11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2387 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

89. mál, efling atvinnulífs á Vestfjörðum

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Við hv. þm. Matthías Bjarnason höfum leyft okkur að flytja á þskj. 92 svofellda till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera áætlun um eflingu atvinnulífs og aukna fjölbreytni í atvinnustarfsemi á Vestfjörðum. Í áætluninni verði tillit tekið til sérkenna atvinnulífsins á Vestfjörðum, áhersla lögð á fyllri nýtingi vestfirskra náttúrugæða ásamt með þekkingu og reynslu Vestfirðinga á sviði útgerðar og fiskvinnslu og þeirri aðstöðu sem þar hefur verið sköpuð til frekari úrvinnslu sjávarafurða og til nýiðnaðar.

Að lokinni áætlunargerðinni skal ríkisstj. leggja hana fyrir Alþingi ásamt tillögu um framkvæmd hennar, þ. á m. um hvernig að hugsanlegri fjármögnun skuli staðið.“

Till. þessi var flutt á s. l. vori, en náði ekki afgreiðslu þá og er því endurflutt núna. Í fyrra urðu talsverðar umræður um þessa till. á hv. Alþingi og þar sem nú eiga sæti á þingi sömu þm. og sátu á Alþingi í fyrra tel ég ástæðulaust að fara um till. mörgum orðum.

Ég ætla aðeins að vekja athygli á því, að í þeim miklu umræðum, sem nú eiga sér stað um virkjunarframkvæmdir í ýmsum kjördæmum og héruðum landsins og um orkuframkvæmdir og uppbyggingu nýiðnaðar í tengslum við slíkar virkjunarframkvæmdir, er það aðeins einn landshluti sem segja má að sé ekki með í þeirri umræðu. Eini landshlutinn, sem hvorki virðist eiga að njóta góðs af virkjunarframkvæmdum þeim, sem um er rætt, né heldur þeim nýiðnaðartækifærum, sem verið er að tala um að skapa í sambandi við slíkar orkuframkvæmdir, er einmitt Vestfirðir. Þó er ástandið á Vestfjörðum þannig í orkumálum sérstaklega að ég geri ráð fyrir að ekkert kjördæmi annað, enginn landshluti annar búi við jafnmikla erfiðleika og einmitt Vestfirðir.

Um margra ára skeið er búinn að ríkja mjög alvarlegur raforkuskortur á Vestfjörðum. Þar eru aðeins til, með einni undantekningu, gamlar dísilaflvélar sem hafa átt að vera varastöðvar fyrir vatnsaflsorkuverin í kjördæminu, en slíkur raforkuskortur hefur verið á Vestfjörðum að alla vetur þangað til nú á síðasta vetri hafa þessar gömlu aflstöðvar verið keyrðar svo til alla daga, 12 og jafnvel upp í 24 klukkustundir á sólarhring, þannig að ekkert varaafl hefur verið til í fjórðungnum heilu mánuðina á þessum árstíma. Þetta hefur að sjálfsögðu valdið gríðarlegum útgjöldum, því að allar þessar gömlu stöðvar víðs vegar í þorpum og sjávarplássum á Vestfjörðum eru orðnar úr sér gengnar og mjög olíufrekar. Því hefur kostnaður þessu samfara verið óheyrilega mikill.

Um öryggisleysið, sem af þessu stafar, þarf ég að sjálfsögðu ekki að fara mörgum orðum þegar svo er komið að ekkert varaafl er til í fjórðungnum svo mánuðum hefur skipt. Þarna eru mörg nýtísku frystihús með stórum frystigeymslum, og það segir sig auðvitað sjálft hvílík verðmæti eru í húfi ef eitthvað af þessum úreltu aflstöðvum hefði bilað og til mikillar orkuskömmtunar hefði komið. Þá hefði svo getað farið að ýmis þau verðmæti, sem eru í birgðageymslum vestfirskra frystihúsa, hefðu legið undir skemmdum.

