15.02.1982
Efri deild: 43. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2417 í B-deild Alþingistíðinda. (2030)

191. mál, Blindrabókasafn Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. um blindrabókasafn er samið af nefnd sem skipuð var af ráðh. 12. febr. 1979, en nefndin skilaði áliti 28. apríl 1981. Í nefndinni áttu sæti Kristín H. Pétursdóttir bókafulltrúi í menntmrn., sem var formaður, Elfa Björk Gunnarsdóttir borgarbókavörður í Reykjavík, Halldór S. Rafnar formaður Blindrafélagsins, Helga Ólafsdóttir bókavörður og Gísli Helgason starfsmaður hljóðbókadeildar Blindrafélagsins.

Frv. þetta felur í sér grundvallarbreytingu á eignarhaldi og rekstri bókasafns fyrir blinda í landinu. Kjarni frv. er sá, að bókaþjónusta við blinda og sjónskerta og aðra, sem ekki geta lesið venjulegar bækur vegna fötlunar, verði sérstök starfsemi á vegum ríkisins og leysi af hólmi núverandi Hljóðbókasafn Blindrafétags Íslands og Borgarbókasafns í Reykjavík.

Eins og málum háttar nú er bókaþjónusta við blinda fyrst og fremst á vegum Hljóðbókasafnsins og hefur verið svo a.m.k. síðan 1975 þegar safnið hóf starfsemi sína. Reyndar á þessi starfsemi allmiklu lengri sögu.

Samtök blindra hófu bókagerð á blindraletri fyrir rúmlega hálfri öld eða í kringum árið 1930. Hins vegar er útgáfa á blindraletri afar erfið og kostnaðarsöm, auk þess sem fjölmargt blint fólk, t.d. aldrað fólk, kann ekki blindraletur og á erfitt með að læra það. Á undanförnum árum hafa viðhorf á þessum málum verið að breytast. Með tilkomu segulbanda og síbættri upptökutækni og möguleikum þess að dreifa lestrarefni á meðfærilegum segulbandsspólum hefur aðstaða í þessum efnum gerbreyst. Í flestum menningarlöndum, ekki síst á Norðurlöndum, hefur verið leitast við að nýta þessar tækniframfarir í þágu þeirra sem ekki geta lesið venjulegar bækur vegna fötlunar.

Íslendingar hafa fylgst vel með umræðum og aðgerðum í þessum málum. Blindrafélag Íslands hefur tvímælalaust haft forustu í þessum efnum, eins og jafnan þegar um hagsmunamál blindra hefur verið að ræða. Blindrafélag Íslands er eitt gleggsta dæmið um framtak og samtakamátt frjálsra mannúðarfélaga hér á landi. Í fremstu röð í þessum félagsskap standa menn sem sjálfir eru fatlaðir, en eru annars gæddir svo miklum hæfileikum og dugnaði að þeir eru fullfærir um að ráða sínum málum sjálfir og sækja fram á eigin spýtur í baráttu sinni fyrir bættum kjörum og mannréttindum. Sjálfsbjargarstarf fatlaðs fólks hér á landi er í einu orði sagt aðdáunarvert og á ég þá við fatlað fólk í víðtækri merkingu og nota sjálfsbjargarhugtakið um alla félagsstarfsemi og félagslegt framtak fatlaðs fólks, hvernig svo sem fötlunin lýsir Sér.

Samtök blindra eiga vissulega sammerkt með öðrum félagsskap fatlaðra að vinna af ósérplægni að bættum kjörum félagsmanna sinna. Í þeim félagsskap leggjast allir á eitt um að efla getu hvers einstaklings til sjálfsbjargar og lífsfyllingar. Það var í samræmi við þá stefnu og viðhorf að Blindrafélagið hafði sjálft forgöngu um það að farið var að hljóðrita bækur vorið 1957 og koma þannig upp fyrsta vísi að hljóðbókasafni. Þessi starfsemi hefur síðan verið að smáaukast þau 25 ár sem hún hefur staðið. Þá gerðist það í kringum 1970 að Borgarbókasafn Reykjavíkur fór að viða að sér hljóðrituðum sögum frá Ríkisútvarpinu. Jafnframt því voru nokkrar bækur lesnar sérstaklega á vegum safnsins.

Sýnt var að Blindrafélagið og Borgarbókasafn höfðu hag af því að starfa saman að hljóðbókagerð og í okt. 1975 var gerður samningur milli þessara aðila. Borgarbókasafn hefur annast dreifingu bókanna og greitt laun eins tæknimanns. Blindrafélagið leggur til tækjabúnað og húsnæði, en efniskostnaði er skipt milli aðila.

Það er vert að geta sérstakrar samvinnu við Ríkisútvarpið í þessu sambandi. Þegar Hljóðbókasafnið tók formlega til starfa árið 1975 var komið á samvinnu við Ríkisútvarpið á þann hátt, að þær sögur, sem þar eru lesnar, eru afritaðar hjá Blindrafélaginu og lánaðar út frá Hljóðbókasafninu. Fyrir þessa samvinnu við Ríkisútvarpið hefur Hljóðbókasafn eignast dýrmætar hljóðbækur sem nema stórum hluta heildarbókakostsins. Ríkisútvarpið hefur veitt þessa þjónustu endurgjaldslaust.

