09.02.1982
Sameinað þing: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (1955)

47. mál, ráðunautur í öryggis- og varnarmálum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er alkunna að ráðamenn íslensku þjóðarinnar hafa í áratugi gert sér grein fyrir því og ekki dregið á það dul, að okkur skorti mjög sérþekkingu í hernaðarmálum í sambandi við ákvarðanatöku varðandi varnarmál landsins. Þetta er ekki nýtt og þess vegna er sú tillaga, sem hér liggur fyrir, í sjálfu sér ekki ný viðurkenning þó að málið sé tekið upp og settar fram hugmyndir um byrjunarlausn á þessum vanda.

Íslendingar hafa verið varnarlaus þjóð um mörg hundruð ára skeið. Þeir eru orðnir afvanir allri hermennsku og herþjónustu sem flestar aðrar þjóðir búa við, og má segja að í hugarfari Íslendinga sé jafnvel andúð á öllu sem hernaði og hermennsku viðkemur. Hins vegar hafa staðreyndir lífsins leitt til þess, að við höfum orðið að taka mikilvægar ákvarðanir á þessu sviði. Hjá því hefur ekki verið komist, og það hefur ekki þýtt að stinga hausnum í sandinn í þessum efnum. Því verður að reyna að ráða á þessu bót. Við verðum að koma okkur upp sérþekkingu, en við verðum líka að gera okkur fullkomlega ljóst að herfræðin, sem síðasti ræðumaður er orðinn svo menntaður í eftir tveggja ára setu í öryggismálanefndinni, er engin stærðfræði. Hún er eins og flest félagsleg vísindi ákaflega ónákvæm og engin leið að finna þar út endanlega hvað er rétt og hvað er rangt eða segja fyrir um hvað gerast kunni. Það er rétt að menn hafi þetta í huga þegar þeir heyra stærstu slagorðin sem menn draga af yfirborðskenndri lesningu á nokkrum bókum um þessi efni. Við eigum að geta bætt aðstöðu okkar til muna með því að koma okkur upp meiri sérþekkingu og fylgjast með því, hver umræða er um þessi mál á meðal þeirra sem sinna þeim mest í öðrum löndum.

Utanríkisráðherrar okkar hafa sumir gripið til þess að kalla til erlenda sérfræðinga, stundum frá hlutlausum ríkjum. Þeir hafa fengið frá þeim álitsgerðir sem vafalaust hafa haft einhver áhrif á það, hvernig þessir utanrrh. undanfarin 30–40 ár hafa gegnt störfum sínum og hvernig Alþingi hefur mótað þá stefnu, sem þeir hafa lagt til, allt þetta tímabil með miklum meiri hluta. Það þarf að safna þessari þekkingu á varnarmálum saman, helst á fleiri en einum stað. Ég hef fyrir nokkrum árum oftar en einu sinni lagt fram tillögu um að komið verði upp utanríkismálastofnun hér á landi. Þar mundi vera um að ræða stofnun sem væri óháð stjórnvöldum eftir því sem hægt er að gera hana og mundi safna upplýsingum og gefa út á svipaðan hátt og slíkar stofnanir gera í öðrum löndum.

Þessar hugmyndir leiddu á vissan hátt til þess, að stofnað var til öryggismálanefndar þeirrar, sem nú starfar, þegar Ólafur Jóhannesson myndaði ríkisstj. sína árið 1978. Ég get ekki fallist á að Alþb. hafi átt neina aðild að upphafi hugmyndarinnar, en mér er í minni að hún kom til tals meðal Alþfl.-manna og framsóknarmanna. Án þess að það skipti máli, hver telst vera höfundur hennar, þá er meginatriðið og staðreynd málsins sú, að þessir þrír flokkar urðu sammála um að hrinda henni í framkvæmd þegar þeir mynduðu ríkisstj. saman. Öryggismálanefndin er ekki sambærileg við óháðar utanríkismálastofnanir. Hún er hálfopinber. Það eru stjórnmálaflokkar sem tilnefna þá aðila er þar eiga sæti, og nefndin heyrir undir forsrh., en er rekin fyrir fé sem veitt er til hennar á fjárlögum. Hún er því meira en hálfopinber, enda þótt ástæða sé til að gera sér vonir um að starf hennar muni bera góðan árangur eins og fyrstu skrefin í útgáfu gefa tilefni til. Það er dálítill öryggisventill varðandi þessa nefnd að í hana eru skipaðir menn úr öllum stjórnmálaflokkum, hvort sem þeir eru sammála þeirri utanríkisstefnu, sem rekin hefur verið, eða andvígir henni. Og það er í raun og veru megineinkenni þessarar nefndar, að vísu ekki fundið upp af okkur hér, því að það hafa verið skipaðar nefndir á hinum Norðurlöndunum sem hafa verið settar saman á svipaðan hátt og hafa skilað skýrslum um öryggismál þeirra.

