11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2391 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

148. mál, nýting kolmunna og vinnslustöð á Austurlandi

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 173 hef ég leyft mér að endurflytja till. um nýtingu kolmunna og vinnslustöð á Austurlandi þar sem segir svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hefjast nú þegar handa um nýtingu kolmunna til veiða og vinnslu. Skal í því sambandi komið á fót vinnslustöð á Austurlandi til vinnslu kolmunnaafurða með frystingu og þurrkun í huga.

Ég hef áður flutt um þetta mál ítarlega framsögu og í grg. segir nær allt sem um málið á og þarf að segja. Fáein áhersluatriði vil ég þó nefna:

Í fyrsta lagi hina gífurlegu veiði Sovétmanna rétt við lögsögumörk okkar. Við þurfum sannarlega að taka þarna aukinn þátt, láta þá ekki sitja þar að eina — og aðra þá sem þar veiða þótt þeir séu þar stærstir. Ég viðurkenni um leið að það hefur verið talsvert gert til þess að örva og styðja þessar veiðar, en með allt of litlum árangri. Þeir, sem gerst þekkja til, segja mjög ákveðið að í engu sé þetta fullreynt. Við eigum hér sannarlega mikla möguleika, — möguleika sem við eigum að nýta til hins ítrasta og þurfum að fylgja eftir með auknum stuðningi við þessar veiðar og stuðla að því að skip okkar sæki í þessar veiðar.

Í öðru lagi hefur aldrei verið meiri ástæða en nú til að nýta kolmunna sem fiskstofn og eiga eðlilega og sjálfsagða hlutdeild í þeim miklu veiðum sem fram fara á þeim fiskstofni. Ástand loðnustofns okkar er talið slíkt í dag að horfurnar blátt áfram kalla á að við nýtum alla aðra möguleika til verðmætaöflunar og verðmætasköpunar og um leið verkefna fyrir stóran hluta okkar fiskiskipastóls. Athugun þessa máls hefur því aldrei verið brýnni í ljósi þessara staðreynda — eða við skulum segja þeirra spár sem fiskifræðingar okkar hafa uppi haft í ljósi athugana sinna.

Í þriðja lagi er fyllsta ástæða til að kanna vinnslustöðvamöguleikana alveg sér í lagi. Ástæður þess eru raktar í grg., en aðeins á það bent nú, að í dag er kolmunninn nær eingöngu bræðslufiskur. Afurðir eru því hverfandi miðað við það sem orðið gæti ef við næðum valdi á þeirri úrvinnslu sem till. lýtir að, þ. e. herslu og frystingu, með að sjálfsögðu aukinni markaðsleit, sem er e. t. v. aðalatriðið. Þar eru hins vegar miklir möguleikar, sem raktir eru í grg., ef vel er að staðið, þó á ólíkum forsendum sé. Annars vegar er það manneldisþátturinn og hins vegar gæludýrafóður. Náum við valdi á veiðunum, vinnslunni og vinnum þá markaði sem nauðsynlegir eru, þá eru í fáum greinum fiskveiða og vinnslu meiri möguleikar ef þá nokkurri.

Í fjórða lagi kemur til nýting þeirra vinnslustöðva sem þegar eru fyrir. Hef ég af ýmsum ástæðum nefnt Reyðarfjörð og verksmiðju Síldarverksmiðja ríkisins þar sem æskilega vinnslustöð til kolmunnavinnslu, alhliða vinnslu svo sem till. fjallar um. Sá maður, sem hefur fjallað um þessa grg. öðrum fremur, Sigurjón Arason hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, hefur sérstaklega bent á þann stað. Og við þekkjum það, þm. Austurlands, að sú verksmiðja hefur verið nær alveg lokuð síðustu ár. Full ástæða er til að huga þar að nýjum verkefnum.

