna, öfluðu sér þeirrar greinargerðar sem þyrfti til þess að við gætum metið vígbúnaðarstarfsemina sem fer fram í landinu, vígbúnaðinn í kringum landið og í heiminum öllum á sjálfstæðan hátt — eða m. ö. o. til þess að við gætum verið fullgilt, sjálfstætt ríki í heiminum í þessum efnum. Þegar hv. þm. Benedikt Gröndal vann að myndun ríkisstjórnar sinnar sumarið 1978 lagði hann fram drög að stjórnarsáttmála þar sem þessar hugmyndir, sem fram höfðu komið frá fulltrúum Alþfl. og Alþb. í þessum viðræðum, voru orðaðar, og ég held að það sé engin uppljóstrun þó að ég skýri frá því, að það orðalag var síðan með ákveðnum breytingum uppistaðan í þeirri yfirlýsingu sem fólst í málefnasamningi ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar sem mynduð var síðar sama sumar.

Þegar öryggismálanefndin tók til starfa kom því miður í ljós að í landinu var ekki til grundvallarbóka- og gagnakostur sem þurfti til þess að semja einföldustu ritgerðir um hernaðarmálefni á Norður-Atlantshafi, um kjarnorkuvígbúnaðarkerfi risaveldanna og um tengsl Íslands við þetta kerfi — hvorki í bókasafni utanrrn., í Landsbókasafni né í Háskólabókasafni voru til grundvallarrit sem þurfti til slíkrar starfsemi. Það kom þá á daginn að það þurfti að vinna þetta starf atgerlega frá grunni þar sem þeir aðilar, sem í 30 ár höfðu borið ábyrgð á aðild Íslands að Atlandshafsbandalaginu og tekið þátt í margs konar samningum og viðræðum við ríkisstjórn Bandaríkjanna um þá hernaðarstarfsemi sem hún vildi festa hér í sessi, þeir höfðu vanrækt þann þátt að gera opinber söfn í landinu og skjalasafn og bókakost þess rn., sem með þessi mál fer, þannig úr garði að hægt væri að vinna sjálfstæðar greinargerðir af hálfu Íslendinga um þessi efni. Það tók öryggismálnefnd tæpt ár, fyrst undir forustu Einars Ágústssonar, fyrrv. utanrrh., sem hafði eftir reynslu sína í rn. mikinn skilning á hinni brýnu þörf þess, að Íslendingar bættu úr þessum alvarlega ágalla í sinni stjórnsýslu, og síðan undir forustu Björgvins Vilmundarsonar bankastjóra, að afla þessara gagna. Það er nú fyrst eftir að öryggismálanefndin hefur starfað í rúm tvö ár að hægt er að segja að í landinu sé til sá grundvallargagnakostur sem þarf til þess að Íslendingar geti tekið þessi mál til sjálfstæðrar yfirvegunar.

Sú játning, sem kemur fram í þessum tillöguflutningi, að Íslendinga, stjórnvöld landsins í áratugi, hafi skort alla nauðsynlega sérfræðikunnáttu á þessu sviði, er mjög alvarleg þó að ég fagni henni og Alþb. fagni því, að hún skuli hér vera komin fram með þessum tillöguflutningi, vegna þess að á þessum sama tíma hafa verið teknar ákvarðanir — af þeim sem farið hafa með stjórn utanríkismála — sem stig af stigi hafa tengt Ísland við kjarnorkuvopnakerfið, fyrst með því að byggja hér á landi SOSUS-stöðvar, sem gegna lykilhlutverki í kjarnorkukafbátakerfinu á Norður-Atlantshafi, síðan með tilkomu Orion-flugvéla, með starfsemi ratsjárstöðva, með tilkomu AWACS-flugvéla og annarra atriða sem hér hafa verið rekin í þingsölum áður. Ég spyr: Hefur það einhvern tíma verið lagt fyrir íslenska ríkisstjórn að Ísland eigi að tengjast kjarnorkuvopnakerfi Bandaríkjanna á þennan hátt? Hefur einhvern tíma verið tekin sú grundvallarákvörðun af íslensku stjórnvaldi að við eigum að verða hluti af kjarnorkuherafla Bandaríkjanna? Ég ber þessa spurningu fram hér, og ég vænti þess, að henni verði svarað nú eða síðar. Alþingi Íslendinga hefur a. m. k. aldrei verið spurt um þetta efni.