Höfundarréttarmál tengjast þessari starfsemi sem að líkum lætur. Hafa þau verið leyst með samkomulagi til þessa, en hljóta þó að vera til endurskoðunar eins og höfundarréttarmál yfirleitt, sem reyndar eru til endurskoðunar í sérstakri nefnd. Rithöfundasamband Íslands hefur heimilað Hljóðbókasafni að gera fjögur eintök af hverri bók, en þó er áskilið samþykki hvers höfundar í hverju einstöku tilfelli, enda kemur engin greiðsla til höfundar fyrir leyfi til hljóðritunar eða útlána. Svo örlátir eru rithöfundar og fullir mannúðar.

Þess er einnig að geta, að allur lestur fer fram í sjálfboðavinnu. Til þessa starfs hefur ekki skort sjálfboðaliða, því að á fyrstu 5 árum starfseminnar höfðu yfir 130 manns tekið að sér slíkan lestur og sú tala hefur hækkað undanfarið ár.

Bókaþjónusta við blinda hefur leitt í ljós að mikil þörf er fyrir þessa starfsemi. Engan veginn er hægt að fullnægja eftirspurninni. Þess vegna er kominn tími til að efla starfsemina og finna henni nýjan grundvöll. Með þessu frv. er einmitt stefnt að slíku. Með framtaki Blindrafélagsins og fyrir áhuga forráðamanna Borgarbókasafnsins í Reykjavík, hefur verið unnið ómetanlegt brautryðjendastarf á þessu sviði. Nú er komið að því að ríkið veiti meiri og fastmótaðri liðveislu í því að halda uppi bókaþjónustu fyrir blinda. Hlýt ég að benda á að fram á síðustu ár hefur ríkið ekki veitt þessari starfsemi umtalsvert fé né annan atbeina. Framtak í þessum efnum hefur fyrst og fremst orðið fyrir frjálsa félagastarfsemi og góðan skilning Borgarbókasafns í Reykjavík, ágæta liðveislu Ríkisútvarpsins, tilhliðrunarsemi íslenskra rithöfunda og óeigingirni fjölda sjálfboðaliða. Ríkissjóður hefur í áranna rás veitt óverulegar fjárhæðir til prentunar bóka á blindraletri. Árið 1978 fékk Blindrafélagið 1.2 millj. gkr. styrk á fjárlögum til hljóðbókagerðar. Árið 1979 féll þetta framlag hins vegar niður. Á fjárlögum fyrir árið 1980 voru veittar 4 millj. gkr. til hljóðbókagerðar. Á fjárl. fyrir árið 1981 var þessi upphæð 80 þús. kr. Og á fjárl. fyrir árið 1982 er fjárveitingin 220 þús. kr., þ.e. á gildandi fjárlögum.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, segir svo í 8. gr., að kostnaður við starfsemi Blindrabókasafns Íslands greiðist úr ríkissjóði eftir því sem fé er veitt í fjárlögum. Hér er því ekki verið að marka stefnu um bundnar eða fastákveðnar fjárhæðir, heldur er fjárveitingavaldinu ætlað að ákveða frá ári til árs hversu miklu fé skuli varið í þessu skyni. Þótt 4 gr. frv. geri ráð fyrir að stjórn Blindrabókasafns geri framkvæmdaáætlanir og beri ábyrgð á starfsemi og fjárreiðum stofnunarinnar er ljóst að fjárráð og framkvæmdageta hljóta að miðast við fjárveitingar hverju sinni. Málavextir eru eigi að síður þeir, að ef þetta frv. verður að lögum tekur ríkið á sig þá ábyrgð að reka blindrabókasafn og sjá blindu og sjónskertu fólki fyrir bókaþjónustu.

Ég ætla ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð en þegar hafa verið sögð af minni hálfu, en ég tel tímabært að ríkið taki að sér þessa starfsemi. Það brautryðjendastarf, sem þegar er unnið og enn er verið að vinna, er afar mikilvægt og mjög þakkarvert. En þó að ríkið tæki starfsemina að sér samkv. lögum væri að því eftirsjá ef hið frjálsa félagastarf og sjálfsbjargarviðleitni dæi út á þessu sviði. Íslenskt félagslíf og mannúðarstarf yrði fátækara eftir en áður.

Í 2. gr. þessa frv. er ákvæði sem segir, að Blindrabókasafnið skuli vinna í nánum tengslum við samtök blindra og sjónskertra. Það er framkvæmdaratriði hvernig ákvæði sem þessu verður fullnægt. E.t.v. er þetta aðeins fróm viljayfirlýsing án mikils kjarna því að svo er einnig fyrir mælt að í 5 manna stjórn Blindrabókasafns skuli sitja tveir fulltrúar frá samtökum blindra og sjónskertra. Tengslin við hagsmunasamtök blindra ættu því að vera tryggð með því eina ákvæði þótt ekki kæmi fleira til. Ég vil því leggja sérstaka merkingu í ákvæði 2. gr. um að safnið vinni í nánum tengslum við samtök blindra. Í því felst að sjálfsögðu skylda ríkisins um samstarf við hagsmunasamtök blindra, en ég leyfi mér að halda því fram að í því felist einnig tilmæli til samtakanna um að láta Blindrabókasafn Íslands njóta áfram hins félagslega framtaks Blindrafélagsins í hvaða formi sem það verður gert. Ég get nefnt að Blindrafélagið ræður yfir húsnæði sem kynni að henta fyrir Blindrabókasafnið. Hugsanlega mætti hefja samstarf við Blindrafélagið um þetta tiltekna atriði því að ekki verður hjá því komist að ætla Blindrabókasafni viðunandi húsnæðisaðstöðu.

Herra forseti. Ég vænti þess, að þetta frv. fái góðar viðtökur í hv. deild. Ég legg til að málinu verði vísað til hv. menntmn. þegar umr. lýkur um málið.