11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (1996)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. 14. jan. s. l. var ákveðin breyting á gengi íslenskrar krónu. Samkv. lögum er það Seðlabanki Íslands sem ákveður gengið að fengnu samþykki ríkisstj. Sama dag og gengisbreytingin var ákveðin, 14. jan., gaf Seðlabanki Íslands út fréttatilkynningu þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Bankastjórn Seðlabankans hefur, að fengnu samþykki ríkisstj. og að höfðu samráði við bankaráð, ákveðið lækkun meðalgengis íslenskrar krónu um 12%.“ — Síðan segir: „Ástæður gengisbreytingarinnar eru annars vegar versnandi viðskiptakjör þjóðarbúsins síðustu mánuði, en hins vegar hækkanir erlendis. Miðast gengisbreytingin við að leiðrétta það misræmi, sem þegar er á orðið í þessu tilliti, ásamt því að gera sjávarútveginum fært að komast að niðurstöðu um almennt fiskverð.“ — Síðan segir í fréttatilkynningu Seðlabankans: „Gjaldeyrisdeildir bankanna hafa verið lokaðar fyrir almenna afgreiðslu frá og með fyrsta viðskiptadegi ársins, 5. jan., á meðan reynt hefur verið til þrautar að ná lausn allra þátta þess vanda er nú veldur stöðvun sjávarútvegsins. Þar sem línurnar hafa nú skýrst í þessum efnum, svo að unnt hefur verið að taka ákvörðun um nýtt gengi, munu eðlileg gjaldeyrisviðskipti geta hafist að nýju frá hádegi í dag.“

Þetta er fréttatilkynning Seðlabanka Íslands um sjálfa gengisbreytinguna, ástæður hennar og rök fyrir henni. Ég ætla að það komi mjög skýrt fram í þessari fréttatilkynningu. Það er eðlilegt og sjálfsagt að fréttatilkynning um gengisbreytingu komi frá Seðlabanka, en ekki frá ríkisstj., þar sem það er samkv. lögum verkefni hans að ákvarða gengið, en eins og ég tók fram með samþykki ríkisstj.

Varðandi svo þau brbl. sem gefin voru út sama dag, þá fjölluðu þau um gengismismun eða gengishagnað og var þar ákveðið að 6% af gengishagnaði skyldu tekin frá og honum ráðstafað eftir ákvörðun ríkisstj. Það var síðan ákvarðað að venju með samþykkt ríkisstj. og bréfum frá sjútvrn. til Seðlabanka hvernig með þetta skyldi farið. Aðalefni þess máls var það, að frystihúsin eða frystingin skyldi sjálf halda og fá að njóta þess gengishagnaðar sem yrði af birgðum, en hins vegar skyldi reiknaður 6% gengismunur af saltfiski, skreið, loðnumjöli og loðnulýsi og var það fé látið ganga til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, viðkomandi deilda.

Brbl. voru gefin út með venjulegum hætti samkv. stjórnarskránni og birt samdægurs í A-deild Stjórnartíðinda. Stjórnartíðindi fara til allra frétta- og fjölmiðla.

Hv. þm. spyrst fyrir um það — raunar spyrst ekki fyrir um það, heldur deilir á það, að ríkisstj. hafi ekki sent út fréttatilkynningu um sjálf brbl. Varðandi meginefni þessa máls, gengisbreytinguna, hef ég greint frá því áður að Seðlabankinn sendi út ítarlega fréttatilkynningu um það mál.

Varðandi útgáfu brbl. hefur athugun leitt í ljós að ríkisstjórnir hafa yfirleitt ekki sent út fréttatilkynningar í sambandi við útgáfu þeirra. Það heyrir fremur til undantekninga. Hins vegar er öllum ljóst að þetta mál var kynnt bæði með útgáfu Stjórnartíðinda og því, að allir fjölmiðlar fá Stjórnartíðindi. Nú má vera, eins og hv. þm. sagði, ég hef ekki kannað það, að fjölmiðlar hafi ekki skýrt frá þessum brbl. Það skal ég ekkert segja um. En þó að ríkisstj. sendi út fréttatilkynningu, er ekki trygging fyrir því, að fjölmiðlar birti þá fréttatilkynningu, og það er iðulega sem einstakir fjölmiðlar stinga fréttatilkynningunum undir stól eða birta e. t. v. hrafl af þeim.

Varðandi fréttatilkynningar almennt frá ríkisstj. hefur núv, ríkisstj. ekki fremur en aðrar ríkisstjórnir séð ástæðu til að setja sér reglur um útgáfu fréttatilkynninga. Þær eru gefnar út þegar ástæða þykir til.

Þetta eru þær upplýsingar sem ég vil gefa um þetta mál. Hlýtur að vekja furðu að hv. þm. Kjartan Jóhannsson skuli telja ástæðu til að kveðja sér hljóðs utan dagskrár í Sþ. til slíkra aths. eins og hann gerði hér, því að það er hvorki meira né minna en að ríkisstj. hafi haft í frammi laumuspil, hún hafi sett brbl. í leynum. Leyndardómurinn er í því fólginn, að brbl. eru birt á lögskilinn hátt í opinberu tilkynningablaði ríkisstj. og það sent öllum fjölmiðlum.

Í rauninni þarf ekki fleiri orðum um þetta mál að fara. En ég get ekki orða bundist um hvað þessi fyrirspurn og ræða hv. þm. og tilefni til að kveðja sér hljóðs utan dagskrár, þó að hann fengi í rauninni skýringar í gær í umr. í hv. Ed., lýsir mikilli málefnafátækt hv. þm.