11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2410 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

185. mál, íslenskt efni á myndsnældum

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Það gerast nú þunnskipaðir þingbekkir og má í rauninni velta því fyrir sér, hvern tilgang það hafi að mæla fyrir málum og halda uppi umr. úr þessum ræðustól þegar ekki eru fleiri hv. þm. viðstaddir en raun ber nú vitni. Raunar er það kannske athugunarefni einnig, hvernig á því stendur að hv. þm. sjá sér ekki fært að sitja á þingfundi betur en raun ber vitni.

Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 297 till. til þál. um íslenskt efni á myndsnældum. Þessa till. flyt ég ásamt öðrum þm. Alþfl. Þessi till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntmrh. að beita sér fyrir því, að upp verði teknar viðræður við eigendur höfundarréttar íslensks efnis, sem flutt hefur verið í Ríkisútvarpinu — sjónvarpi, er hafi það markmið að setja reglur er gefi almenningi kost á að fá íslenskt sjónvarpsefni til láns eða kaups á myndsnældum.“

Ekki þarf um það mörgum orðum að fara, að það gerist nú æ algengara að fólk hér eigi myndbandstæki. Þessi tæki eru ýmist notuð til þess að taka upp efni úr dagskrá sjónvarpsins til síðari skoðunar eða til þess að sýna aðfengið efni. Í bráðabirgðaskýrslu, sem svokölluð myndbandanefnd sendi menntmrh. 4. des. á s. l. ári, kemur það t. d. fram, að í Grindavík sé talið að myndbandstæki séu á 70% allra heimila. Enn fremur kemur það fram í nefndri skýrslu, að í Siglufirði muni vera a. m. k. 100 tæki af þessu tagi. Annars er það svo, að það er erfitt að afla áreiðanlegra upplýsinga um útbreiðslu myndbandstækja, en það er víst að hún fer mjög ört vaxandi.

Það kemur einnig fram í þessari skýrslu, sem ég hef vitnað til, að fyrirtæki, sem leigja almenningi myndsnældur með efni, eru talin vera um 30. Þau starfa ekki aðeins hér á Reykjavíkursvæðinu, heldur einnig úti um land. Menn þurfa ekki annað en lesa t. d. smáauglýsingar síðdegisblaðsins til þess að sjá hversu mörg fyrirtæki er hér um að ræða. Þau bjóða mörg hver hundruð erlendra kvikmynda og þátta. Eitt er sameiginlegt öllum þessum fyrirtækjum, og það er að það efni, sem þau hafa á boðstólum handa almenningi, er eingöngu erlent.

Þessi staðreynd, að eigendur íslenskra myndbandstækja eiga eingöngu völ á erlendu efni ótextuðu, óþýddu, frá þessum fyrirtækjum eða leigumiðstöðvum, á rætur til þess að rekja, að engar reglur eru í gildi um hver skuli vera þáttur flytjenda og höfunda ef íslenskt efni stæði til boða á myndsnældum.

Það er skoðun flm. þessarar till., að þótt margt af því erlenda efni, sem er á boðstólum hjá þessum leigumiðstöðvum, sé vissulega vel boðlegt og ágætisefni innan um, þá sé þar því miður einnig að finna töluvert af efni sem varla muni hægt að kalla vandað og enn síður muni hægt að kalla menningarlegt. Til þess að vega upp á móti þessu flóði af erlendu efni, sem eins og ég áðan gat um er hvorki textað né þýtt, telja flm. þessarar þáltill. nauðsynlegt að settar verði reglur sem geri það kleift að almenningur eigi þess einnig kost að fá íslenskt efni á myndböndum. Til þess að svo megi verða verður að semja við þá sem eiga rétt á því efni, þá sem hafa samið það og flutt.

Nú er þess að geta, að mál svipað þessu hefur áður borið á góma hér á Alþingi. Á síðasta þingi fluttu nokkrir hv. þm. frv. til l. um breyt. á útvarpslögum fyrir almenningsbókasöfn og sjómannastofur myndsegulbandsspólur með öllu því efni til fróðleiks og skemmtunar er á dagskrá hefur verið a. m. k. tvo mánuði eftir útsendingu, enda takist samningar við rétthafa efnis. Till. okkar Alþfl.-manna er að því leyti ólík þeirri till. að við gerum ráð fyrir að allt íslenskt efni verði á boðstólum handa almenningi ótímabundið. Við gerum ráð fyrir því sömuleiðis, að hæstv. menntmrh. verði falið að taka upp viðræður við eigendur flutningsréttar með það fyrir augum að setja slíkar reglur. Í frv., sem hér var til umr. í fyrra, var gert ráð fyrir að þetta ætti við um allt efni. Ég á von á að margvíslegir örðugleikar mundu verða samfara slíkri framkvæmd. M. a. þyrfti líka þá að semja við alla rétthafa hins erlenda efnis sem sjónvarpið flytur. Af nokkurri þekkingu á þeim málum hygg ég að slíkt mundi verða nokkuð torsótt í framkvæmd. Vera má að slíkt takist, en skynsamlegra væri þó að byrja á íslenska efninu því að hægust eru heimatökin.

