11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2412 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ekki skal ég svo sem lengja þessa umr. tiltakanlega, en ég kvaddi mér hljóðs eingöngu vegna þess að þau ummæli, sem hæstv. forsrh. lét falla í umr. utan dagskrár í dag, voru þess eðlis, að þeim verður að mótmæla. Satt best að segja verð ég að segja að þau orð, sem hæstv. forsrh. lét falla hér í umr., voru honum ekki sæmandi, voru þingmanni ekki sæmandi og voru engum manni sæmandi, vil ég segja.

Hæstv. forsrh. sagði: Fréttatilkynningar eru ekki sendar alþm. — Þetta er auðvitað alveg rétt. Það hefur enginn maður gert það sérstaklega að umtalsefni. En er hins vegar til of mikils mælst að alþm. fái að vita efni brbl. sem út eru gefin?

Það kom sömuleiðis fram í máli hæstv. forsrh., að það væri undantekning að brbl. væri fylgt úr hlaði með sérstakri fréttatilkynningu. Nú get ég að vísu ekki talað nema út frá eigin reynslu sem blaðamaður fyrst í 5 ár og síðan fréttamaður ríkisfjölmiðils í 11 ár, en ég minnist þess ekki að út hafi verið gefin brbl. öðruvísi en lagatextinn væri boðsendur til fréttastofanna. Ég minnist þess ekki, að þetta hafi gerst öðruvísi. Það er svo auðvitað rétt, að fréttastofnunum berast sjálfsagt slíkar tilkynningar í pósti í formi blaðs úr Stjórnartíðindum eftir 2–3 daga frá útgáfu laganna. Ég ræddi í dag við starfandi fréttastjóra sjónvarpsins. Hann kannaðist ekki við að hafa séð neitt um þetta efni, en vildi þó ekki taka fyrir að það kynni að hafa borist. Á fréttastofu útvarps kom í ljós að þangað hafði einhvern tíma borist þetta blað úr Stjórnartíðindum. Það var ekki vitað hvenær. En það er undarleg tilviljun ef það fer fram hjá öllum landsins fjölmiðlum þegar út eru gefin brbl. af þessu tagi. Það bendir til að ekki hafi verið staðið að kynningu þeirra með þeim hætti sem ætlast verður til.

Enginn dregur í efa að lögin hafi verið birt með lögformlegum hætti. Það hefur enginn maður dregið í efa og hvergi verið sagt í þessum umr. Hins vegar endurtek ég að það hefur verið regla, að brbl. hafa verið kynnt fjölmiðlum með þeim hætti að lagatextinn, ýmist með fréttatilkynningu eða án fréttatilkynningar, hefur verið boðsendur á ritstjórnir fjölmiðlanna. Þau mistök hafa greinilega orðið í þessu tilviki að það hefur ekki verið gert.

Til að bæta nú úr þessu höfum við hv. þm. Alþfl. í Ed. lagt frv. inn til skjalavarðar þingsins þar sem lögð er til breyting á lögum um birtingu laga og stjórnvaldsathafna. Þar verði sett inn ákvæði um að brbl. skuli einnig kynna, með þeim hætti að senda fréttatilkynningar til útvarps, sjónvarps og dagblaða. Ég held að það sé ekki til of mikils mælst að efni brbl. sé kynnt með þessum hætti.

Mér hefði fundist miklu eðlilegra að hæstv. forsrh viðurkenndi, að hér hefðu mistök átt sér stað, en halda hér uppi þeim málflutningi sem hann hefur — leyfi ég mér að segja — því miður gert, því að það hefur hvorki verið honum né hans ríkisstj. til mikils sóma.