10.02.1982
Efri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2352 í B-deild Alþingistíðinda. (1969)

188. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það er ástæðulaust að setja á langa tölu um þetta mál, svo mörg sem hliðstæð mál hafa verið á undangengnum árum þegar gengi íslensku krónunnar hefur verið fellt. Þetta mun vera fjórða formlega gengisbreytingin síðan nýkrónan sæla leit dagsins ljós. Verð á Bandaríkjadollar hefur hækkað til dagsins í dag samkv. upplýsingum Seðlabankans um 53.4% frá því að nýkrónan tók gildi. Þetta þýðir að nú fáum við jafnmarga dollara fyrir 153 kr. og 40 aura og við fengum fyrir 100 kr. þegar nýkrónan gekk í gildi. Svo ört hefur þessi nýja mynt, sem menn bundu vonir við, fallið í verði.

Stefna hæstv. ríkisstj. í gengismálum hefur verið atvinnuvegunum mjög öndverð. Innlendar kostnaðarhækkanir hafa verið miklu meiri en gengisbreytingarnar og þar af leiðandi hafa útflutningsatvinnuvegirnir lent í vandræðum. Þeir hafa ekki fengið eins margar krónur fyrir sinn gjaldeyri og kostnaðurinn er við að afla hans, og þeir aðilar, sem keppa við útlendinga á íslenskum markaði, keppa við vörur sem eru framleiddar erlendis, hafa einnig verið í vanda. Hæstv. ríkisstj. viðist vilja byrja á öfugum enda í þessu efni eins og mörgum öðrum: þrýsta niður genginu þrátt fyrir hækkun innlenda kostnaðarins í stað þess að ráðast að rótum vandans og koma í veg fyrir kostnaðarhækkanir.

Ég var um helgina staddur á fundi þar sem rætt var um atvinnumál á vegum Fjórðungssambands Norðlendinga. Þar flutti Hjörtur Eiríksson, forstjóri Sambandsverksmiðjanna á Akureyri, ræðu. Hann benti á, hve þessi þróun hefði verið atvinnuvegum öndverð undanfarið, og rakti þá sögu að því er varðaði ullariðnaðinn allar götur til ársins 1976. Hagdeild Sambands ísl. samvinnufélaga hefur athugað hvernig rekstrarskilyrði ullariðnaðarins, sem flytur afurðir sínar út, hafa breyst á þessu tímabili. Þar kemur í ljós að gengi Bandaríkjadollars hefur hækkað frá því að vera 100 1976 í 263.3 1980 og eðlilegt verðlag, þ. e. meðalverðlag í OECD-löndunum, hefur hækkað frá því að vera 100 1976 í 142.7. En kostnaðarþættir ullariðnaðarins hafa hækkað allt í 1000 á þessu tímabili, vextir hækkað úr því að vera 100 1976 í 1061.2. Laun hafa hækkað úr 100 í 469.8 á sama tíma sem gengi Bandaríkjadollars hefur hækkað í 263.3. Á þessu tímabili hafa rekstrarskilyrði ullariðnaðarins orðið verri um 21%. Þetta er með gleggri dæmum þess, hvað gengismál eru viðkvæm fyrir atvinnuvegina. Þarf ég raunar ekki neinu við þetta að bæta.

Ég talaði um að verða ekki langorður við þessa umr. um þetta mál og læt máli mínu lokið.