Þar að auki hefur þessi orkuskortur á Vestfjörðum staðið uppbyggingu atvinnulífs þar mjög fyrir þrifum. Þetta hefði átt að batna og batnaði nokkuð með tilkomu svonefndrar Vesturlínu, þegar Vestfirðir voru tengdir við aðalorkukerfi landsmanna. Gallinn var bara sá, að þegar sú lína kom í notkun má segja að þorrið hafi að mestu umframorka á Landsvirkjunarsvæðinu, það var ekki nema takmarkað rafmagn sem hægt var að selja til Vestfjarða eftir Vesturlínunni. Þar að auki var svo litið á af Landsvirkjun að Orkubú Vestfjarða væri þarna nýr aðili, þó svo Vestfirðingar hefðu um margra ára skeið skipt við Landsvirkjun og RARIK á meðan Rafmagnsveitur ríkisins sáu um orkuvinnslu og orkudreifingu á Vestfjörðum. M. a. vegna þess, hvernig á málin var litið af Landsvirkjun og RARIK vegna tilkomu Orkubúsins, urðu Vestfirðingar að greiða miklu hærra verð fyrir þá raforku, sem þeir keyptu eftir Vesturlinu, heldur en Rafmagnsveitur ríkisins og Landsvirkjun seldu öðrum viðskiptamönnum sínum, þannig að einnig sú raforka, sem Vestfirðingar þó fengu eftir Vesturlínunni, var mun dýrari lengi vel en sú raforka sem öðrum var seld með sambærilegum hætti. Þá hefur það einnig komið fyrir, að þessi raflína hafi bilað, og þá ríkir hreint neyðarástand í þessum landsfjórðungi.

Ég geri mér það alveg fyllilega ljóst, að með stofnun Orkubús Vestfjarða tóku Vestfirðingar á sig sjálfir nokkra byrði í sambandi við öflun raforku í fjórðungnum, og e. t. v. hefur sú ákvörðun orðið til þess, að þrátt fyrir ástandið í orkumálum á Vestfjörðum eru Vestfirðir og nauðsyn þeirra á raforkuframkvæmdum og úrbótum í raforkumálum ekki jafnmikið til umræðu og ella hefði verið. Verður að sjálfsögðu að skoða það mál sérstaklega ef sú er niðurstaðan af stofnun Orkubús Vestfjarða meðal annars.

Meginatriði málsins er þó að vekja athygli manna á því, hvílíkt ástand hefur ríkt í orkumálum á Vestfjörðum og að því ástandi hefur síður en svo létt, þó svo að Vesturlínan hafi verið tekin í notkun.

Raforkuverð og annað orkuverð á Vestfjörðum er síðan kapítuli út af fyrir sig. Ég ætla ekki heldur að fara mörgum orðum um það þar sem þau mál hafa verið rædd á Alþingi nokkrum sinnum. Þó get ég ekkí látið hjá liða að nefna það sem dæmi, að samkv. alveg nýjum upplýsingum um orkuverð víðs vegar á landinu, sem ég fékk fyrir um það bil einum klukkutíma í hendur, kemur í ljós að fiskvinnslufyrirtækin á Vestfjörðum og önnur atvinnufyrirtæki þar borga mun hærra raforkuverð en gerist og gengur nokkurs staðar annars staðar á landinu. Þetta mun að sjálfsögðu hafa mjög uggvænlegar afleiðingar fyrir uppbyggingarmöguleika þessara atvinnufyrirtækja, sem áður fyrr og lengi vel hafa verið svo öflug, og hlýtur að setja þeim skorður varðandi framtíðarstarf og framtíðaruppbyggingu ef svo heldur áfram sem verið hefur.

