15.02.1982
Efri deild: 43. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2420 í B-deild Alþingistíðinda. (2032)

60. mál, lyfsölulög

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.og trn. Ed. hefur haft þetta frv. alllengi til umfjöllunar. Eins og kunnugt er hefur Háskóli Íslands raunar nú þegar keypt Reykjavíkurapótek. Upphaflega var álitið nægjanlegt að slíkar heimildir til rekstrar til handa Háskólanum væru í háskólalögum. Að betur athuguðu máli var það ekki að dómi fróðra manna, í því sambandi þyrfti að gera breytingar á lyfsölulögum. Þær breytingar, sem hér eru tíundaðar, eru einmitt í því tilefni gerðar.

Heilbr.- og trn. leggur til smávægilega breytingu á þessu frv., að ákvæði til bráðabirgða komi þar inn til að tryggja óyggjandi rétt Háskólans til að hafa í starfi sem forstöðumann núverandi lyfsala Reykjavíkurapóteks.

Ég sé ekki ástæðu til að fjalla um þetta frekar. Ég vil þó geta þess, að haft var samband við forráðamenn Háskólans og sér í lagi háskólarektor um þetta frv. Með vitund og vilja háskólarektors leggur nefndin sem sagt til að frv. verði samþ. með þeirri breytingu sem þegar hefur verið gerð grein fyrir.