27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

321. mál, húsnæðismál

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég verð að gera eina aths. við það sem hæstv. ráðh. sagði því að hann fór ekki rétt með.

Hann sagði, þegar ég var að leggja áherslu á og gefa upplýsingar um hvað lítið væri byggt og vantaði mikið á að væri fullnægt byggingarþörfinni, að ég hefði litið fram hjá verkamannabústöðunum. Þetta er ekki rétt. Ég nefndi verkamannabústaðina. En þegar við teljum saman það, sem á að byggja í ár með lánum frá Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna, fáum við um 1600 íbúðir. Það eru 2/3 af þeirri íbúðaþörf sem Framkvæmdastofnun ríkisins telur að sé fyrir hendi, 2400 íbúðum. Það vantar 1/3. Þetta staðfestir þá fullyrðingu mína, að það hlýtur að draga að stórkostlegu húsnæðisleysi ef ekki verður breytt um stefnu.

Það voru mjög fróðlegar upplýsingar, sem hæstv. ráðh. gaf, að ástæðan fyrir félagslegu byggingunum og eflingu Byggingarsjóðs verkamanna væri að lánin væru verðtryggð. Mér skilst þá að gagnálykta megi út frá þessu, að þeir hefðu ekkert verið að hugsa um félagslegar byggingar ef svo hefði ekki verið. En ég vil upplýsa hæstv. ráðh. um að það er ekki alveg nýtt að þessi lán séu verðtryggð. Þau voru verðtryggð 1960 um nokkur ár, að vísu ekki öll lánin, en helmingur lánanna, en þó svo væri tókst að auka lánsfjármagn til íbúðalána. Það tókst að gera þau hagstæðari. Þau voru um 1970 komin upp í það að vera um 40% af byggingarkostnaðinum. En nú er hæstv. ráðh. að guma af því að geta nefnt í þessu sambandi töluna 33% . Meðan menn hugsa ekki hærra í þessum efnum en þetta eigum við ekki von á neinum framförum í þessum málum.