10.02.1982
Neðri deild: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2367 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

161. mál, tollheimta og tolleftirlit

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., er eitt þriggja frv. sem fjalla um svokallaða tollkrít. Hv. 1. þm. Reykn. gerði grein fyrir grundvallaratriðinu í þeim efnum í ræðu þegar hann fjallaði um 160. mál hv. Alþingis, á þskj. 209. Ég mun leyfa mér að fara nokkrum orðum almennt um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum og mun þá ekki gera greinarmun á því, hvort fjallað er um 161. eða 162. mál, jafnskyld og þau eru, enda eru, eins og margoft hefur verið tekið fram, þessi þrjú frv. tengd og þurfa að fá sameiginlega meðferð í hv. fjh.- og viðskn.

Það er óþarfi í raun að fara mörgum orðum um þessi frv., það er gerð grein fyrir þeim í grg. Ástæða er þó til að benda á að í frv. til 1. um breytingu á lögum um tollheimtu og tolleftirlit, þ. e. þskj. 210, er vitnað til samþykktar viðskiptaþings Verslunarráðs Íslands frá apríl 1979, en þar segir, með leyfi forseta:

„Var þar samþykkt að vinna að framgangi tillagna um breytingu á lögum um tollheimtu og tolleftirlit þar sem að því væri stefnt að:

1. Aðskilja vöruskoðun, tollafgreiðslu og meðferð tollskjala annars vegar og flutning vörunnar hins vegar, þannig að vöru megi flytja beint frá skipi í vörugeymslu innflytjanda.

2. Gera tollyfirvöldum mögulegt að taka upp reikningsviðskipti við innflytjendur að því er varðar innheimtu aðflutningsgjalda.

3. Kostnaður við tollheimtu og tolleftirlit sé borinn af ríkissjóði, eins og við aðra löggæslu, enda nýtur hann teknanna, auk þess sem stjórnvöld ákveða umfang eftirlitsins. Með því er stefnt að aukinni hagræðingu í störfum tollgæslunnar.“

Með þessu frv. er verið að vinna að tveimur fyrri greinunum sem ég las hér áður, en ekki þótti ástæða til að flytja brtt. við lög er varða 3. liðinn. Vissulega er það umhugsunar virði hvort ríkissjóður eða skattborgarar eigi að halda uppi löggæslu og þá um leið tollgæslu, en ekki hafa þann hátt á, sem nú er, að kostnaðurinn sé borinn uppi af innflytjendum og þar með neytendum í þjóðfélaginu. Við kusum að sleppa þessu atriði, en gera hinum tveimur skil.

Eins og fram hefur komið áður í umr. um síðasta mál sem var hér á dagskrá hefur þetta mál verið flutt tvívegis áður og óþarfi þess vegna að kynna það rækilega í þetta skipti. Það hefur hins vegar gerst frá því að þetta mál var rætt hér síðast, að sett var á stofn nefnd á vegum fjmrh. til að gera tillögur, móta frv. um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum. Sú nefnd hefur unnið ágætt starf.

Á fyrsta fundi þessarar nefndar, sem haldinn var 28. apríl, er sagt frá því, að mikið liggi við að þessari vinnu verði hraðað, og segir þar, með leyfi forseta: „Hægt yrði síðan yfir sumarmánuðina að vinna frv.- drög upp úr þeim niðurstöðum ásamt grg., sem nefndin gæti síðan yfirfarið og gert brtt. við á einum eða tveimur fundum í lok ágústmánaðar. Kom fram að ráðh. hefði áhuga á að kynna málið þingflokkunum í haust. Þá kom fram að Seðlabankinn hafði lagt til að upptaka tollkrítar yrði tengd fjárlagagerðinni til þess að draga úr þensluáhrifum sem upptaka tollkrítar gæti haft á peningamálin.“ — Tilvitnun lýkur í fundargerð þeirrar nefndar sem vann frv: fyrir hæstv. ríkisstj. um tollkrít, en það frv. hefur ekki séð dagsins ljós.

Það er athyglisvert við sögu þessa máls, að hæstv. fjmrh. ræddi þetta mál við sama tækifæri og hæstv. forsrh., þ. e. 29. maí 1980, og sagði þá, með leyfi forseta:

„Það þarf að velja hentugan tíma á árinu til að tryggja að ríkissjóði komi það ekki mjög illa að verða af tekjum þegar þessi skipan er upp tekin og að ekki sé þá á sama tíma verulegur hallarekstur á ríkissjóði eða skuldaaukning hjá Seðlabankanum. Af þessum ástæðum hef ég dregið þá ályktun, að hyggilegast mundi vera að taka upp nýtt skipulag af þessu tagi fremur á síðari hluta árs en fyrri hluta árs.“

Þessi frv. voru til umr. 29. maí 1980, en það var sama dag og hæstv. forsrh. lýsti því yfir hátíðlega hér á hv. Alþingi, að frv. um tollkrít kæmi fram haustið 1980, en eins og flestir ef ekki allir alþm. gera sér grein fyrir er nú komið árið 1982.