Fyrir utan öryggismálanefndina hefur það farið vaxandi að ungir Íslendingar hafa lagt fyrir sig herfræði í einhverri mynd í námi, og hefur þegar heyrst nokkuð frá þeim í þessum umr. þó að þeir séu, að ég hygg, fleiri en sá maður sem þar var nefndur.

Þá vil ég benda á, til þess að sýna fram á vaxandi áhuga og skilning á þessum málum, að ég hygg að sjaldan hafi eins mörg utanríkismál komið fram á Alþingi, bæði þáltill. og fsp., eins og hefur verið í seinni tíð, og tel ég það í sjálfu sér góðs vita.

Varðandi þá till., sem hér liggur fyrir og hv. 10. þm.

Reykv. hefur mælt fyrir, er hún að efni til ákaflega einföld og að orðum til ákaflega stutt. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að stofna sérstakt embætti ráðunauts ríkisstj. í öryggis- og varnarmálum hjá utanrrn.“

Lengra gengur till. ekki. Í grg. eru ýmsar hugleiðingar sem að sjálfsögðu bera ekki sama þunga og till. sjálf, og hygg ég að flm. telji allir að það sé mál sem ræða megi, hvar og hvernig þessum starfsmanni yrði komið fyrir í utanrrn. og hvert yrði verksvið hans. Aðalatriðið er að hann á að vera ráðunautur og þar af leiðandi sérmenntaður í öryggis- og varnarmálum. Ég hygg, að vel komi til greina að þessi ráðunautur heyrði beint undir utanrrh. fyrst í stað, en starfaði samt sem áður í varnarmáladeildinni. Varnarmáladeild er hluti af utanrrn. og starfar að mörgu leyti sjálfstætt, en svo einkennilega hefur farið í áratugastarfi að hún hefur ekki vaxið. E. t. v. fagna menn því, að til eru einhverjar opinberar stofnanir á Íslandi sem ekki vaxa. En mér finnst nóg um þetta tilvik, því að í varnarmálanefndinni eru í dag ekki nema tveir starfsmenn og ritari. Er það með ólíkindum að þeir skuli komast yfir allt það starf sem á þeirra herðum hvílir, en það er fyrst og fremst samband við varnarliðið hér á landi og vandamál sem af þeim samskiptum leiðir. Varnarmáladeild hefur mjög litla möguleika til þess að safna saman upplýsingum og fróðleik um varnarmálin í víðari skilningi, en einmitt það skortir. Það er það sem menn vilja bæta úr með þeirri till. sem hér er flutt. Ég lít svo á að ef þessi till. yrði framkvæmd yrði hún aðeins byrjunin og að utanrrn. hlyti áður en mörg ár líða að fá fleiri starfsmenn sem að þessum málum vinna.

Ég er þeirrar skoðunar að slíkur sérfræðingur, sem starfaði á vegum utanrrh., ætti að sækja töluvert af hernaðarlegum fundum hjá Atlantshafsbandalaginu, — fundum sem við sækjum yfirleitt alls ekki. Með því öðlast hann margvíslegar upplýsingar og gæti fylgst með á því sviði sem undir hann heyrir. Ég geri ekki ráð fyrir að það þyrfti að breyta þeirri stefnu okkar að greiða ekki atkvæði um hrein hernaðarleg atriði af því að við höfum ekki her á okkar vegum og kostum ekki slíka starfsemi. Það skiptir ekki höfuðmáli, því að við komumst raunar ekki alveg hjá þeim málum. Flest hin veigameiri hernaðarlegu ákvörðunarmál Atlantshafsbandalagsins koma fyrr eða síðar fyrir hina pólitísku ráðherranefnd, en þar eiga sæti utanrrh. landanna eða í fjarveru þeirra sendiherrar hjá NATO.

