11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2372 í B-deild Alþingistíðinda. (1995)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár vegna þess að það hefur komið í ljós, að ríkisstj. hefur sett brbl. í leynum, ef svo má orða það, sett slík lög án þess að gera almenningi grein fyrir því, að lögin hafi verið sett, án þess að gefa út fréttatilkynningu um slík lög eins og venja er.

Í umr. í gær í hv. Ed. um staðfestingu á brbl. um ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu gerði ég að umtalsefni að hljótt hefði verið um setningu þessara brbl., en þau varða upptöku á 6% gengismun í Verðjöfnunarsjóð, þar sem mig ræki ekki minni til að hafa rekist á fréttir af þessum brbl. Spurðist ég fyrir um hvort þau hefðu ekki verið kynnt með venjubundnum hætti, með fréttatilkynningu frá ríkisstj. Hæstv. forsrh. svaraði því þannig, að hann vissi ekki betur en það hefði verið gert heyrinkunnugt um leið og brbl. voru gefin út. Um hvort formleg fréttatilkynning hefði verið gefin út skyldi hann ekki segja, það skyldi kannað, en hann héldi að þetta hefði ekki farið fram hjá neinum sem hlut ætti að máli.

Ég hef nú kannað það, að enginn fjölmiðill skýrði frá setningu þessara brbl. þegar þau voru gefin út. Það er reyndar ekki nema von. Blaðafulltrúi ríkisstj. hefur staðfest við mig, og ég nota hans orð, að það hafi engin fréttatilkynning verið gefin út um setningu þessara brbl., það sé alveg ljóst. Það liggur því fyrir sem staðreynd í málinu að ríkisstj. gaf ekki út fréttatilkynningu um setningu þessara brbl.

Þetta tel ég vera býsna alvarlegt. Almenningur á heimtingu á að fá að vita um svona hluti. Lög eru samkv. almennu reglunni samþykkt hér á Alþingi fyrir opnum tjöldum þar sem allir hafa tækifæri til að fylgjast með, þ. á m. fjölmiðlar. Brbl. eru sett fyrir luktum dyrum. Þetta eru undantekningarákvæði og þess vegna sérstök ástæða til að ríkisstj. geri grein fyrir því þegar hún setur slík lög. Almenningur á heimtingu á að fá að vita um þau. Þess vegna hefur líka þeirri reglu verið fylgt, að fréttatilkynningar væru gefnar út um setningu slíkra laga.

Ég spyr: Hvers vegna var verið að pukrast með setningu þessara laga? Hvers vegna var haft svona hljótt um málið? Var ríkisstj. hrædd við eitthvað? Ég tel að lagasetning eigi aldrei að vera pukursmál í lýðræðislegu þjóðfélagi og síst af öllu þegar verið er að beita undantekningarákvæði eins og því að setja brbl. þegar Alþingi situr ekki. Því kann að verða svarað til, að þetta hafi verið birt í Stjórnartíðindum. Veit ég það vel, annars öðlast lögin ekki gildi, að þar er um formlega birtingu að ræða. En Stjórnartíðindi eru ekki lesin af fjöldanum. Þau eru ekki einu sinni borin á borð alþm. Birting í Stjórnartíðindum svarar því ekki þeim tilgangi að gera almenningi ljóst að lög hafi verið sett.

Hæstv. forsrh. sagði í gær að hann héldi að þetta hefði ekki farið fram hjá neinum sem hlut eiga að máli. Ég staðhæfi að þetta er rangt. Alþm. eiga t. d. hlut að máli, og ég er sannfærður um að þetta hefur farið fram hjá mörgum þeirra. Reyndar er ég sannfærður um að fjölmargir fiskverkendur hafa alls ekki haft hugmynd um þessa lagasetningu. En það er hluti af lýðræðinu að menn fái að fylgjast með. Öll þjóðin á hér í raun og sannleika hlut að máli og þess vegna á hún að fá um þetta að vita.

Það má segja að málið sjálft skipti ekki sköpum í þessum efnum. Þó nær heimildin til ca. 60–70 millj. kr. fjármagnstilflutnings og það verður að teljast dálagleg upphæð, jafnvel þótt ríkisstj. ætli sér ekki að nota nema helming þeirrar upphæðar eða tæplega það, um 25 millj., gæti ég trúað. Það, sem skiptir meginmáli, er að ríkisstj. hefur tekið upp þá hætti að setja lög með leynd, að uppfylla einungis ströngustu formskilyrði, en koma lagasetningunni ekki á framfæri við þjóðina.

Spurningin er: Hvaða reglur gilda hjá ríkisstj. um það, hvernig hún segir frá setningu brbl.? Hefur hún sett sér einhverjar reglur um það efni? Ég vil hins vegar segja það strax, að um þetta efni tel ég að einungis geti gilt ein regla, nefnilega sú, að það eigi að skýra frá því opinberlega og með fréttatilkynningu frá ríkisstj. í hvert einasta skipti sem þessi heimild til brbl.-setningar er notuð.

Ég vil segja það, að hér er í rauninni um eins konar laumuspil að ræða. Í því að skýra ekki frá þessu með opinberum hætti, eins og venjan hefur verið, felst ljótt laumuspil og afleitt fordæmi. Maður getur spurt sig hverju við eigum þá von á næst. Verða e. t. v. sett skattalög með brbl. og síðan ekki hirt um að gera þjóðinni grein fyrir því með almennum hætti?

Ég vil beina því til hæstv. forsrh., að hann geri grein fyrir því, hvað ráðið hafi því að ríkisstj. hafi hér farið af venjubundinni braut og pukrast með þetta mál í stað þess að gefa út fréttatilkynningu svo að öllum gæti verið það kunnugt.