Ég vek athygli á þessu vegna þess að í skýrslu ríkisstj. um aðgerðir í efnahagsmálum segir að ekki muni verða tekinn upp greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum fyrr en í byrjun næsta árs. Þetta er athyglisvert vegna þess að í umsögn Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar, í störfum nefndarinnar, sem vann frv. fyrir hæstv. ríkisstj., og í orðum hæstv. fjmrh. kemur mjög berlega í ljós að hentugt er að taka þennan hátt upp í lok árs og dreifa þess vegna tekjurýrnun, sem ríkissjóður verður fyrir, á tvö ár. Þetta hefur breyst. Í staðinn kemur yfirlýsing um að greiðslufrestur verði tekinn upp um næstu áramót, en sá böggull fylgir skammrifi, eins og hv. 1. þm. Reykn. benti rækilega á áðan, að þessu er lofað um leið og sagt er í skýrslu hæstv. ríkisstj. að heimta eigi inn svokallað tollafgreiðslugjald, sem talið er að gefi í ríkissjóð milli 50 og 70 millj., í því skyni að afla tekna til að greiða niður þær vörur sem vega þungt í vísitölunni. Út á þessa umræðubraut ætla ég ekki að fara í þessari ræðu, það gefst áreiðanlega tækifæri til þess síðar, en þetta lýsir því, hvernig mál ganga fyrir sig í hæstv. ríkisstj.: Hæstv. forsrh. lofar að leggja fram málið haustið 1980, nefnd á vegum núv. hæstv. fjmrh. vinnur að málinu, nefndarformaður kemur með þau skilaboð frá hæstv. ráðh. á fyrsta fund nefndarinnar að málið þurfi að liggja tilbúið fyrir haustið 1981, málið er lagt fyrir ráðh. í sept. 1981 og ráðh. liggur á málinu.

Mér er ekki kunnugt um að alþm. hafi fengið að ganga að þessum skýrslum, en áðan lýsti ráðh. því yfir í einkaviðtali að hann teldi efni skýrslunnar vera opinbert og heimilt fyrir fjölmiðla að birta það sem þar kemur fram. Er það vissulega athyglisvert. Því til viðbótar sagði hæstv. fjmrh. að frv. um tollkrít yrði lagt fram á næstu dögum. Það er augljóst að við flm. þessara frv. höfum kosið að leggja fram frv. núna í þriðja sinn til að ýta á aðgerðir ríkisstj., því að auðvitað gerum við okkur ljóst að þetta mál nær ekki fram að ganga á hv. Alþingi nema með atbeina ríkisstj. Þar eigum við hauk í horni, sem er sjálfur hæstv. forsrh. sem hefur lýst yfir að hann telji þetta vera til meiri háttar hagræðingar fyrir verslunina.

Í tillögunum til fjmrh. um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum kemur fram m. a. að nefndin hefur unnið starf sitt mjög gaumgæfilega og hefur m. a. samið reglugerð sem liggja á til grundvallar framkvæmd þessara laga. Í nefndinni voru fulltrúar þeirra hópa sem þetta mál varðar mest, þannig að víðtæk samstaða hefur náðst um málið.

Varðandi tolla og gjöld af aðflutningi til landsins er rétt að það komi fram, að í fræðibókum var á sínum tíma litið á tolla sem landamæraskatt í þeim tilgangi að hefta innflutning eða vernda innlenda framleiðslu. Með inngöngu Íslands í EFTA og samningum við Efnahagsbandalagið hefur viðhorf til tolla gerbreyst. Nú má segja að tollar þjóni fyrst og fremst þeim tilgangi að afla fjármagns í ríkissjóð til almennra nota fyrir ríkissjóð. Það má því segja að tollar hafi tekið á sig sömu mynd og aðrir neysluskattar, eins konar sölugjald, og þess vegna sé eðlilegt að greiðsla komi ekki í ríkissjóð fyrr en vara hefur lent hjá endanlegum notanda eða kaupanda vörunnar. Á þetta legg ég áherslu þar sem umræður hafa farið fram á þessum nótum víðast hvar annars staðar í svokölluðum menningarlöndum, þar sem fyrir löngu er búið að taka upp það kerfi sem hér er verið að leggja til að tekið verði upp.

Þar sem hæstv. fjmrh. hefur ekki séð sér fært að vera við þessa umr., sem honum var þó kunnugt um að yrði hér í dag, sé ég ástæðu til, af því að ég bjóst við að hann tæki til máls, að fara örfáum orðum um það, hver eru helstu efnisatriði í tillögunum sem nefndin um tollamál gerði í sinni skýrslu.