Það var lagður hér fyrir þingið á sínum tíma samningur sem kallaður var varnarsamningur við Bandaríkin, og í honum er fjallað um ákveðið samkomulag sem gert var milli Íslands og Bandaríkjanna. Rökstuðningurinn fyrir þeim samningi á þeim tíma átti alls ekkert skylt við það að tengja Ísland við kjarnorkuvígbúnaðarkerfi Bandaríkjanna. Þar var fyrst og fremst vikið að siglingaleiðum ofansjávar og landfræðilegri legu Íslands í tengslum við þær. En síðan um og upp úr 1960, hefst stig af stigi sú þróun að tengja Ístand með tæknilegri aðstöðu Bandaríkjahers hér á landi — eftir tilkomu sjóhersins — við kjarnorkuvígbúnaðarkerfið. Það eru einmitt þessi tengsl við kjarnorkuvígbúnaðarkerfi Bandaríkjanna sem hefur verið haldið leyndum fyrir íslenskri þjóð. Það er fyrst nú á síðustu tveimur árum sem komist hefur á hér á Alþingi og annars staðar byrjunarumræða um þetta efni — en það er aðeins byrjunarumræða. Ég hef a. m. k. gaman af að fá fram á vettvang opinberrar umræðu á Íslandi þá utanrrh. — og það vill svo til að þeir eru allir á lífi — sem hafa borið ábyrgð á utanríkismálum Íslands á þessu tímabili, þá Guðmund Í. Guðmundsson, Emil Jónsson, Einar Ágústsson og Ólaf Jóhannesson, — þó að flestar þessar ákvarðanir, ef ekki allar, hafi verið teknar fyrir hans tíð sem utanrrh., svo að það er út af fyrir sig ekki rétt að hafa hann með í þessari upptalningu, en hina alla þrjá, — og sjá hver þeirra er reiðubúinn til þess að standa frammi fyrir íslensku þjóðinni og segja: Það var ég sem tók ákvörðunina um að byrja á því að tengja Ísland við kjarnorkuvopnakerfi Bandaríkjanna og gera þar með íslensku þjóðina að aðalfórnarlambi í kjarnorkuvopnaátökum ef til þeirra kemur. Það er meginniðurstaða þess rits, sem öryggismálanefnd hefur nú þegar gefið út, 1. flm. fór um góðum orðum og framkvæmdastjóri Sjálfstfl. hefur farið um góðum orðum, að sá tæknibúnaður, sem hér er, ekki hinn landfræðilega lega, heldur sá tæknibúnaður sem hér er, í SOSUS-stöðvarnar, ratsjávarstöðvarnar, Orion-flugvélarnar og AWACS-flugvélarnar, allt þetta geri Ísland að frumskotmarki á fyrstu klukkustundum kjarnorkuvopnastyrjaldar.

Þess vegna spyr ég: Eru þessir sömu menn, sem á síðustu tveimur áratugum báru ábyrgð á ákvarðanatökunni stig af stigi um þennan tæknibúnað, reiðubúnir til umræðu um hvort ekki sé rétt — sem liggur beinast við að álykta — að með þessum ákvörðunum hafi aukist hættan á árásum á landið? Við getum deilt um hvort menn eigi að vera í Atlantshafsbandalaginu eða ekki. Við getum deilt um hvort það hafi átt að gera þennan samning við Bandaríkin 1951. Um það getum við allt saman deilt. En ég er hér eingöngu að tala um hvort þær ákvarðanir, sem teknar hafa verið frá 1960 og síðan, hafa aukið hættuna á árásum á landið eða dregið úr henni.

Ég er þeirrar skoðunar og ég tel að það sé hægt að styðja hana mjög ítarlegum, herfræðilegum rökum, að allar þessar ákvarðanir hafi stóraukið hættuna á árásum á Ísland og þar með veikt varnir landsins. Þetta er hin mikla mótsögn sem forsvarsmenn og verjendur þessarar stefnu standa frammi fyrir að verja gagnvart sjálfum sér og þjóðinni, þ. e. að röð þessara ákvarðana á síðustu tveimur áratugum hafi dregið úr öryggi Íslendinga, hafi gagnstætt því, sem til var ætlast, gert Ísland að tryggu fórnarlambi á fyrstu klukkustundum kjarnorkustyrjaldar. Menn geta síðan haldið því fram, eins og sumir gera á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, að allur þessi vígbúnaður sé til þess að koma í veg fyrir að kjarnorkustyrjöld eigi sér stað. Þær röksemdir þekkjum við allar. En það hefur enginn íslenskur ráðherra, það hefur enginn íslenskur þingmaður komið til íslensku þjóðarinnar á öllu þessu tímabili opinberlega og sagt: Ég tel nauðsynlegt að Íslendingar tengist kjarnorkuvígbúnaðarkerfi Bandaríkjanna til að tryggja öryggi landsins. — Það hefur enginn sagt. Það hefur enginn þorað að segja. Það hefur enginn þorað að koma fram og segja: Það er ég sem ber ábyrgðina á því að tengja Ísland við kjarnorkuvopnakerfi Bandaríkjanna.