Myndsegulbandstækin hér skipta áreiðanlega þúsundum. Ekki er að efa að þegar merkilegt efni er sýnt í íslenska sjónvarpinu taka mjög margir, sem eiga myndbandstæki, það efni upp. Þannig verða kannske til nokkur hundruð eintök af hverju íslensku leikriti, ef ekki þúsund, þegar það er sýnt. Þetta skapar auðvitað vandkvæði og hættu — þá hættu að þetta efni verði misnotað með einhverjum hætti. Sú hætta er óneitanlega fyrir hendi. Sá möguleiki er nærtækur. Öll þessi fjölföldun efnisins á sér stað án þess að nokkur umbun eða laun komi til þeirra sem þar hafa lagt hönd að verki við að semja eða flytja.

En svo ég víki aftur að þessari till. sýnist eðlilegast í þessu sambandi að Ríkisútvarpið — sjónvarp yrði sá aðili sem fjölfaldaði eða framleiddi þessar myndsnældur með íslensku efni eftir að samningar hefðu tekist við flytjendur og eigendur höfundarréttar. Síðan mætti auðvitað sem best hugsa sér, og raunar hlýtur það að verða framkvæmdin þegar fram í sækir, að almenningsbókasöfn í landinu yrðu dreifingaraðilar fyrir þetta sjónvarpsefni á myndsnældum. En einnig ætti fólki að standa til boða að fá slíkt efni keypt, ekki aðeins leigt.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri, en legg áherslu á að í menningarlegu tilliti er okkur brýn nauðsyn að gefa almenningi kost á að geta einnig á heimilum sínum skoðað eftir hentugleikum, vild og vali íslenskt sjónvarpsefni, ekki aðeins erlent efni þó að margt af því geti auðvitað verið ágætt. Þetta verður að fara saman ef vel á að vera. Hvort tveggja verður að standa til boða.

Nú flytja blöð og fjölmiðlar af því fregnir, að menn búi sig undir að setja hér upp eins konar litlar jarðstöðvar til að taka á móti efni frá erlendum gervihnöttum. Framkvæmdir af því tagi virðast vera á döfinni bæði í Vestmannaeyjum, Seltjarnarnes hefur verið nefnt, svo og hér í höfuðborginni, en þess mun ekki langt að bíða að hafnar verði útsendingar á efni um breskan gervihnött sem talið er að hér muni sjást allvel. Það er auðvitað ekkert ólöglegt við að íbúar staða eða bæjarhluta bindist samtökum um að koma upp loftnetskerfi til að taka á móti slíku, þ. e. ef um auglýsingasjónvarp er að ræða sem öllum stendur til boða og frjáls afnot eru af. Þá hygg ég að ekkert muni óeðlilegt við slíkt, ekki frekar en að hverjum manni, sem á sæmilegt útvarpstæki, er að sjálfsögðu frjálst og heimilt að vild að hlusta á erlendar útvarpsstöðvar. Þetta er nákvæmlega af sama toga. Allt öðru máli gegnir hins vegar þegar menn eru að taka sér frumkvæði um að flytja efni sem þeir hafa ekki rétt til að flytja. Það er allt annað. Á þessu er eðlismunur og auðvitað gerir tilkoma erlends sjónvarps með þessum hætti í íslenska menningarhelgi enn þá brýnna en áður að til sé íslenskt mótvægi, almenningur eigi kost á fjölbreyttu úrvali af íslensku efni á myndsnældum. En til þess þarf, eins og ég áður sagði, að hefja samningaviðræður við fulltrúa listamanna, við höfunda og við flytjendur. Það eru auðvitað hagsmunir þeirra að fá eitthvað greitt fyrir sín verk þegar þau eru notuð og þeirra neytt. Ég get ekki ímyndað mér annað en slíkar viðræður hlytu að leiða til samkomulags sem hefði síðan í för með sér að almenningur ætti valkosti í þessum efnum og gæti horft á að vild, þeir sem eiga myndsegulbandstæki. Þeim mun fara ört fjölgandi. Áreiðanlega verða þessi tæki nær því á hverju heimili áður en langt um liður, og þá eiga menn þess kost að horfa jafnframt á íslenskt efni og geta gert það þannig að hvergi jaðri við að þar sé farið á svig við lög.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, en legg til að þessari til. verði vísað til hv. allshn. Sþ. til umfjöllunar og meðferðar.