11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2374 í B-deild Alþingistíðinda. (1997)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Vegna fram kominnar fsp. vil ég upplýsa það, að sú ákvörðun, sem tekin var með brbl., að taka helming af gengishagnaði þriggja greina sjávarútvegsins og leggja í Verðjöfnunarsjóð var rædd við fulltrúa hagsmunaaðila og m. a. var þetta hvað eftir annað rætt í sambandi við fiskverðsákvörðun og að sjálfsögðu við fulltrúa í stjórn Verðjöfnunarsjóðs. Þó að ég geti að sjálfsögðu ekki ábyrgst að slíkt hafi komist til allra einstakra framleiðenda í viðkomandi greinum vil ég leyfa mér að fullyrða að samtökum framleiðenda var mjög vel kunnugt um þetta og meira að segja svo langt gengið að það var samið um að eftir yrði skilið nægilega mikið til að þessar greinar hefðu góða afkomu, 5–7% í plús, eins og um var samið eða um var talað.

En út af því, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að hér væri um mikla millífærslu á fjármagni að ræða, vil ég segja það og leggja áherslu á að hér er ekki um millífærslu að ræða. Það fjármagn, sem hér er um að ræða, rennur allt óskipt í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins og allt í viðkomandi deildir þess sjóðs. Ég hef ekki orðið var við að neinn ágreiningur hafi orðið um þessa ráðstöfun. Þvert á móti hef ég heyrt, m. a. á hinu háa Alþingi, mjög ákveðna og að sumu leyti réttmæta gagnrýni á að ekki hafi verið nægilega tekið af þeim greinum í sjávarútvegi, þar sem afkoma hefur verið góð, og lagt í Verðjöfnunarsjóðs til hinna mögru ára.

Þetta vildi ég upplýsa í þessu sambandi og vil taka undir það með hæstv. forsrh., að mér þykir þessi fsp. nokkuð undarleg og vísa til þess sem ég hef sagt, að fulltrúum hagsmunaaðila var vel kunnugt um hana. Það taldi ég fyrir mitt leyti mikilvægast í þessu máli.