Við höfum lifað það hér á undanförnum árum að Bandaríkjamenn sækja mjög grimmt á í því að stórauka þann vígbúnað hér á landi sem fyrst og fremst er ætlað að þjóna kjarnorkuvopnakerfinu eða gagnkafbátahernaðinum á Norður-Atlantshafi. Við lesum um að þegar hafi verið gerðir samningar í Bandaríkjunum við vígbúnaðarverksmiðjur og fyrirtæki um að framleiða stýrieldflaugar sem á að setja í kafbáta og reyndar á flugmóðurskip sem á síðan að staðsetja í höfunum í kringum okkur. Það hafa þegar verið gerðir samningar við Westinghouse-fyrirtækið í Bandaríkjunum um að framleiða stýrieldflaugar — sömu eldflaugarnar og deilt er um á meginlandi Evrópu — til þess að staðsetja upp úr miðjum þessum áratug í kafbátum. Síðan á einnig að taka flugvélamóðurskip, ryðja burt af þeim allri yfirbyggingunni, setja þessar stýrieldflaugar á þessi sömu skip, halda þeim síðan úti á hafinu í kringum Ísland og láta þá þjónustuaðstöðu og þá tækniaðstöðu, sem hér verður fyrir hendi, styðja þetta kerfi. Tækniaðstaðan á Íslandi, SOSUS-kerfið, flugvélategundirnar og reyndar eldsneytisbirgðirnar, er til þess ætluð að gera það kleift að halda þessum kjarnorkukafbátaflota og flugvélamóðurskipaflota búnum stýrieldflaugum úti á hafinu kringum Ísland. Fyrir þessum umræðum fer mjög lítið. Ég veit t. d. ekki til þess, að það hafi komið fram hér í íslenskum fjölmiðlum að þessi samningur við Westinghouse-fyrirtækið í Bandaríkjunum hafi þegar verið gerður, og það hefur ekki komið fram mér vitanlega á vettvangi íslenskra stjórnvalda að við þyrftum að taka afstöðu til þessara efna.

Þannig má lengi ræða, herra forseti, um þörfina á að Íslendingar meti á sjálfstæðan hátt öll þessi mál. Og það væri kannske nauðsynlegra vegna þess — eins og hv. flm. vék að — að þetta mál hefur verið eitt mesta hita- og deilumál í sögu íslensku þjóðarinnar á þessari öld og fyrst og fremst það mál sem skipt hefur þjóðinni í tvær fylkingar. Það er fátt sem er hættulegra smáþjóð — jafnvel þótt stærri væri en íslenska þjóðin — en alvarlegur grundvallarklofningur í afstöðunni til utanríkismála sinna. Þess vegna er ég alveg sammála um að það eigi að búa þannig að íslenskum stjórnvöldum, að þar séu innan dyra menn sem hlotið hafa sérfræðimenntun í þessum efnum, menn sem þjálfaðir hafa verið í rannsóknastarfsemi í vígbúnaðarumræðunni og þeirri umræðu sem tengd er við friðarmálefni almennt. Ég hef lýst yfir áður hér á Alþingi og get endurtekið það, að ég telji eðlilegt að innan utanrrn. séu starfandi menn sem eru sérþjálfaðir sem sjálfstæðir rannsakendur í þessum flóknu umræðum um vígbúnað og friðarrannsóknir. Það vill svo til að það svið er eitt af erfiðustu sviðum þeirra fræðigreina sem fást við þjóðfélagsleg málefni, og það er þess vegna mjög mikið vandaverk að velja menn til þeirra starfa og vandasamt fyrir þá sjálfa að rækja störf sín svo að vel sé. Þess vegna tel ég að til slíkra manna verði að gera þær kröfur að þeir hafi hlotið fullgilda háskólamenntun og rannsóknaþjálfun í þeim fræðigreinum sem við þessi mál eru kennd. Þá á ég ekki bara við að þeir hafi stundað rannsóknir — eins og sumir gera í þessum fræðigreinum — út frá þeirri forsendu hvernig beri að efla vígbúnaðinn, heldur eigi þeir ekki síður að vera þjálfaðir í þeim fræðigreinum sem mjög hafa verið stundaðar á síðustu 10–20 árum í okkar heimshluta og kenndar eru við friðarrannsóknir, þ. e. hvernig menn geti beitt þekkingu sinni til að leiða rök að því, með hvaða hætti sé best og hagkvæmast að varðveita friðinn.

Það er til mikill fjöldi rannsóknastofnana í þessum greinum. Sumar þeirra eru nokkuð einhliða á bandi vígbúnaðarsinna. Öðrum er beitt á mjög gagnrýninn hátt gegn vígbúnaðinum. Þær þriðju reyna kannske að fara bil beggja og stunda rannsóknir af ýmsu tagi. Vegna þess, hve mjög fjölþættar skoðanir eru uppi í þessum efnum og hve ólíkar rannsóknahefðir og rannsóknaáherslur eru ráðandi á þessu sviði, tel ég ekki heppilega aðferð að við förum að stofna sérstakt embætti ráðunauts sem eigi að starfa eftir þeim leiðum sem er lýst í grg. Þar er farin sú leið að leggja þær skyldur á herðar þessa ráðunauts að hann sé ekki aðeins rannsakandi og fræðimaður á þessu sviði, heldur eigi hann einnig að taka virkan þátt í ákvarðanatökunni sjálfri, og það sem meira er: vera fulltrúi Íslands gagnvart Atlantshafsbandalaginu. Hér stendur í lok grg.: „Embættið mundi annast öll samskipti Íslands við Atlantshafsbandalagið og varnarliðið á sviði hermála og öryggismála innan utanrrn.“— hvorki meira né minna. Þetta nýja embætti á að yfirtaka störf sendiráðsins í Brussel og fastanefndar Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu og einnig öll störf varnarmáladeildar ráðuneytisins. Þarna held ég að sé verið að rugla saman tveimur — að vísu ekki algerlega óskyldum en í framkvæmd mjög ólíkum þáttum, og þessi ruglingur getur leitt til þess, að slíkt embætti, sem þannig væri fyrir komið, yrði ekki til þess að leggja traustari grundvöll þekkingar og heilbrigðrar umræðu að þeirri ákvarðanatöku sem hér þarf að fara fram í landinu.

