10.02.1982
Neðri deild: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2356 í B-deild Alþingistíðinda. (1975)

172. mál, olíugjald til fiskiskipa

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Því miður var ég ekki viðstaddur þegar 2. umr. þessa máls fór fram. Ég sé að í nál. 1. minni hl. sjútvn. er þess getið, að ég meðal nokkurra annarra hafi ekki verið viðstaddur á þeim nefndarfundi sem málið var afgreitt á. Það er rétt. Ástæðan er sú, að ég var þá veðurtepptur vestur á fjörðum. En viku áður en málið var afgreitt í nefndinni var boðað til fundar í sjútvn. og mætti aðeins einn af hv. stjórnarliðum á þeim nefndarfundi, ef á að telja hann til stjórnarliða í sambandi við það mál sem hér um ræðir, þ. e. hv. formaður sjútvn., þannig að málið frestaðist um viku vegna mætingarleysis hv. stjórnarliða í sjútvn. Ég held að rétt sé að það komi fram.

Að öðru leyti um þetta mál hef ég lýst því áður, að ég er andvígur þessu olíugjaldi og tel að við kringumstæður sem þessar, þegar svona mál koma upp eins og stórkostleg hækkun á olíu vegna ytri aðstæðna, þá séu það ekki sjómenn eða útvegsmenn einir sem eigi að blæða fyrir það, heldur eigi öll þjóðin að leggja á sig nokkuð vegna þess. Ég hef lýst því áður að þetta er mín skoðun. Ég get því tekið undir það sem segir í nál. frá 2. minni hl. sjútvn., að það er auðvitað þjóðarinnar allrar að taka á sig nokkuð þegar svona mál koma upp. Það á ekki einvörðungu að leggjast á sjómenn eða útvegsmenn.

Í öðru lagi er það ámælisvert, hvernig að þessu hefur verið staðið af hálfu hæstv. ríkisstj. og hæstv. sjútvrh. Hér má segja að Alþingi standi í raun og veru frammi fyrir gerðum hlut, og það er auðvitað ótækt að slík vinnubrögð skuli viðhöfð gagnvart Alþingi. Hér er um það að ræða að olíugjald, sem áður var 7.5%, á samkv. þessu að verða 7%. Það hefur áður komið fram, að hæstv. sjútvrh. hefur margítrekað lofað að afnema olíugjaldið. (Gripið fram í.) Margítrekað lofað að afnema olíugjaldið, já. Enn er ekki að sjá að neitt verði af því í reynd. Hér er að vísu um 1/2% lækkun að ræða á olíugjaldinu og út af fyrir sig má segja að það sé í áttina, en það er víðs fjarri að vera sú stefna sem hæstv. sjútvrh. hefur lofað.

Ég held að eins og málum er nú háttað sé í raun og veru nokkuð sjálfgefið að Alþingi hlýtur að ganga frá þessu máli. En það er ástæða til að víta þau vinnubrögð sem viðhöfð eru af hálfu hæstv. sjútvrh. og ríkisstj. Ég mun ekki standa gegn því, að þetta frv. nái fram að ganga. Samkomulag er að því er virðist milli þeirra aðila sem hér eiga hlut að máli, og fiskverðsákvörðun er grundvölluð m. a. á þessu. Má því segja að nokkuð augljóst sé að stefnt væri í mikla tvísýnu ef ekki yrði orðið við því að samþykkja það sem hér er lagt til. Ég vil hins vegar taka það fram, að þó að hæstv. sjútvrh. hafi enn einu sinni lofað við ákvörðun fiskverðs og meðferð þessa máls að stefna að því að olíugjaldið verði afnumið, þá hef ég litla trú á slíkum loforðum, tek lítið mark á þeim, með þá reynslu í huga sem við höfum horft upp á undangengin tvö ár a. m. k. En batnandi mönnum ætti að vera best að lifa, og ef hæstv. ráðh. tekur á sig þá rögg að standa nú við hin gefnu fyrirheit og þó ekki væri nema halda áfram lækkun olíugjaldsins, þá væri það vel.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, herra forseti, en vegna þess, hvernig þetta mál ber að, og vegna þeirra kringumstæðna, sem áður hefur verið getið, sýnist nokkuð augljóst að Alþingi getur vart annað gert en að afgreiða málið og samþykkja það eins og það er í pottinn búið, þó að vinnubrögðin öll séu mjög svo gagnrýnisverð og allt að því vítaverð.