11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2403 í B-deild Alþingistíðinda. (2019)

118. mál, alþjóðleg ráðstefna um afvopnun á Norður-Atlantshafi

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins — vegna orða hv. 6. þm. Norðurl. e. áðan um Norðurlandaráð sem vettvang fyrir þessa umræðu — koma því á framfæri, að á síðasta Norðurlandaráðsþingi, sem ég átti kost á að sitja, skrifuðum við átta fulltrúar, allir frá sósíalískum flokkum á Norðurlöndum, ráðherranefndinni bréf þar sem við óskuðum eftir að fyrir næsta Norðurlandaráðsþing, sem haldið verður í Helsinki í næsta mánuði, yrði haldin ráðstefna um kjarnorkulaus Norðurlönd. Svar við þessu bréfi fékkst og var erindinu hafnað.

Eins og þm. hafa getað séð er hér í 16. hefti rits Nordisk Kontakt sagt frá því, að norska sendinefndin í Norðurlandaráði hafi nýlega gefið út þá yfirlýsingu, að hún telji að ekki skuli ræða öryggismál og þau mál, er varða kjarnorkulaus Norðurlönd, innan ráðsins. Ég lýsi hér með þeirri skoðun minni, að mér finnst þetta ákaflega miður. Norðurlandaráð getur verið mjög öflug stofnun, hefur verið það á mörgum sviðum menningarmála, fræðslumála og slíkra málaflokka. En það hlýtur að koma okkur dálítið spánskt fyrir sjónir ef ekki má ræða í Norðurlandaráði þau málefni sem skipta þessar þjóðir e. t. v. lífi eða dauða. Það þarf ekki að koma neinum hv. þm., síst af öllum hv. 6. þm. Norðurl. e., á óvart að Norðurlandaráð virðist a. m. k. ekki enn sem komið er vera hugsanlegur grundvöllur fyrir þessa umræðu.