Ég held að það sé eðlilegt, að hinir eiginlegu embættismenn utanrrn. annist áfram — eins og þeir hafa gert — þá starfsemi sem Ísland rekur í Brussel og hjá Atlantshafsbandalaginu, og jafnframt, að hinir eiginlegu embættismenn rn. annist áfram — vonandi ekki mjög lengi — þau samskipti sem Íslendingar þurfa að eiga við bandaríska herinn hér á landi. Hins vegar held ég að nauðsynlegt sé að sá aðili innan utanrrn., sem er ætlað að vera hinn fræðilegi þekkingaraðili í hinni flóknu herfræðilegu umræðu, eigi ekki að hafa neitt annað verkefni. Hann á ekki að vera stjórnsýslulegur starfsmaður. Hann á ekki að taka þátt í daglegri stjórnsýslulegri skriffinnsku og skýrslugjöf í tengslum við dagleg samskipti við bandaríska herinn eða daglegum embættisrekstri í Brussel. Það verkefni eitt og sér að annast hina fræðilegu þekkingaröflun og greinargerðir um það efni þar sem byrja þarf nánast frá grunnpunkti innan rn., er eitt og sér alveg nægilegt. Ef það væri lagt á herðar sama mannsins að vera einnig ábyrgur fyrir framkvæmd ákvarðana og annast öll samskipti við Atlantshafsbandalagið og bandaríska herinn, þá efast ég um að það finnist nokkur maður sem gæti gegnt þessu tvíþætta hlutverki svo að vel sé, vegna þess að ég held að kerfislega gangi það ekki upp. Þess vegna finnst mér orðalagið á þessari till. og hluti þeirrar hugsunar, sem þar kemur fram, ekki vera rétt.

Ég er sammála því, að ráðnir verði starfsmenn til utanrrn. sem hlotið hafa sérfræðilega þjálfun á sviði öryggis- og friðarrannsókna. Ég hef verið þeirrar skoðunar og ég er enn þeirrar skoðunar. En ég tel að það eigi ekki að fara að gera slíka starfsmenn embættislega ábyrga fyrir hinni almennu stjórnsýslu rn. gagnvart Atlantshafsbandalaginu eða bandaríska hernum. Einkum og sér í lagi held ég, þegar öryggismálanefnd hefur nú þegar sannað starfsgrundvöll sinn og sýnt með því riti, sem hér hefur komið út, að hún rís undir því að leggja fram sérfræðilegar greinargerðir um þessi efni, og innan vébanda hennar er nú þegar að finna þá Íslendinga, sem hlotið hafa mesta fræðilega þjálfun á þessu sviði, og innan hennar veggja er einnig sá ítarlegasti bóka- og greinargerðakostur, sem fyrir hendi er í landinu, þá eigi að fara þær leiðir í þessum efnum sem byggjast í fyrsta lagi á því, að störf öryggismálanefndar sem sjálfstæðs rannsóknaraðila í þessum efnum séu áfram efld, í öðru lagi, að ráðnir séu til starfa í rn. menn sem hlotið hafa mjög góða þjálfun á háskólastigi í fræðilegri umfjöllun og rannsóknum á þessu sviði, en síðan í þriðja lagi eigi hinir hefðbundnu embættismenn rn. að annast áfram verulegan hluta þeirra starfa, sem þeir hafa annast til þessa, og ekki að fela þessu sérstaka embætti að gera það. Ég gæti þess vegna stutt till. sem fæli í sér þá grunnhugsun, að Alþingi beindi því til ríkisstj. að ráðnir yrðu sérfræðistarfskraftar á þessum sviðum til starfa innan utanrrn. En ég er algerlega andvígur því, að það verði farið að stofna sérstakt embætti með þeim hætti, sem hér er lýst í grg. hvernig eigi að vera. Ég bið flm. þessarar till. að hugleiða nú í alvöru hvort sú aðferð gangi ekki í reynd, þegar að er gáð, þvert á hluta af þeirri grunnhugsun sem komið hefur fram hjá ýmsum þeim sem að þessari till. standa.

