10.02.1982
Efri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2355 í B-deild Alþingistíðinda. (1972)

188. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara út í lengri umr. um gengismálin. Ég gerði hér grein fyrir viðhorfum í þeim efnum sem ég tel að reynslan hafi sannað að séu affarasælust.

Að því er varðar gengisstefnu ríkisstj. þurfa menn náttúrlega ekki að skoða ræður eða skrif, heldur geta látið sér nægja að líta á reynsluna. Það var út frá reynslunni sem verið hefur á undanförnum misserum sem ég felldi þá dóma sem ég felldi áðan og ég tel að standist fyllilega og ég held að væru umhugsunarefni fyrir alla þm.

En að því er varðar svör hæstv. forsrh. við fsp. minni vænti ég þess, að hann tryggi að þessi hv. deild og sú nefnd, sem um þetta mál fjallar, geti fengið að sjá þau gögn sem birst hafa á opinberum vettvangi um setningu þeirra brbl. sem hér um ræðir. Ég vænti þess, að við fáum afrit af þeim fréttum, sem um það hafa verið í útvarpi og sjónvarpi, og ljósrit af þeim fréttum, sem um það hafa birst í dagblöðum, og menn geti þannig glöggvað sig á því, hversu skýrt og skilmerkilega hafi verið frá skýrt á opinberum vettvangi þegar þessi gerningur var gerður.