Herra forseti. Margvíslegar aðstæður á Vestfjörðum gera það mögulegt að efla mjög og styrkja atvinnulíf á því svæði án þess að það þurfi að kosta samfélagið verulegt fjármagn. Að vísu eru ekki möguleikar á Vestfjörðum til mikilla vatnsvirkjunarframkvæmda, a. m. k. ekki af þeirri stærð sem nú er talað um varðandi virkjun í Blöndu eða á Austurlandi. Þó eru þar nokkrar ár sem hagkvæmt er að virkja ef markaður finnst. Þá er ekki heldur mikið um það talað og sjálfsagt ekki mikill áhugi á því meðal Vestfirðinga að setja þar upp orkufrekt iðjuver, eins og m. a. er rætt um að setja á fót í öðrum héruðum landsins. Engu að síður vil ég leggja áherslu á að margvíslegir nýiðnaðarmöguleikar eru fyrir hendi einmitt í þessum landshluta, þ. á m. nýiðnaðarmöguleikar, sem eru mjög ábatasamir, og einnig nýiðnaðarmöguleikar sem eru þannig að til þeirra þarf mjög verulega orku. T. d. vil ég vekja athygli á því, að við Ísafjarðardjúp — á tiltölulega litlu svæði — eru saman komin þau fiskverkunar- og frystihús á Íslandi sem eru einna fullkomnust allra slíkra húsa og hafa yfir að ráða einhverju sérhæfasta vinnuafli sem við fiskvinnslu vinnur, fólki sem er ákaflega vel fært í sínu starfi og hefur mikla þekkingu og reynslu bæði af því að vinna við fiskverkun og reka slík fyrirtæki. Þessi fyrirtæki eiga jafnframt ýmis af nýjustu og fullkomnustu veiðiskipum flotans og ekki aðeins það, heldur reka þau skip og vinna á þeim skipum þeir sjómenn og skipstjórnarmenn sem langbestum árangri hafa náð allra sjósóknara á landinu.

Þetta er að sjálfsögðu auðlind bæði í þekkingu, mannafla, tækjum og aðstöðu sem hlýtur að vera þjóðhagslega hagkvæmt að festa fé í því að skammt er á auðug fiskimið frá Vestfjörðum.

Það hefur hins vegar ekki verið mikið gert að því að styðja við bakið á ýmissi viðleitni t. d. manna við Djúp til þess að reyna að fjárfesta í þessari reynslu og þekkingu með nýiðnaðarmöguleika fyrir augum.

Ég vil aðeins nefna það t. d., að risið hefur upp á Ísafirði fyrirtæki til framleiðslu á rafeindabúnaði sem gæti ekki aðeins orðið fyrir fiskverkunarhús, heldur einnig fiskiskip. Þetta fyrirtæki hefur staðið sig ákaflega vel, m. a. í samkeppni við mun öflugri framleiðsluaðila hér í Reykjavík sem notið hafa mjög verulegrar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu af almannafé og átt mikinn aðgang að rannsóknarkröftum við Háskóla Íslands og sérfræðistofnanir Háskólans, sem einnig eru kostaðar af almannafé. Engu að síður hefur þetta litla fyrirtæki í rafeindaiðnaði vestur á Ísafirði getað boðið framleiðsluvöru sem er meira en samkeppnishæf við framleiðslu héðan úr Reykjavík í svipaðri framleiðslugrein, sem er þó kostuð að verulegu leyti af almannafé. Hún er ekki aðeins samkeppnisfær við þá framleiðslu í verði, heldur einnig að gæðum. Mörg af stærri fyrirtækjum í fiskvinnslu utan Vestfjarða hafa frekar valið að kaupa þessa framleiðsluvöru af hinu ísfirska fyrirtæki heldur en af því öfluga fyrirtæki sem risið hefur hér í Reykjavík með ríkissjóð og Háskóla Íslands að bakhjarli. Þessi árangur hins vestfirska fyrirtækis á sviði tölvubúnaðar hefur náðst fyrst og fremst vegna þess, að þeim hefur verið veittur aðgangur að hinum fullkomnu frystihúsum við Ísafjarðardjúp sem hafa gengist undir að taka við tilraunaframleiðslu frá þessu fyrirtæki og hafa leyft þessu vestfirska fyrirtæki í tölvutækni að reka tilraunastarfsemi í húsum sínum og notfæra sér þá þekkingu og þá reynslu sem þar er að fá.