Það væri vissulega ástæða til þess, herra forseti, að gefa sér hér nokkuð góðan tíma til að fjalla nánar um þá viðurkenningu, sem í þessum tillöguflutningi felst, á þekkingarskorti Íslendinga í þessum efnum, — þekkingarskorti sem engu að síður hefur þó leitt íslenska ráðh. til þess að taka örlagaríkustu ákvarðanir sem íslenskir ráðherrar hafa tekið. Ég tel að þær ákvarðanir, sem leiddu til tengingar Íslands við kjarnorkuvígbúnaðarkerfi Bandaríkjanna, séu meðal örlagaríkustu ákvarðana sem íslensk stjórnvöld hafi tekið, vegna þess að það eru ákvarðanir sem kunna á þeim fáeinu klukkustundum, þar sem óvissa og átök risaveldanna réðu örlögum jarðarbúa, að leiða til þess, að Íslandi væri tortímt frekar en því væri hlíft. Það eru ákvarðanir, þegar grannt er skoðað, sem hafa grafið undan öryggi landsins, en ekki eflt það. Ég vil þá ítreka að ég er ekki að tala um aðildina að Atlantshafsbandalaginu sem slíka. Ég er ekki að tala um samninginn við Bandaríkin sem slíkan. Ég er eingöngu að tala um þá röð ákvarðana sem tekin hefur verið um og eftir 1960 og felur í sér eðli þess tækjabúnaðar og aðstöðu sem Bandaríkin hafa hér, — röð ákvarðana sem að mínum dómi herfræðilega séð hefur stóraukið öryggisleysi íslensku þjóðarinnar og aukið verulega líkur á því, að Íslendingar verði fyrstu fórnarlömb í átökum risaveldanna. Það eru mjög alvarlegar ákvarðanir. Ég held að alveg nauðsynlegt sé fyrir íslensku þjóðina, bæði þingið og utanrrn. og þjóðina alla, að fá til starfa sérfræðimenntaða menn sem geta atstoðað okkur við að meta þetta, því ég er þess fullviss að þær ákvarðanir, sem hér hafa verið teknar, voru teknar af íslenskum stjórnvöldum án þess að slíkt mat færi fram.

Fyrir þá hv. þm., sem vilja gjarnan kynna sér þessa atburðarás og þessa þróun, vil ég líkt og 1. flm. þessarar till. vekja athygli á riti Gunnars Gunnarssonar, GIUK-hliðinu, sem öryggismálanefnd hefur nýlega gefið út. Ég ætla ekki að fara að rekja það rit hér, en það væri vissulega tilefni til að taka það til ítarlegrar umræðu. Ég vil hins vegar benda hv. þm. á að eins og meginþráður í gegnum það rit gengur sú greining sem sýnir okkur hve náið við höfum verið tengdir gegnum tæknibúnað og aðstöðu Bandaríkjanna hér við kjarnorkukapphlaup risaveldanna sem hlýtur að leiða Sovétríkin til þeirrar ályktunar, að á fyrstu stigum átaka þeirra við Bandaríkin sé nauðsynlegt fyrir þau að tortíma þeirri aðstöðu sem er hér á Íslandi. Þar er lýst mjög rækilega eðli kjarnorkukafbátahernaðarins og þeirri ákvörðun Bandaríkjastjórnar að gera kjarnorkukafbátana í hafinu kringum Ísland að því sem kallað er í ritinu kjarnorkuforðabúr Bandaríkjanna. Það eru stór orð. Engu að síður hugsa ég að þetta sé herfræðilega rétt, að öruggasti þátturinn í kjarnorkuforðabúri Bandaríkjanna séu einmitt þeir kjarnorkukafbátar sem eru í höfunum hér í kring og SOSUS-stöðvunum, Orion-flugvélunum og annarri aðstöðu hér á landi er ætlað að þjóna.

Hvaða íslenskur ráðherra samþykkti að gera Ísland að meginburðarási í aðalkjarnorkuforðabúri Bandaríkjanna? Ég spyr aftur. Þess vegna væti vissulega vel þess virði, þótt umræðutími á Alþingi sé ekki heppilegasti vettvangurinn aðferðafræðilega séð, að fara rækilega í gegnum þá greiningu, sem kemur fram í þessu riti, og spyrja sjálfan sig þeirrar spurningar: Hefur öryggi Íslands verið vel eða illa þjónað með þessum ákvörðunum?

Ég vil ítreka það, sem ég sagði hér áðan, til þess að gera alveg ljóst að ég er að reyna að leggja drög að þessari umr. án þess að fara að blanda inn í hana í sjálfu sér þeirri stóru umr. um aðildina að Atlantshafsbandalaginu og samninginn við Bandaríkin. Það eru deilur sem er búið að heyja hér í áratugi. Við þekkjum öll meginröksemdirnar í þeim deilum, og það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni að Alþb. sé hætt við að halda þeim deilum áfram. Ég held þvert á móti að Alþb. hafi gert meira að því á undanförnum árum, bæði hér á Alþingi og eins í málgagni flokksins, að setja fram röksemdir og sjónarmið varðandi þá umr. Við teljum hins vegar hinn þáttinn, sem ég hef verið að tala hér um, ákvarðanatökurnar sjálfar innan þess ramma, vera svo mikilvægan að við viljum ekki láta hina stóru umr. verða svo yfirgnæfandi að hún skyggi á það, að við getum e. t. v. í sameiningu metið það út frá þekkingarlegum grundvelli, hvort þær ákvarðanir, sem hér hafa verið teknar, kunni að leiða til góðs eða hvort þær, eins og sumir telja, þvert á móti stefni okkur í mjög mikla tortímingarhættu.