Það má segja hið sama um Þingmannasamtök Norður-Atlantshafsbandalagsríkjanna sem Íslendingar hafa sótt alla tíð. Það væri ekki óeðlilegt að sækja fundi í hermálanefndinni til að afla upplýsinga. Ég get að vísu skýrt frá því — því að ég átti sæti á fundum þessarar stofnunar, samtaka þingmanna Norður-Atlantshafsbandalagsríkjanna — að ég hafði jafnan þá reglu að safna saman skjölunum sem hernaðarnefndin lét prenta, því að við höfðum aðgang að þeim, og hafði með mér heim til að lita yfir þau og sjá hvort þar væri eitthvað sem snerti okkur Íslendinga og við hefðum sérstakan áhuga á. Það reyndist ærið oft vera svo.

Þá hefur komið fyrir að ég hef tekið sæti í þessari nefnd. Það gerðist þegar þorskastríðið stóð yfir, að mér barst til eyrna að þorskastríðið kæmi til umræðu í nefndinni. Ég ruddist þar inn, settist niður og tók til máls í þessari umræðu með þeim árangri að ég fékk áminningu frá forseta fyrir harkalegt orðbragð í garð breska fulltrúans. En hvað sem því líður, sú var tíðin að við notuðum öll þessi sambönd til að vinna málstað okkar í landhelgismálinu fylgi, þá gerði ég þessa tilraun sem sýndi að það er ekkert því til fyrirstöðu að við getum setið í þessari nefnd og fengið allar upplýsingar sem þar er að hafa.

Hv. 11. þm. Reykv. hefur notað tækifærið til að ræða ekki aðeins þessa till., heldur gera umræðuna að almennri umræðu um utanríkis- og varnarmál. Ég tel það í sjálfu sér vera óeðlilegt og býst ekki við að þingið hafi verið við slíkum umr. búið, en það hefur þó þegar verið gert. Kjarninn í því, sem hv. 11. þm. Reykv. sagði, var slagorð hans um að það væri búið að flétta Ísland stig af stigi inn í kjarnorkukerfi Bandaríkjanna. Hann slær um sig með allmörgum orðum sem hann hefur lært í yfirborðslestri sínum á skjölum sem safnað hefur verið í öryggismálanefnd. Ég mótmæli þessari fullyrðingu og lýsi yfir að ég tel að hún sé hrein fásinna, að það hafi vísvitandi verið gert að flétta Ísland stig af stigi inn í kjarnorkukerfi Bandaríkjanna. Þetta er eins og við höfum fengið að venjast í meðferð Alþb.-manna á utanríkismálum. Þeir reyna að búa til eitthvert slagorð og svo er hamrað á því slagorði sí og æ í þeirri von að einhverjir fari að trúa því. Það, sem gerst hefur síðan 1960, er að kjarnorkuvopn hafa farið til sjós. Þau hafa verið sett í kafbáta bæði í Bandaríkjunum, Sovétríkjunum og síðan í Bretlandi og Frakklandi. Eftir að þeir kafbátar fóru að sigla um heimsins höf, ekki bara í kringum Ísland, heldur víða annars staðar, gerbreyttist öll hernaðaraðstaða í heiminum. Þetta er ekkert sem íslenskir ráðherrar hafa gert. Þeir hafa ekki tekið neinar ákvarðanir sem hafa stuðlað að þessu. Þetta er þróun í heimsvígbúnaði, að vísu mjög sorgleg þróun vegna þess að hún hefur orðið til þess að gera kjarnorkubúnað stórveldanna stórum hættulegri en hann var fyrir. En um það eru allir sammála, sem ég hef heyrt að skrifað hafi um þessi mál, bæði sovéskir sérfræðingar og vestrænir, að það hafi verið tímamót í vígbúnaðarsögu og vígbúnaðarkapphlaupi stórveldanna þegar kjarnorkuvopn voru sett í kafbáta sem sigldu neðansjávar og erfitt er að fylgjast með. Það má því segja að á árunum eftir 1960 hafi hernaðarleg þýðing Íslands fengið á sig nýjan blæ vegna þess að kjarnorkukerfi Bandaríkjanna og Sovétríkjanna teygðu sig eftir hafinu báðum megin við landið. Það var lengi vel svo að Sovétríkin þurftu að komast fram hjá Íslandi til að koma þessum kjarnorkukafbátum sínum á staði þar sem þeir gætu skotið á Norður-Ameríku. Á sama tíma þurftu bandarískir kafbátar að fara fram hjá Íslandi öðru hvorum megin til að komast norður í höf á stöðvar þar sem þeir gætu skotið á Sovétríkin. Þetta hefur tekið ýmsum breytingum með vaxandi tækni, en þetta er þróun sem íslensk yfirvöld hafa ekkert getað gert til að hafa áhrif á. Hins vegar hefur þessi þróun gert þýðingu Íslands mörgum sinnum meiri en áður og gert frekar en nokkru sinni fyrr algerlega óhjákvæmilegt að við blöndumst inn í þessi mál því að nú erum við í þjóðbraut þessara kjarnorkukafbáta bæði frá austri og vestri.