Þessi árangur þessa litla fyrirtækis, sem enn annar hvergi nærri eftirspurninni, sýnir aðeins hvað hægt er að gera ef menn vilja fjárfesta í þeirri þekkingu, í þeim mannafla og í þeirri aðstöðu sem þegar hefur verið sköpuð í þessari tilteknu atvinnustarfsemi vestur á fjörðum. Þessi árangur hefur náðst án nokkurrar utanaðkomandi aðstoðar og þetta litla fyrirtæki getur haldið sínu og vel það í samkeppni við aðila sem eru meira og minna studdir af opinberu fé. Það sýnir og sannar hvað hægt er að gera ef vilji er fyrir hendi til að nýta aðstæður sem fyrir hendi eru á viðkomandi stöðum og hvergi gerast betri en þar.

Auðvitað er það ljóst, að ef íslenska þjóðin ræðst í mjög miklar framkvæmdir á sviði virkjunarmála og sköpunar nýiðnaðartækifæra í tengslum við þær virkjunarframkvæmdir á næstu árum, eins og rætt hefur verið um, munu þær framkvæmdir kosta mjög verulegt fjármagn. Það eru ekki miklar líkur á að íslenska þjóðin geti ráðið við það — á sama tíma og hún tekur slík stórvirki fyrir — að festa verulegt fé í annarri atvinnustarfsemi annars staðar á landinu. Áður en slíkar ákvarðanir eru teknar tel ég því nauðsynlegt að menn kanni hvort ekki geti verið hagkvæmt að festa fé í aðstöðu og þekkingu sem þegar er fyrir hendi í landinu og betri er talin en víðast hvar annars staðar í veröldinni, þannig að það skili árangri, fremur en menn reyni að verja takmörkuðu fé þjóðarinnar til þess eins að fjárfesta í dýrum atvinnurekstri sem við Íslendingar höfum sjálfir enga reynslu af og verðum því að sækja alla þekkingu og alla reynslu um rekstur á til annarra þjóða.

Þessi till. til þál. fjallar um það atriði eitt í fyrsta lagi að vekja athygli manna á því, að það er vissulega hægt að festa fé í atvinnustarfsemi sem skapar ný atvinnutækifæri, m. a. atvinnustarfsemi sem notast þarf við mikla orku, án þess þó að sá fyrirtækjarekstur þurfi endilega að byggjast á vatnsbakkanum þar sem orkuver verður væntanlega byggt. Það er ekki mikill vandi að flytja raforku frá vatnsaflsstöðvum alllanga vegalengd. Það þarf ekki endilega saman að fara að fyrirtækin, sem byggð eru til þess að nýta þá orku, þurfi að rísa svo til á vatnsbakka þess fljóts sem virkjað er. Það er hægt að nýta orkuna einnig á öðrum stöðum. Og það er mjög eðlilegt sjónarmið og þá ekki síst varðandi sjónarmið okkar Alþfl.-manna um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum landsins, að öll þjóðin njóti góðs af stórvirkjunarframkvæmdum, en ekki bara sá hluti hennar sem býr í næsta nágrenni við virkjunarstaðinn.

Í öðru lagi er meginmarkmið þessarar till. að fram fari athugun á því, með hvaða hætti megi nýta þá þekkingu, þá aðstöðu og þá reynslu og þær aðstæður aðrar sem búið er að byggja upp á stað eins og Vestfjörðum og þar er fyrir hendi bæði af mannavöldum og náttúrunnar hendi, til þess að skapa fleiri störf í nýjum atvinnugreinum og geta í því sambandi byggt á reynslu og þekkingu og atvinnustarfsemi sem Íslendingar eru kunnugri en aðrar þjóðir og hafa náð betri árangri í en aðrar þjóðir. M. ö. o. er ekki nauðsynlegt, þó svo að farið verði út í sköpun nýrra atvinnutækifæra, út í nýiðnað, að velja þær iðngreinar einar og þær framleiðslugreinar einar sem engin reynsla er fyrir hér á landi, svo að við Íslendingar verðum að sækja alla okkar þekkingu til erlendra þjóða til þess að árangur geti náðst.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa litlu till., en óska eftir og legg til að umr. um hana verði frestað og henni vísað til hv. atvmn.