Ég teldi æskilegt ef utanrrn. hefði yfir að ráða vel þjálfuðum, heiðarlegum og færum fræðimönnum sem þyrftu ekki jafnframt að vera embættismenn í Brussel og þyrftu ekki jafnframt að vera að vasast í vandamálum varðandi herinn hér í Keflavík, en gætu á eðlilegan og heiðarlegan hátt tekið þátt í umr. meðal þm. og annarra fulltrúa þjóðarinnar um að meta þessa hluti.

Hv. þm. Friðrik Sophusson gerði í lok sinnar ræðu að umræðuefni stefnuræðu sem framkvæmdastjóri Sjálfstfl. flutti fyrir nokkru. Mér fannst mjög merkilegt að varaformaður Sjálfstfl. skyldi taka að sér það hlutverk að löggilda þessa ræðu framkvæmdastjóra flokksins sem stefnuræðu með þeim hætti sem hann gerði hér í umr. Við höfum sumir, sem sérstaklega látum þessi mál til okkar taka, verið að velta því fyrir okkur síðustu tvær vikurnar, hvort skilja beri þessa ræðu Kjartans Gunnarssonar framkvæmdastjóra Sjálfstfl. sem stefnuyfirlýsingu af hálfu Sjálfstfl., hvort beri að skilja hana sem þáttaskil hvað það snertir, að nú ætli Sjálfstfl. að ganga fram fyrir skjöldu og heimta stóraukin umsvif Bandaríkjahers á Íslandi.

Fyrst voru þetta spurningar, en síðustu daga hefur það gerst, að á afdrifaríkan hátt hefur verið tekið af skarið um að skoða beri þessa ræðu framkvæmdastjóra Sjálfstfl. sem tímamótastefnuræðu af hálfu flokksins.

Björn Bjarnason, helsti sérfræðingur Sjálfstfl. í utanríkismálum og formaður utanríkismálanefndar Sjálfstfl., hefur lýst því yfir, að þessi ræða Kjartans Gunnarssonar marki tímamót í umræðunni um öryggismál Íslendinga. Í leiðara Morgunblaðsins s. l. sunnudag var þessari ræðu lýst sem höfuðviðfangsefni í utanríkismálaumræðu Íslendinga á næstu misserum og vitnað í ályktun síðasta Landsfundar Sjálfstfl. því til stuðnings, að saman fari hugsunin í ályktun Landsfundarins og hugsunin í ræðu framkvæmdastjórans. Nú kemur nýkjörinn varaformaður flokksins og flytur þessa ræðu hér í endursögn og beinum tilvitnunum á Alþingi Íslendinga og gerir orð framkvæmdastjórans að sínum. Það er því alveg ljóst, að þegar lagðar eru saman yfirlýsingar framkvæmdastjóra Sjálfstfl., formanns utanrmn. Sjálfstfl., varaformanns Sjálfstfl. og leiðarhöfundar í meginmálgagni Sjálfstfl., þá taka þeir allir í þennan sama streng. Sjálfstfl. hefur ákveðið að gera það að stefnumáli sínu að krefjast stóraukinna hernaðarumsvifa á Íslandi eða m. ö. o. krefjast þess, að Ísland verði enn frekar fest í það kjarnorkuvígbúnaðarkerfi sem við höfum verið tengdir við á s. l. 20 árum. Það tel ég alvarleg tíðindi, mjög alvarleg tíðindi, hryggileg tíðindi, að stærsti stjórnmálaflokkur landsins, aðalsérfræðingur hans í utanríkismálum, formaður utanrmn. hans, framkvæmdastjóri flokksins, varaformaður flokksins, meginmálgagn flokksins, skuli nú boða þessa stefnubreytingu og þeir segja sjálfir að þetta séu þáttaskil.

Í þessari ræðu, sem allir þessir aðilar hafa gert að sinni stefnu, eru hvorki meira né minna en settar fram 10 sérstakar kröfur um aukin hernaðarumsvif á Íslandi, — kröfur sem eru þess eðlis að væri þeim öllum hrundið í framkvæmd væri búið að gera Ísland umfram alla aðra staði á norðurhveli jarðar að meginvígbúnaðarhreiðri í kjarnorkukafbátakapphlaupi risaveldanna. Ég spyr þessa ágætu menn: Telja þeir að vörnum Íslands sé best þjónað með því að halda áfram að tengja Ísland enn frekar við kjarnorkukafbátakerfi Bandaríkjanna? Halda þeir að vörnum Íslands sé best þjónað með því að bæta áfram slíkum vígbúnaði hér inn í landið að það hljóti að vera fyrsta verk þess ríkis, sem vill ráðast á Bandaríkin, að tortíma öllum þessum búnaði hér? Það er mikil ábyrgð þeirra manna sem vilja halda áfram að leggja slíkar freistingar í götu þess risaveldis sem telur sig þurfa að glíma við Bandaríkin á vettvangi kjarnorkuvígbúnaðarkerfis risaveldanna. Engu að síður hefur þetta gerst. Ég hélt í fyrstu að þessi ræða Kjartans Gunnarssonar væri leikur, nánast pólitískt einkaframtak manns sem hefur gaman af að velta fyrir sér hernaðarmálefnum og finnst kannske í tómlætinu hér á Íslandi vera þörf á því að hrista dálítið upp í þessari umr. og leyfir sér þess vegna kannske meira en eðlilegt getur talist. En það reyndist því miður ekki veru þannig. Þvert á móti „marserar“ fram á völlinn allt forustulið Sjálfstfl. og segir: Þetta er hin nýja stefna.