Það er fullyrt að viðbúnaður varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli sé hluti af kjarnorkuárásarkerfi Bandaríkjanna eða burðarás í þessu kerfi. Ég leyfi mér að fullyrða að svo sé alls ekki. Þau tæki, sem hér eru, eru til þess að leita uppi kafbáta, bæði SOSUS-kerfið, það er til að finna þá, og Orion-leitarflugvélarnar. Mér er spurn: Þurfa Bandaríkjamenn að hafa SOSUS-kerfi í kringum Ísland og Orion-flugvélar til að finna sína eigin kafbáta? Nei, alls ekki. Þetta er enginn stuðningur við þann kafbátaflota heldur eingöngu sett upp í varnarskyni til þess að fylgjast með öðrum kafbátum. Það er kjarninn í málinu. Þótt segja megi að svo að segja allar flugvélar og svo að segja allt stórskotalið nú á dögum geti skotið eða flutt kjarnorkuvopn, þá eru þær flugvélar, sem eru hér á landi í varnarliðinu, engan veginn sérstaklega til þess gerðar. Þær geta borið kjarnorkuvopn, en þær gera það ekki hér, og svipaðar flugvélar voru hér fyrir 1960. Það eru aðeins nýrri og fullkomnari gerðir t. d. af Orion-flugvélunum sem hafa tekið við af eldri gerðum, eins og er um orrustuflugvélarnar.

Það er því tilbúinn áróður í þeim tilgangi að blekkja þjóðina, þegar þessi mikli talsmaður og sérfræðingur Alþb. fullyrðir að Ísland sé „burðarás“ í kjarnorkukerfi eða þá að búið sé að flétta Ísland inn í kjarnorkuárásarkerfi Bandaríkjanna. Ekkert slíkt hefur gerst. Þróunin er almenn og snertir bæði heimsveldin, og við henni höfum við ekkert getað gert sem neinu hefði breytt. Ákvarðanir íslenskra ráðherra og Alþingis hafa ekki átt neinn hlut að því, að þessi þróun hefur orðið eins og raun ber vitni. Hins vegar er engin leið önnur en að taka tillit til þess, að þessi þróun kjarnorkuvopna á hafinu og í hafinu hefur gert þýðingu Íslands meiri en áður. Hitt er fullyrðing sem erfitt er að rökstyðja og auðvelt er að svara, að þetta leiði til þess, að við hljótum að verða frumskotmark í byrjun styrjaldar. Það er nú orðið svo, þegar hv. 11. þm. Reykv. hamast við að endurtaka þess ógnaryfirlýsingu, að næsta styrjöld hljóti að byrja á því að kjarnorkuvopnum verði varpað á Ísland, að það minnir mig á málflutning Brynjólfs Bjarnasonar hér í gamla daga þegar hann hóaði Íslendingum með 600 millj. manna sem þá voru komnir undir stjórn kommúnismans í heiminum. (ÓRG: Vill ekki þm. hafa rétt eftir, áður en hann heldur áfram að æsa sig, hvað ég sagði. Það var í upphafi kjarnorkuátaka milli risaveldanna.) Vill ekki þm. láta sér nægja þann ræðutíma sem hann tók sér hér og hann á kost á seinna, og lofa öðrum að tala í friði. (ÓRG: Þá skulu þeir tala það sem satt er.) Ég hef farið með meginsetningar, fáar en skýrar, í orðum hv. þm., og mér hefur þá misheyrst ærið oft ef ég fer ekki rétt með það sem ég hef sagt.

