27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

197. mál, áhrif viðskiptakjara á verðbætur á laun

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. 16. maí s. l. voru samþykki hér á Alþingi lög um breytingu á lögum um almannatryggingar sem fólu það í sér, að hver sem stundað hefur sjómennsku í 25 ár eða lengur skal eiga rétt á töku ellilífeyris frá og með 60 ára aldri, enda sé að öðru leyti fullnægt skilyrðum þessarar greinar. Starfsár sjómanna skal í þessu sambandi miðast við að sjómaður hafi verið lögskráður á íslensk skip eigi færri en 180 daga að meðaltali í 25 ár. Nánari ákvæði um framkvæmd skulu sett með reglugerð.

Frá því að þetta gerðist eru liðnir röskir fimm mánuðir og síðast þegar ég vissi til hafði ekki verið sett reglugerð að þessu lútandi. Ég hef því leyft mér að bera fram á þsk j. 34 ásamt hv. þm. Pétri Sigurðssyni svohljóðandi fsp. til hæstv. ráðh.:

„1. Hefur ráðh. í hyggju að setja reglugerð, svo sem lög gera ráð fyrir, um framkvæmd þess ákvæðis í 7. mgr. 11. gr. laga um almannatryggingar sem fjallar um aukin ellilífeyrisréttindi sjómanna?

2. Ef svo er, hvenær má vænta þeirrar reglugerðar?“ Þegar þetta mál var til umr. voru um það skiptar skoðanir að hve miklu leyti þetta gæti komið til góða þeim sem hér kynnu að eiga hlut að máli. Ýmsir voru þeirrar skoðunar, að þetta mundi ná til tiltölulega fárra einstaklinga í sjómannastétt. Einnig var á það bent, að ákvæði laganna, eins og frá þeim var gengið, gætu orðið til þess að torvelda þó nokkrum hópi sjómanna, sem gætu undir þetta fallið, að koma þarna til greina. Mér er kunnugt um það, að um þetta er mikið spurt. Sjómenn mæna vonaraugum til þess, að þarna sé í augsýn leiðrétting á stöðu þeirra að því er varðar þessi mál. Marga fleiri en mig er farið að lengja eftir reglugerð af hálfu hæstv. ráðh. og því er um þetta spurt.