Í þessari ræðu er í fyrsta lagi krafist þess, að byggð verði 9 sprengjuheld flugskýli á Keflavíkurflugvelli nú þegar.

Í öðru lagi er þess krafist, að byggð verði enn fleiri sprengjuheld flugskýli á Keflavíkurflugvelli en þessi 9, ekki verði látið staðar numið við þessi 9 sprengjuheldu flugskýli, heldur verði byggð enn fleiri, hve mörg segir forusta Sjálfstfl. ekki. Það væri kannske gagnlegt að spyrja hér í þingsölum: Hvað eru það mörg sprengjuheld flugskýli sem forusta Sjálfstfl. telur nauðsynlegt að byggja á Keflavíkurflugvelli?

Í þriðja lagi leggur Sjálfstfl. til að byggð verði „fullnægjandi stjórnstöð fyrir varnarliðið“. Ég spyr: Hvers konar fyrirbæri er það sem Sjálfstfl. telur nú allt í einu þörf á að byggja á Keflavíkurflugvelli og hann gefur heitið „fullnægjandi stjórnstöð fyrir varnarliðið“? Stjórnstöðvar fyrir hvað? Kjarnorkukafbátahernaðinn? Orionflugvélarnar sem tengjast kjarnorkukafbátahernaðinum? Stjórnstöðvar fyrir hvað? Væri ekki gagnlegt að fá það fram, fyrst talin er þörf á að byggja nýja stjórnstöð fyrir bandaríska herinn á Keflavíkurflugvelli, hverju þessi stöð á að stjórna, hvers konar vígbúnaðarstarfsemi, til viðbótar þeirri sem nú fer þar fram og greinilega getur ekki rúmast innan þeirra bygginga sem þar eru nú? Í herfræðilegu tilliti er það ekkert smámál þegar stærsti stjórnmálaflokkur landsins óskar eftir að það sé byggð ný stjórnstöð fyrir bandaríska herinn, og væri gaman að fá herfræðilegar útleggingar á því hvað átt sé við.

Í fjórða lagi er lagt til að ratsjárstöð verði byggð á Norðausturlandi. Nú er það samdóma álit allra herfræðinga, hvort sem þeir eru stuðningsmenn Atlantshafsbandalagsins eða ekki, að í átökum milli risaveldanna hljóti fjarskiptakerfið að vera meðal fyrstu skotmarkanna. Það er ósköp eðlilegt vegna þess að fjarskiptakerfið er slíkur grundvallarþáttur í þeim kerfum til sóknar og varnar sem risaveldin byggja sinn vígbúnað á. Þessar stöðvar eru hér á Suðvesturlandi og þær eru á Suðausturlandi. Þær skapa að mínum dómi stórfellda árásarhættu fyrir þéttbýlasta svæðið í landinu. En vegna þess að engar slíkar stöðvar eru á Norðurlandi eða Norðausturlandi væri kannske von til þess, að þeim hluta landsins yrði hlíft ef til slíkra átaka þyrfti að koma. Nei, forusta Sjálfstfl. heimtar líka ratsjárstöð þar. Það er fjórða krafan um aukinn vígbúnað sem forusta Sjálfstfl. hefur sett fram.

Í fimmta lagi er sett fram sú krafa, að nýir millilandaflugvellir, sem hér verði byggðir, verði um leið hernaðarflugvellir. Þetta er hugmynd sem Björn Bjarnason hefur reifað í blaðagrein, en er nú greinilega orðið stefnuatriði hjá forustu Sjálfstfl. Það á að ganga enn frekar þá braut, sem hefur verið gengin með flugvellinum í Keflavík, að fella saman í eina heild flugþjónustukerfi Íslendinga og hernaðarkerfi Bandaríkjanna. Það er ekki nóg að millilandaflugvöllurinn á Suðurnesjum eigi að vera samtengdur hernaðarkerfi Bandaríkjanna, heldur ef Íslendingar byggja varamillilandaflugvöll, sem talið er nauðsynlegt að gera, þá á hann líka að vera tengdur við hernaðarkerfi Bandaríkjanna. Þetta er hin fimmta krafa.

Sjötta krafan er að til viðbótar við þá olíugeyma, sem væru byggðir til þess að leysa mengunarvandann á Suðurnesjum, verði byggðir enn fleiri olíugeymar til þess að þjóna eingöngu hernaðarumsvifum Bandaríkjanna, eða m. ö. o. að eldsneytisbirgðarstöðvar Bandaríkjanna á Íslandi verði stækkaðar til muna. Nú er ekki verið að tala um mengunarhættuna af geymunum á Suðurnesjum. Nei, nú koma menn til dyranna alveg á hreinskilinn hátt og segja: Við viljum meiri hernaðarbirgðastöðvar eldsneytis í landinu. Nú hljóma ekki lengur ræðurnar sem hljómuðu hér í þingsölum og annars staðar um að nauðsynlegt væri að leysa mengunarvanda Suðurnesja, heldur er sett fram nakin krafan um að Bandaríkin fái stóraukið rými fyrir hreinar og klárar hernaðarbirgðastöðvar hér í landinu.