Það er mikill vafi á því, hvort Ísland er frekar frumskotmark eftir þessa hvimleiðu þróun kjarnorkuvopna í hafinu heldur en áður var. Um það getum við ekki sagt, en margt bendir til þess, að Sovétríkjunum væri svo mikið í mun að reyna að fá hér aðstöðu að þau mundu ekki byrja á því að eyðileggja hana. Þetta er veigamikil röksemd sem vert er að íhuga, og ég held að menn ættu ekki að hóta Sovétkjarnorkuárásum á Ísland jafnoft og hv. þm. gerði án þess að fjalla rólega um slíkt eða slíka möguleika. Um þetta veit enginn neitt. Það er eðli kjarnorkuvígbúnaðarins, óttinn við að nota þessar sprengjur, sem menn hafa gert sér vonir um að héldi aftur af þjóðunum þannig að þær notuðu sprengjurnar aldrei.

Kjarnorkusprengjur hafa einu sinni verið notaðar. Tveim þeirra var kastað á Japan í lok síðustu heimsstyrjaldar. Truman forseti tók ákvörðun um að gera það. En það hefur oft verið spurt: Hefði Truman forseti ákveðið að kasta kjarnorkusprengjum á Hiroshima og Nagasaki ef hann hefði vitað að það mundi kosta að þegar í stað yrði varpað kjarnorkusprengjum á Chicago og Detroit á eftir? Menn ættu að íhuga þessa stöðu sem er kjarninn í því öryggi, sem stórveldin búa okkur á þessum miklu vígbúnaðartímum.

Ég tel að sú breyting, sem gerð var á varnarliðinu 1960–61, þegar flotinn tók við stjórn hér, hafi verið eðlileg og í samræmi við þá meginbreytingu, sem varð á öllum vígbúnaði er kjarnorkuvopn voru flutt í kafbáta. Þá var að vísu fækkað í varnarliðinu og eðli þess var að mörgu leyti breytt. En SOSUS-kerfið var í fæðingu og mun hafa verið komið til skjalanna þá. Orion-flugvélarnar, eða frumstæðar gerðir af þeim, voru til og þær voru hér fastir gestir. Nokkru seinna komu hér fyrstu ratsjárflugvélarnar, sem voru Constellation-vélar til þeirra hluta gerðar, svo að AWACS-vélarnar eru ekki nýjung í vörnum Íslands, heldur hefur þar gerst það sama og varðandi hinar flugvélagerðirnar, að nýrri og fullkomnari vélar hafa tekið við af öðrum eldri.

Herra forseti. Eins og ég sagði tel ég í sjálfu sér ekki rétt eða æskilegt að fara mjög langt út í almennar varnarumræður varðandi þessa till. En eftir þær ræður, sem fluttar hafa verið, taldi ég óhjákvæmilegt að segja nokkur orð um allra mestu og furðulegustu fullyrðingarnar sem hér hafa verið fluttar. Ég vil biðja menn að íhuga þessa till. efnislega og skoða þá fyrst og fremst hvað lagt er til að Alþingi samþykki. Um hitt má alltaf ræða, hvaða hugmyndir koma fram í grg. og hvernig meginefni till. yrði útfært. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að talsmaður Alþb., hv. 11. þm. Reykv., skuli í meginatriðum vera á sama máli, og ég treysti því, að efni þessarar till. verði frekar fyrr en síðar að veruleika og þá upphaf að því að íslensk stjórnvöld, fyrst og fremst utanrrn., hafi á sínum vegum nægilegan hóp sérmenntaðra manna til þess að vinna að þessum málum.