Þar er gert ráð fyrir að innflytjendur, sem flutt hafa til landsins fyrir meira en 25 millj. kr. á árinu 1981, fái greiðslufrest á tollum strax hinn 1. okt. n. k., síðan verði hópurinn stækkaður og gjaldfresturinn víkkaður út í um eins árs skeið svo að tekjutilhliðrun til ríkissjóðs dreifist á eitt ár. Þá er gert ráð fyrir því í frv., að breyting verði á svokölluðu tollafgreiðslugengi. Kvöð um bankastimplun verður felld niður, enda er sú kvöð aðeins til komin vegna krafna frá seljendum vörunnar erlendis, en hefur ekkert að gera með tollafgreiðslu. Í athugasemdum við frv., sem væntanlega verður lagt fram af hæstv. ríkisstj., er sem sagt gert ráð fyrir að lögum verði breytt með svipuðum hætti og við gerum ráð fyrir í okkar frv. Þar segir m. a. svo, með leyfi forseta:

„Verði frv. þetta samþykkt og nauðsynlegar heimildir fást til þess, að lánsviðskiptum vegna aðflutningsgjalda verði komið á, verður jafnframt að gera ýmsar breytingar á lögum nr. 120 frá 1976, um tollskrá o. fl. Er gert ráð fyrir að breytingum þessum verði gerð viðeigandi skil í frv. því að tollskrárlögum sem nú er unnið að í fjmrn. og fyrirhugað er að leggja fyrir Alþingi innan tíðar.“

Ég vek athygli á að í sjálfu tollkrítarfrv. hæstv. ríkisstj., sem enn er í skrifborðsskúffu hæstv. fjmrh., er aðeins gert ráð fyrir breytingum á lögum um tollheimtu. Forsendan fyrir því, að ekki er farið út í breytingar á tollskrárlögum, eins og við gerum ráð fyrir, flm. þessa frv. á þskj. 211, er að beðið er eftir heildarendurskoðun rn. varðandi það atriði.

Eins og í okkar tillögum er gert ráð fyrir því í tillögum nefndarinnar, að innflutningamiðlarar geti tekið til starfa og hægt sé að gefa út undirfarmskírteini, sem er mjög mikilvægt mál því að hingað til hefur ekki verið hægt að taka út vörur nema leysa út allar þær vörur sem nefndar eru á farmskírteininu. (AG: Nema í tollvörugeymslu.) Nema í tollvörugeymslu, að sjálfsögðu, en tollvörugeymsla var einhver mesta bót fyrir verslunina sem upp var tekin á sínum tíma, og hv. 3. þm. Reykv., sem réttilega minnti mig á það atriði, á mestan þátt í því, að það náði fram að ganga. Þess ber að geta, fyrst á það er minnt, að þetta frv. hefur ekki áhrif á tollafgreiðslu tollvörugeymslu því að sá frestur, sem hér er gefinn, er til viðbótar þeim fresti sem tollvörugeymslan hefur.

Það má ugglaust deila um hvort eðlilegt sé að innflytjendur þurfi að leggja fram tryggingu fyrir fram, ef þeir eiga að geta stundað viðskipti við tollyfirvöld með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Má í því sambandi benda á að ekki þarf nú að leggja fram tryggingu varðandi söluskattsgreiðslur, sem þó verða mjög svipaðar að eðli og tollur eftir að þessi háttur verður upp tekinn.

Þá ber einnig að nefna það, sem kemur fram í nefndarskýrslunni og einnig hefur komið fram í störfum fjvn., að tölvuvæðing tollstjóraembættisins gerir það að verkum, að mun auðveldara er að eiga við þessi mál en hingað til hefur verið.

Ég vil að lokum geta þess, að það hefur verið deilt um hvort í núverandi löggjöf sé heimild til greiðslufrests á aðflutningsgjöldum eða ekki, og hefur tollstjórinn í Reykjavík, Björn Hermannsson, talið að heimildin sé nú þegar í lögum. Rétt er að minna á að þeir, sem flytja til landsins t. d. timbur og járn frá Eystrasaltshöfnunum, hafa fengið greiðslufrest á tollum. Hefur það helgast af því, að ís hefur lokað útflutningshöfnum yfir vetrarmánuðina. Þar er vitnað til hinnar almennu reglu sem er í tollalögunum um greiðslufrest. Á sama hátt hefur verið greiðslufrestur á innflutningi til skipasmiðja og vegna skipaviðgerða, bæði til útgerðarmanna og annarra. Með sérstöku endurgreiðslukerfi hafa margir bifreiðainnflytjendur gert samning við tollyfirvöld um 20 daga greiðslufrest. Eins er greiðslufrestur á tolli og aðflutningagjöldum á gas- og brennsluolíu. Þrátt fyrir þessa heimild í tollalögunum verður að gera ráð fyrir að það þurfi jákvæð almenn ákvæði um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum sem tiltaki nákvæmlega hvað greiðslufresturinn eigi að vera langur og hverjir eigi að njóta hans, til þess að tollstjórinn og yfirvöld tollamála á landinu telji sig verða að fara eftir slíkum ákvæðum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég hef jafnframt í þessari ræðu minni fjallað um frv., sem er á þskj. 211 og er 162. mál Alþingis og er næst á dagskránni, og tel ástæðulaust þess vegna að taka til máls um þann dagskrárlið. Að lokum vil ég óska eftir því, að þessum málum verði, eins og því máli sem var hér fyrr á dagskránni, vísað til hv. fjh.- og viðskn.