Í sjöunda lagi er sett fram krafan um það, að Íslendingar taki formlegt sæti í hermálanefnd bandalagsins, m. ö. o. að Íslendingar verði fullgildir þátttakendur í hernaðarsamstarfinu. Það er mikill misskilningur hjá hv. flm., Friðrik Sophussyni, að það sé það sem ég var að tala um hér á Alþingi á sínum tíma. Ég var eingöngu að tala um að íslenskir þm. ættu, þar sem þingmenn NATO-ríkjanna kæmu saman til þess að fjalla um þessi mál, að lýsa því ekki yfir með þátttöku sinni í nefndarstörfum að þeir hefðu ekkert um hernaðarlega þætti málsins að segja. Það er allt annað heldur en að Íslendingar gerist formlegur aðili að hernaðarsamstarfi Atlantshafsbandalagsins innan hernaðarnefndarinnar. Ég spyr þess vegna í framhaldi af ýmsu öðru, sem í þessum tillögum er, og fyrri mátflutningi Sjálfstfl.: Hvers vegna leggja þeir ekki til að Sjálfstfl. taki þátt í kjarnorkuvopnasamvinnunni líka? Hvers vegna er það ekki lagt til? Það er kannske bara fyrsta skrefið að við göngum formlega inn í þessa hernaðarsamvinnu.

Í áttunda lagi er lagt til að gerð sé sérstök áætlun um samstarf og skiptingu valda og ábyrgðar milli íslenskra stjórnvalda og herstjórnar Atlantshafsbandalagsins á átakatímum, hvorki meira né minna, — formleg hernaðaráætlun um vígbúnaðargerðir og skiptingu ákvarðanatöku milli íslenskra stjórnvalda og herstjórnar Atlantshafsbandalagsins.

Í níunda lagi er lagt til að fram fari sérstakar hernaðaræfingar í tengslum við Ísland, að bætt verði úr því sem að dómi Sjálfstfl. er mikil vanræksla, að hér hafi ekki farið fram á landinu eða í tengslum við landið fullgildar hernaðaræfingar. Í tíunda og síðasta lagi er lagt til að Íslendingar komi sér upp því sem kallað er allsherjarvarnarkerfi.

Þetta er engin smápöntun þegar allt er lagt saman: Níu sprengjuheld flugskýli, enn fleiri sprengjuheld flugskýli þegar byggingu hinna 9 væri lokið, bygging sérstakrar nýrrar stjórnstöðvar fyrir varnarliðið í Keflavík, bygging sérstakrar ratsjárstöðvar fyrir varnarliðið í Keflavík, bygging sérstakrar ratsjárstöðvar á Norðausturlandi, tenging nýrra millilandaflugvalla Íslendinga við hernaðarkerfi Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins, stóraukið olíubirgðarými til hernaðarþarfa fyrir bandaríska herinn á Íslandi langt fram yfir það sem þarf til þess að leysa mengunarvanda Suðurnesjabúa, fullgild þátttaka Íslands í hernaðarsamstarfinu innan Atlantshafsbandalagsins, sérstök áætlun um hernaðarsamvinnu herstjórnar NATO og íslenskra stjórnvalda, hernaðaræfinga færi hér fram í landinu og í kringum landið þar sem fullgildar flota- og heræfingar NATO færu fram hér á Íslandi, og að síðustu skipulagning allsherjarvarnarkerfis hér í landinu.

Það er vissulega rétt hjá formanni utanrmn. Sjálfstfl. og leiðarahöfundi Morgunblaðsins, að þessi stefna markar þáttaskil. Það er alveg rétt. Þetta er grímulausasta hervæðingar- og hernaðarstefna, sem hér hefur sést í áratugi. Íslenskir stjórnmálamenn hafa aldrei fyrr sett fram stefnu af þessu tagi. En nú hefur það gerst, að Sjálfstfl. — varaformaður hans, framkvæmdastjóri, aðalmálgagn, formaður utanrmn. og helsti sérfræðingur hefur lagt þetta fram og kallað tímamót.

Það eru að vissu leyti tímamót að þeir, sem hafa verið í forsvari fyrir stefnu Sjálfstfl. í þessum efnum, skuli jafngreinilega og hér er gert koma til dyranna eins og þeir eru klæddir og gerast kröfugerðarmenn fyrir þeim miklu þáttaskilum í hervæðingu á Íslandi sem þessi stefna boðar. En það yrðu ömurleg tímamót fyrir Íslenska þjóð ef ætti að framkvæma slíka stefnumörkun. Það væri þess vegna kannske rétt að Alþingi flýtti sér að samþykkja þá till., sem hér hefur verið lögð fram, til þess að reyna að koma vitinu fyrir þessa menn með því að ráða sérfræðinga í þjónustu utanrrn. sem gætu beint stærsta flokki þjóðarinnar inn á réttar brautir. (FrS: Er þetta stuðningsyfirlýsing?)