Sveitungar mínir hafa að vísu viljað fá loðnu í þessa bræðslu, viljað fá hana í vinnslu, en hafa ekki sinnt þessu verkefni. Þeir hafa, að því er mér finnst, vart tekið eftir því, enda hugur þeirra nú um sinn staðið til annars verkefnis og stærra. Hins vegar hafa aðrir veitt þessu máli því meiri athygli og vilja gjarnan fá að leggja þar hönd á plóginn, ef unnt reyndist að vekja þessa vinnslu til lífs svo sem vera ber. Það eru Vopnfirðingar. Svo sannarlega liggur Vopnafjörður vel við þessum miðum og jafnsjálfsagt er að skoða hann sem Reyðarfjörð í þessari mynd. Og sannleikurinn er auðvitað sá, að verði stóriðja á Reyðarfirði er ég fyllilega á því, að ýmsar aðgerðir þurfi á hinum ýmsu svæðum á Austurlandi sem fjær liggja, — aðgerðir til að tryggja búsetu þar og blómlega byggð. Þá væri vel við hæfi að Vopnafjörður kæmi inn í mynd þessarar till. svo sem raunar er gert í grg. Sú aðgerð gæti a. m. k. hjálpað þar verulega til.

Rökstuðningur þeirra Magna Kristjánssonar skipstjóra og Sigurjóns Arasonar fyrir þessu máli er rakinn svo rækilega í grg. að þar er fáu við að bæta. Þar er rakin kostnaðarhliðin á vinnslustöð af fullkomnasta tagi, og ekki þarf okkur að blöskra það þegar miðað er við þær tölur sem við sjáum úr stóriðjudæmum okkar. Hér er því um tiltölulega auðvelda aðgerð að ræða, tiltölulega ódýra um leið, en ekkert er úr því dregið að samhliða þarf að gera margþættar aðgerðir, m. a. í sambandi við markaðsmálin.

Ég rek þetta ekki nánar. Svo skýrlega hefur Sigurjón Arason hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins gert grein fyrir öllum þáttum þessa máls í sinni ítarlegu greinargerð, þ. e. vinnslugreinum, möguleikum þar, verðmætamöguleikum og beinum útreikningum þar að lútandi, markaðsstarfi, kostnaðarhliðinni á alla vegu — og framtíðarsýn, ef best tekst til, svo sem hann leiðir fram rök fyrir að til geti tekist.

Ég lýk þessari framsögu með beinni tilvitnun í lok greinargerðar Sigurjóns. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Að lokum, ef Íslendingar ætla sér á annað borð að snúa sér að kolmunnavinnslu, þá verða þeir að fara til þess. Ein þurrkstöð eins og talað er um í frv. og aðstaða til frystingar á flökum og marning mundi veita 50–60 manns atvinnu auk sjómanna við veiðar og framleiða má úr um 64–100 tonnum af hráefni á dag. Þessi stöð kostaði um 10 millj. kr. ef allt yrði keypt nýtt í hana.

Ef reiknað er með því, að hægt væri að afla hráefnis jafnlengi og Rússar, en vitað er að þeir hafa verið á veiðum austur af landinu í 4–5 mánuði eða í 18 vikur, þá ætti verksmiðjan að geta unnið úr 10 þús. tonnum.

Í þurrkstöðinni er einn þurrkari með afköst 15 tonn á sólarhring og ef hann er starfræktur í 300 daga á ári, þá færu 4500 tonn í þurrkun, en hinn hlutinn yrði settur í frystingu, annaðhvort sem flök eða marningur.

Markaðshorfur fyrir kolmunnaafurðir virðast vera betri í dag en áður hefur verið.“

Hér lýkur tilvitnun í greinargerð Sigurjóns Arasonar og ég hef ekkert frekar um þessa till. að segja. Hér er um brýnt þjóðhagslegt atriði að ræða, jafnt varðandi fiskveiðar og fiskvinnslu. Mér er það ljóst, að hér er ekki komið að neinni einhlítri lausn, en að einhverri slíkri skipan, sem þessi till. lýtur að, þarf að vinna af fullri einurð og gera allt sem unnt er til að nýta þessa auðlind okkar sem best, sem aðrir nýta í dag. Því er þessari till. enn hreyft hér á Alþingi.

Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til hv. atvmn.